þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum
Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét í dag af ráðherraembætti á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Jafnframt lét Davíð af þingmennsku í dag. Er hann yfirgaf Bessastaði á fjórða tímanum í dag var lokið merkum ferli Davíðs sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hægt er að fullyrða að nýtt pólitískt landslag blasi við nú þegar að Davíð lætur af ráðherraembætti. Hann hefur enda seinustu áratugina verið miðpunktur íslenskra stjórnmála. Davíð hefur setið í ríkisstjórn frá 30. apríl 1991. Hann var forsætisráðherra samfellt í þrettán ár, allt til 15. september 2004 og hefur síðan setið sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins, en flokkarnir hafa unnið saman í ríkisstjórn frá vorinu 1995. Davíð mun láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hans eftir rúman hálfan mánuð. Með þessum þáttaskilum sem áttu sér stað í dag lýkur þriggja áratuga löngum stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar. Mikil þáttaskil eru fólgin í því að hann láti af ráðherraembætti. Hann setið í ríkisstjórn samfellt í tæpan einn og hálfan áratug og verið forystumaður ríkisstjórnar af hálfu flokks síns allan þann tíma. Hann hefur ennfremur þann einstaka árangur í íslenskri stjórnmálasögu að baki að hafa setið samfellt í embættum borgarstjóra og ráðherra í 23 ár.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í ríkisstjórn í 14 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og hefur verið risi í íslenskum stjórnmálum síðan og leitt íslensk stjórnmál. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækur framtíðarinnar munu staðfesta það. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði stór spor í íslenska stjórnmálasögu.
Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með setu í ríkisstjórn með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar og verið óhræddur við að tala tæpitungulaust. Það hefur í senn verið helsti styrkleiki og helsta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem sagt hefur til verka og notið virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn sumarið 1993. Síðan hafa liðið tólf ár. Löngu fyrir þann tíma hafði ég þó mótað mér pólitískan áhuga og hreifst af sjálfstæðisstefnunni. Við ákvörðunina um að ganga í flokkinn hafði líka sitt að segja hver leiddi flokkinn. Ég hreifst af forystu Davíðs Oddssonar - hreifst af krafti hans sem stjórnmálamanns og ekki síður styrkleika hans við forystu Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin.
Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins. Við sem höfum alist upp við forystu Davíðs og unnið í Sjálfstæðisflokknum til fjölda ára undir forystu hans erum honum mjög þakklát fyrir störf hans og forystu. Það verða mikil þáttaskil nú þegar stjórnmálaferli hans lýkur. Íslenskt samfélag gjörbreyttist í þrettán ára forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Til sögunnar komu ný tækifæri - ný sóknarfæri hér á Íslandi. Það er til marks um hversu farsæll Davíð hefur verið að hann hefur samfellt setið í 23 ár sem borgarstjóri og ráðherra. Hann hefur notið stuðnings kjósenda og haft traust þeirra í gegnum öll verkefni þessara ára og pólitísku forystuna sem hann hefur veitt. Við þessi miklu þáttaskil vil ég fyrir mitt leyti þakka Davíð fyrir verk hans í þágu okkar og flokksins okkar. Hann getur farið af stjórnmálasviðinu hnarreistur - hans ævistarf í stjórnmálum er glæsilegt. Ég óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.
Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti utanríkisráðherra af Davíð Oddssyni á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum í dag. Geir hefur gefið kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í október og er alveg ljóst að hann mun taka við forystu flokksins af Davíð á landsfundi. Geir er mjög reyndur stjórnmálamaður. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal forseti Alþingis, setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir hefur verið varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og hafði verið fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, frá 16. apríl 1998, eða í rúm sjö ár er hann lét af því embætti í dag. Nú hefur Geir semsagt tekið við embætti utanríkisráðherra og tekið við nýjum verkefnum eftir farsælan feril í fjármálaráðuneytinu. Verður fróðlegt að fylgjast með Geir í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum, nú þegar hann tekur við utanríkismálunum og fljótlega við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég vil óska Geir góðs í því sem við tekur eftir að hann tekur við formennsku flokksins og vona að honum muni ganga vel í því stóra verkefni sem óneitanlega bíður hans er hann tekur við forystu Sjálfstæðisflokksins af farsælasta foringja okkar flokksmanna, Davíð Oddssyni.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og fyrrum þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti sjávarútvegsráðherra af Árna M. Mathiesen í dag. Einar Kristinn er mjög reyndur stjórnmálamaður og hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann var kjörinn á þing í kosningunum árið 1991 og hefur setið þar síðan, til ársins 2003 fyrir Vestfjarðakjördæmi og síðan fyrir Norðvesturkjördæmi. Hann sat sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í tvö ár, frá vorinu 2003 til gærdagsins. Hann var formaður samgöngunefndar Alþingis 1995-1999, formaður sjávarútvegsnefndar 1999-2003 og formaður efnahags- og viðskiptanefndar í nokkra mánuði árið 2003 og hefur setið í fjölda þingnefnda. Einar Kristinn hefur verið áberandi í forystusveit Sjálfstæðisflokksins til fjölda ára og notið mikils trausts í störfum sínum. Það er tímabært að hann taki sæti í ríkisstjórn og er viðeigandi að hann gegni sjávarútvegsráðuneytinu, vegna þekkingar sinnar á málaflokknum. Það eru vissulega þáttaskil að Vestfirðingur taki við ráðuneytinu en það hefur ekki gerst síðan að Matthías Bjarnason gegndi embættinu á áttunda áratugnum. Ég vil nota tækifærið og óska Einari góðs í störfum sínum í ráðuneytinu.
Árni M. Mathiesen tók í dag við embætti fjármálaráðherra af Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Árni hefur verið á þingi til fjölda ára. Hann sat á þingi fyrir Reykjaneskjördæmi árin 1991-2003 og frá þeim tíma fyrir Suðvesturkjördæmi. Hann hefur verið leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á kragasvæðinu frá árinu 1999, en þá vann hann spennandi prófkjör flokksins í hinu gamla Reykjaneskjördæmi. Er hann sonur Matthíasar Á. Mathiesen fyrrum ráðherra og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Var Matthías fjármálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar árin 1974-1978. 27 árum eftir að Matthías lætur af embætti fjármálaráðherra tekur því sonur hans við embættinu. Eru þeir fyrstu feðgarnir sem gegna embætti fjármálaráðherra. Verður fróðlegt að fylgjast með Árna í störfum sínum í ráðuneytinu. Í næstu viku er komið að fyrsta lykilverkefni hans í embætti, en hann mun þá leggja fram fjárlagafrumvarp ársins 2006 og mæla fyrir því á þingi. Ég vil nota tækifærið og óska Árna til hamingju með fjármálaráðherrastólinn og óska honum heilla í verkum sínum á nýjum vettvangi. Það verður athyglisvert að fylgjast með honum í nýju hlutverki við að kynna fjárlögin í næstu viku.
Á þingflokksfundi í Valhöll í gær var Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kjörin formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í stað Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra, sem gegnt hefur formennsku í þingflokknum frá vorinu 2003. Arnbjörg hefur setið á þingi í áratug. Hún var alþingismaður Austurlandskjördæmis árin 1995-2003 og hefur setið á þingi fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi frá 1. janúar 2004. Arnbjörg er mjög vinnusöm og hefur unnið af krafti, verið í fjölda nefnda og leitt fjölda verkefna af hálfu flokksins þann áratug sem hún hefur setið á þingi. Abba nýtur mikils trausts innan flokksins og meðal þingmanna í þingflokknum. Það sannast með þessu vali. Ég fagna því að henni sé treyst fyrir formennsku í þingflokknum okkar. Hún á það svo sannarlega skilið. Abba er heilsteypt og traust kona sem ég hef unnið með í nokkurn tíma hér í kjördæminu. Fagna ég mjög því að hún leiði þingflokkinn næstu árin. Óska ég henni innilega til hamingju með þetta.
Saga dagsins
1968 Söngleikurinn Hárið frumsýndur í London - varð einn af vinsælustu söngleikjum aldarinnar.
1981 Sr. Pétur Sigurgeirsson, 62 ára sóknarprestur á Akureyri og vígslubiskup á Hólum, kjörinn biskup Íslands. Pétur hlaut aðeins einu atkvæði fleira í biskupskjöri en sr. Ólafur Skúlason. Pétur gegndi embætti biskups allt til ársins 1989, en þá var Ólafur Skúlason kjörinn eftirmaður hans sem biskup.
1996 Talibanar ná fullri stjórn í Kabúl, höfuðborg Afganistans, og hengdu Mohammad Najibullah fyrrum forseta landsins, og samverkamenn - stjórn Talibana var svo felld af Bandaríkjamönnum 2001.
1998 16 ára viðburðaríkum valdaferli Helmut Kohl sem kanslara Þýskalands lýkur formlega, er Gerhard Schröder tekur við embætti kanslara í Þýskalandi. Kristilegi demókrataflokkurinn tapaði í þingkosningum fyrir Sósíaldemókrataflokki Schröders. Kohl hætti í kjölfarið þátttöku í stjórnmálum.
1999 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, datt af hestbaki og axlarbrotnaði þegar hann var í útreiðartúr með vinkonu sinni, Dorrit Moussaieff - þau giftust á sextugsafmæli hans, 14. maí 2003.
Snjallyrðið
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar.
Þegar ég á aðeins þig,
einn með sorgir mínar,
gef mér kærleik - gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi Drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni.
Láttu ætíð ljós frá þér,
ljóma í sálu minni.
Gísli Gíslason frá Uppsölum í Selárdal (1907-1986) (Lífsins kærleikur)
Fallegt ljóð eftir einbúann Gísla frá Uppsölum sem varð landsfrægur þegar að Ómar Ragnarsson gerði sjónvarpsþátt um hann á níunda áratugnum. Ljóð frá hjartanu - innstu rót tilverunnar.
<< Heim