Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 ágúst 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um væntanleg endalok R-listans, sem nú riðar til falls sem framboðsafl þriggja flokka í Reykjavík. Spái ég í þá stöðu sem uppi er innan rústanna í R-listanum er við blasir að þrenn flokkaframboð leysi þetta eina félagshyggjuframboð af hólmi, sem boðið hefur fram í þrennum kosningum frá árinu 1994. Beini ég sjónum mínum að því hvað taki við og hvað sé þess valdandi að R-listinn virðist vera að líða undir lok. Ræður þar að mestu persónurígur og innri valdaátök. Enginn er jú málefnaágreiningurinn. R-listinn er fyrir löngu orðinn þurrausinn. Hugmyndafræðilega snýst hann bara um völd og það hvernig skipta eigi þeim. Málefnin eru algjörlega komin í skottið – algjörlega gleymd nema þegar á að heilla kjósendur kortéri fyrir kjördag með gömlum endurvinnanlegum loforðum í takt við eitthvað nýtt. Það hefur þetta fólk getað gert seinustu tvö skiptin og sett svo óvinsælu frambjóðendurna í geymsluna fram að kjördag. En nú virðist R-listinn vera að geispa golunni.

- í öðru lagi fjalla ég um spunamennsku Baugs sem kynnti ákæruatriðin gegn sér í Fréttablaðinu með sérstökum hætti. Eins og allir vita sem lesa Fréttablaðið og þekkja umræður um fjölmiðla á Íslandi eru feðgarnir Jóhannes og Jón Ásgeir ekki ókunnir blaðinu og rekstri þess. Þeir eiga jú allstóran hluta í blaðinu og meiru til á fjölmiðlamarkaði. Egill Helgason skrifaði í gær mjög athyglisverðan en stuttan pistil um þetta mál á vef sinn. Hann fer hörðum orðum um Fréttablaðið og vinnubrögðin þar. Engin furða í því. Tek ég undir með honum er hann kallar þetta versta dómgreindarbrest sem sést hafi í íslenskum fjölmiðli. Það sést sífellt betur og betur hversu gríðarleg mistök það voru að fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem deilt var gríðarlega um á síðasta ári, varð ekki að lögum.

- í þriðja lagi fjalla ég svo um umhverfisverndarterroristana sem verið hafa í fréttum og sumir kalla mótmælendur. Á föstudag gerði einn viðkomandi sér lítið fyrir og spreyjaði ókvæðisorð á þinghúsið og stöpulinn að styttu Jóns Sigurðssonar forseta, og reyndar fleiri mannvirki í miðbænum. Þetta er dæmi um vinnubrögð þessa fólks sem því miður virðist búin með öll málefnaleg rök í baráttu sinni og beitir afli með ótrúlegum hætti. Lögreglan á hrós skilið fyrir sín vinnubrögð og hvernig hún hefur komið fram í málinu, að mínu mati.


Pólitíska ræman
Primary Colors

Í kvikmyndinni Primary Colors er sögð saga bandaríska forsetaframbjóðandans Jack Stanton, sem er ríkisstjóri í suðurríkjafylki í Bandaríkjunum, og hinnar framagjörnu eiginkonu hans, Susan. Er áhorfandinn kemur inn í söguna blasir við að Stanton háir erfiða kosningabaráttu þar sem margt er honum þungt í skauti. Hann er fjarri því sá sem leiðir baráttuna og þarf nauðsynlega á meiri afli að halda til að eflast á lokasprettinum til að tryggja sér útnefningu flokks síns. Hann ákveður að breyta taktík baráttunnar og fær til liðs við sig litríkan hóp sérfræðinga á sviði pólitíkur og almannatengsla. Þar fara fremst í flokki Richard Jemmons og Libby Holden, sem eru öll vön í alvöru kosningabaráttu og þekkja frambjóðandann frá fornu fari. Ennfremur er blökkumaðurinn Henry Burton ráðinn til starfa. Fljótlega eftir komu þeirra inn í baráttuna eflist Stanton og sigurmöguleikar hans vaxa dag frá degi í kosningabaráttu sem virðist í raun vera keppni um það að geta atað andstæðinginn meiri auri. Við sjáum Stanton og einkalíf hans með augum Burton sem er sögumaður myndarinnar - maður sem trúir á hið góða og er talsmaður réttlætis gegn ranglæti. Hann sér fljótt að Stanton er gæddur mjög miklum persónutöfrum og er annt um alþýðu fólks, kjósendurna, og telur að hann sé sá eini rétti í kosningaslagnum.

En það er flagð undir fögru skinni - Burton kemst að því áður en langt er liðið á baráttuna að oft geta persónuleikabrestir leynst innan um kosti tilverunnar - mannlegu yfirburðina í fari mannsins. Hann sér að Stanton er ekki allur þar sem hann er séður er óþægileg hneykslismál fara að skjóta upp kollinum, einkum um prívatlíf hans. Að því kemur að Burton fer stórlega að efast um tilveru frambjóðandans og persónuna og veltir því fyrir sér hvort hann eigi að vinna fyrir siðferðislega glataðan mann sem þó virðist hafa stefnumál á hreinu og mannlega ásýnd í gegnum kosningamál sín. Þetta er stórfengleg kvikmynd, sem sló algjörlega í gegn er hún var frumsýnd árið 1998. Áhorfandinn þarf reyndar ekki að horfa lengi á myndina þegar að hann áttar sig á því hvaða kosningabaráttu er lýst í myndinni og hver forsetaframbjóðandinn er. Allir sjá að hér er lýst forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 1992 og forsetaframbjóðandinn er að sjálfsögðu enginn annar en Bill Clinton þáv. ríkisstjóri í Arkansas, sem var kjörinn forseti Bandaríkjanna í þeim kosningum, þvert á margar spár í upphafi. Sagan er í smáatriðum nær algjörlega eins og hjá Clinton og atburðir baráttunnar 1992 koma hér ljóslifandi fram að miklum hluta.

Emma Thompson og John Travolta í hlutverkum Stanton-hjónanna í myndinni Primary Colors

Handrit myndarinnar er í einu orði sagt perla. Elaine May samdi handritið og byggði það á bókinni Primary Colors sem kom út fyrir forsetakosningarnar 1996. Höfundurinn var í upphafi nafnlaus og var lengi um það deilt hver hann væri. Eftir að höfundurinn gerði þau afdrifaríku mistök að skilja eftir skrifaðar athugasemdir við kvikmyndahandrit myndarinnar sem komst í hendur utanaðkomandi aðila varð ljóst að blaðamaðurinn Joe Klein var höfundurinn. Þekktist rithönd hans og það varð almannarómur að Klein, sem starfað hafði sem kosningaráðgjafi Clintons árið 1992 væri höfundurinn. Hann er blaðamaður á The New York Times. Skrifaði hann bókina sem lýsingu á því sem hann kynntist í fari Clintons forseta og eru lýsingar allnákvæmar sem koma fram í bókinni af því sem hann komst að í starfi sínu. Burton er því skrifaður eftir honum, enda sögumaður þess sem gerist. Um leið og bókin kom út vissu menn hver frambjóðandinn væri og er myndin var frumsýnd varð öllum ljóst hverjir væru persónurnar og hvaða pólitísku átökum væri lýst. Sjá áhorfendur Clinton-hjónin ljóslifandi komin í Stanton-hjónunum, hann sem kvennabósa með gríðarlega útgeislun og hana sem framagjarnan stjórnmálaplottara. Bæði eru þau tilbúin til að gera allt til að ná á leiðarendann.

Myndin er í einu orði sagt stórfengleg. Mike Nichols leikstýrir myndinni af miklu öryggi og nær að yfirfæra glæsilega og táknræna bók með vott af úrvalsgríni og pólitískri plotttilveru stjórnmálaheimsins, með stórfenglegum hætti. Ennfremur gerir Nichols stólpagrín að Clinton og leikur sér með hann fram og til baka sem persónu í myndinni eftir bókinni - segja má að hann geri hann bæði að skúrki sem hefur ekki stjórn á kynlífshegðunum sínum og snillingi í mannlegum samskiptum sem nær að heilla kjósendur með framkomu sinni, þrátt fyrir alla gallana. Bæði er nauðsynlegt til að myndin heppnist og það gerir hún og vel það. Útkoman er ein besta og áhugaverðasta pólitíska kvikmynd seinni ára. Leikurinn er einnig mikið rós í hnappagat myndarinnar. John Travolta fer algjörlega á kostum í hlutverki ríkisstjórans og verður bara Clinton - flóknara verður það ekki. Snilldarleikur, með betri leikframmistöðum hans. Emma Thompson er frábær sem pólitíski framaplottarinn Susan og Billy Bob Thornton er stórfenglegur sem pólitíski klækjameistarinn Richard Jemmons, sem kann öll brögðin í bókinni og gott betur.

Senuþjófur myndarinnar er þó að sjálfsögðu Kathy Bates sem á snilldartakta í hlutverki áróðursmeistarans Libby Holden - sem hefur bæði munninn fyrir neðan nefið og er ófeimin við að beita öllum mögulegum og ómögulegum brögðum til að hlutirnir gangi upp fyrir Stanton. Er þetta hiklaust með betri leikframmistöðum þessarar stórkostlegu leikkonu, og hlaut hún tilnefningu til óskarsverðlauna fyrir stórleik sinn. En þetta er óviðjafnanleg kvikmynd fyrir alla þá sem unna stjórnmálum og þekkja til andrúmsloftsins í bandarískum stjórnmálum, þar sem öllum brögðum er jafnan beitt, hversu slæm svo sem þau kunna að verða fyrir andstæðinginn. Hvet alla stjórnmálaáhugamann að sjá þessa hafi þeir ekki séð hana - þeir sem hafa séð hana hafa gott af því að horfa á hana reglulega. Þetta er og hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldsmyndum. Þessi mynd er alveg paradís fyrir stjórnmálaáhugamenn og þá sem unna bandarískum stjórnmálum. Sannkölluð eðalmynd.

Saga dagsins
1784 Suðurlandsskjálftar - miklir landsskjálftar urðu á þessum degi og einnig tveimur dögum síðar í Rangárvallasýslu og í Árnessýslu. Rúmlega hundrað bæir hrundu til grunna, fjöldi fólks var grafið upp úr rústunum og þrír týndu lífi. Þetta eru taldir mestu jarðskjálftar sem orðið hafa hér á Íslandi. Talið er að sá stærsti hafi verið 7,5 stig á Richtersskala. Flest húsanna í Skálholti skemmdust þá mjög illa.
1951 Bandaríski fjölmiðlakóngurinn William Randolph Hearst lést, 88 ára að aldri - Hearst var einn umfangsmesti blaðaútgefandi í Bandaríkjunum á 20. öld. Hearst var fyrirmyndin að blaðakónginum Charles Foster Kane í Citizen Kane, ógleymanlegri stórmynd Orson Welles, sem lék ennfremur Kane.
1982 Akureyrardeild Ríkisútvarpsins, RÚVAK, tók formlega til starfa - þetta var fyrsta svæðisútvarpið.
1982 Furstahjónin af Mónakó, Grace Kelly og Rainier III, komu í opinbera heimsókn til Íslands. Með þeim í för voru börn þeirra, Karólína og Albert. Grace fórst í bílslysi í hæðunum fyrir ofan Monte Carlo, mánuði síðar, 14. september 1982, 52 ára gömul. Rainier ríkti í Mónakó til æviloka, í apríl 2005.
2000 Rafmagnslaust var í Útvarphúsinu við Efstaleiti í rúma hálfa klukkustund vegna skemmdarverks á rafmagnstöflu. Útsendingar Útvarps og Sjónvarps féllu niður á meðan, enda virkaði vararafstöð ekki.

Snjallyrðið
Ég bið um þá líkn í stutta stund,
sem ljóðinu flugið veitir,
bræðir klakann úr kaldri lund
og kvölum í söngva breytir.

Týnd er sú veröld, sem var mér kær,
og vorlaufið græna bliknað.
En mörg hefur stjarna mild og skær
í móðunni bláu kviknað.

Varla hræðist sá veðraský,
sem vorið í fjarska eygir.
Stráin hrökkva í stormagný,
sem stórviðinn aðeins sveigir.

Þó veturinn herði vilja sinn
og vofur um hjarnið sveimi,
þá glæðir það innsta muna minn,
sem mest er í þessum heimi.

Þeir kunna að finna karlmannslund
í kveðjusöngvunum mínum,
sem aldrei dreymir um óskastund
í ormagarðinum sínum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Óskastundin)