Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi, sem haldið var í Mývatnssveit um helgina. Á kjördæmisþinginu fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, þau Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokksins, yfirgripsmiklar og ítarlegar ræður. Gunnar Ragnars lét á kjördæmisþinginu af formennsku í kjördæmisráðinu. Hann var síðasti formaður kjördæmisráðsins í Norðurlandskjördæmi eystra og fyrsti formaður í kjördæmisráðinu í hinu nýja Norðausturkjördæmi allt frá árinu 2001. Í stað Gunnars var Guðmundur Skarphéðinsson á Siglufirði kjörinn formaður kjördæmisráðsins. Guðmundur var síðasti formaður kjördæmisráðsins í Norðurlandskjördæmi vestra og hefur verið gjaldkeri stjórnar kjördæmisráðsins í Norðausturkjördæmi frá stofnun þess árið 2001. Á kjördæmisþinginu stofnuðum við ungliðar í Norðausturkjördæmi kjördæmisfélag okkar. Var ég kjörinn fyrsti formaður þess. Framundan eru þar mörg mikilvæg verkefni, eins og ég minnti á í ræðu sem ég flutti á kjördæmisþinginu.
- í öðru lagi fjalla ég um málefni umsóknar Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ég lít svo á að þetta mál sé komið á miklar villigötur - og var það orðið illa strandað og vandræðalegt fyrir. Möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Kosningabaráttunni fylgir geypilegur kostnaður við baráttuna og ekki síður þegar og ef sætinu er náð (sem sífellt minni líkur eru á að komi til). Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. Við eigum að horfa í aðrar áttir - og eyða milljarði af peningum okkar í eitthvað þarfara en lobbýisma og flottræfilshátt í auglýsingabransa.
- í þriðja lagi fjalla ég um góða stöðu okkar sjálfstæðismanna í borginni, í kjölfar nýrrar skoðanakönnunar. Mælist flokkurinn þar með rúmlega 56% fylgi. Er þetta í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur meira en 55% atkvæða í könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil eru að verða í borgarmálunum.
Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var haldið í Skjólbrekku í Mývatnssveit um helgina. Voru þar saman komnir fulltrúar sjálfstæðisfélaga allt frá Siglufirði austur á Djúpavog. Fundarstjóri var Hrafnkell A. Jónsson formaður fulltrúaráðs flokksins á Fljótsdalshéraði og var Anna Blöndal stjórnarmaður í fulltrúaráðinu hér á Akureyri, fundarritari. Í stjórn kjördæmisráðs voru kjörin Guðmundur Skarphéðinsson, Gunnar Ragnars, Jónas Þór Jóhannsson, Jóhanna H. Ragnarsdóttir, Jón Helgi Björnsson, Maríanna Jóhannsdóttir og Árni Helgason. Var Guðmundur kjörinn formaður í stað Gunnars Ragnars sem áfram verður í stjórn. Var ég endurkjörinn til setu í varastjórn kjördæmisráðsins, en ég tók þar sæti á kjördæmisþinginu fyrir tæpu ári. Mun ég því verða virkur í flokksstarfinu á vettvangi kjördæmisins á næstunni, eins og verið hefur. Helgin á Mývatni var mjög gagnleg og góð, alltaf er gaman að hitta pólitíska samherja sína úr kjördæminu, sérstaklega Austfirðingana sem maður hittir of sjaldan til að ræða málin við. Á laugardagskvöldinu borðuðum við saman á Hótel Seli og áttum glaða og góða stund undir öruggri veislustjórn Halldórs Blöndals forseta Alþingis.
Heiðursgestur okkar var Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Flutti hann ræðu á kjördæmisþinginu og talaði um þau verkefni sem framundan eru í flokksstarfinu. Jafnframt fjallaði hann um mál málanna á þessum degi sem hann kom á okkar fund: Baugsmálið og birtingu tölvupósta í Fréttablaðinu og umfjöllun um tengd málefni. Var mjög ánægjulegt fyrir okkur að fá Kjartan Gunnarsson til okkar á kjördæmisþingið og heyra í honum um það sem framundan er. Var mjög gaman að ræða við hann og fara yfir stöðu mála hvað varðar flokksstarfið og tengd málefni. Eins og öllum er kunnugt mun Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, láta af ráðherraembætti og þingmennsku á þriðjudag. Hann hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í formannsstól Sjálfstæðisflokksins á landsfundi eftir þrjár vikur. Á fundinum fjölluðu ræðumenn um feril Davíðs og verk hans í stjórnmálum. Er við hæfi að við minnumst verka hans í þágu flokksins við þau þáttaskil að hann hættir í stjórnmálum. Það er alltaf gaman að hittast og styrkja böndin og efna til kynna við nýtt fólk í flokksstarfinu. Þetta kjördæmisþing var eins og öll hin fyrri að því leyti.
Á kjördæmisþinginu flutti ég ávarp og fór yfir þau mál sem ég taldi mikilvægast að fara yfir. Gerði ég í upphafi að umfjöllunarefni að þáttaskilin í flokknum mörkuðu mikil tímamót en í þeim fælust viss tækifæri til að efla flokkinn og sækja fram á nýjum forsendum. Minntist ég á það að framundan væru tvær kosningar – mikilvægt væri að þær myndu vinnast vel og sameinaðar af krafti af okkar hálfu. Tilkynnti ég í ræðu minni um þá ákvörðun formanna ungliðafélaga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að stofna ungliðahreyfingu flokksins í kjördæminu. Er það mikilvægt verkefni – það skiptir lykilmáli að efla tengslin milli svæðanna í kjördæminu og vinna af miklum krafti í öllu flokksstarfinu. Sóknarfærin liggja að sjálfsögðu í því að virkja ungt fólk til verka og hafa vettvang til að vinna saman á kjördæmavísu. Var ég kjörinn fyrsti formaður ungliðahreyfingar flokksins í Norðausturkjördæmi. Með mér í stjórn sitja formenn annarra ungliðafélaga í kjördæminu og stjórnarmenn kjördæmisins í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Verður Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs í S-Múlasýslu, varaformaður stjórnarinnar, Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir formaður Lagarins á Fljótsdalshéraði, er gjaldkeri, og Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir formaður Óðins á Seyðisfirði, var valin ritari.
Hlakkar mér mjög til að vinna með þeim og öðrum sem sæti eiga í stjórn í þeim verkefnum sem framundan eru í starfinu. Það skiptir okkur mjög miklu máli að hafa þennan vettvang til verka og geta þar unnið saman, talað saman og sinna þeim lykilmálum sem við teljum mikilvægt að leggja áherslu á. Fann ég á fundinum hversu fólk var ánægt með þessa ákvörðun okkar forystufólks ungliðanna í Norðausturkjördæmi. Næg verkefni eru framundan – kraftmikil vinna sem ég vil taka þátt í og við öll. Við viljum efla heildina okkar og teljum okkur sýna öðrum flokksmönnum gott fordæmi með því að taka upp öflugt samstarf og fara í þau verkefni sem blasa við. Rúmlega eitt og hálft ár eru til þingkosninga í mesta lagi – kosið verður væntanlega í maímánuði 2007. Við erum til í slaginn – viljum vinna af krafti og teljum mikilvægt að taka saman höndum. Stofnun þessa félags er okkar leið til að segja flokksmönnum, ekki bara hér í kjördæminu, heldur um allt land að ungliðahreyfingin skipti máli. Hún verði að vera virk og kraftmikil og umfram allt frjór vettvangur öflugs starfs í Sjálfstæðisflokknum á komandi árum – sem ávallt áður í 75 ára sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Áttum við mjög góða kvöldstund svo eftir málsverðinn. Í dag er góðvinur minn, Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs, tvítugur og héldum við vel upp á það á hótelinu í gærkvöldi. Var gaman að ræða saman eftir matinn við Gunnar Ragnar, Arnbjörgu, eiginmann hennar Garðar Rúnar Sigurgeirsson, og góðvinkonu mína Guðlaugu Sigurðardóttur, sem hefur verið virk í flokksstarfinu hér á Akureyri til fjölda ára. Vægt er til orða tekið að veðrið hafi verið kalt á þessum haustdegi að Mývatni. Ekki var neitt svosem að færðinni austur í Mývatnssveit. Hægt að fara Víkurskarðið þá og allt að mestu leyti ágætt. Meðan að fundurinn stóð kom snjóbylur og kalsaveður. Var því gott að geta bara gist að Hótel Seli og haft það gott þar um kvöldið. Er haldið var svo af stað í gærmorgun var kominn vænn snjór þarna fyrir austan.
Gekk brösuglega fyrir okkur Gunnar Ragnar að komast aftur til Akureyrar. Vorum við í samfloti með Öbbu, Garðari Rúnari og Gullu á leiðinni til baka. Víkurskarðið var þá orðið ófært og fara varð fyrir Dalsmynnið, eins skemmtilegt og það er, eða hitt þó heldur. Nú er leitt að Vaðlaheiðargöngin séu ekki komin til sögunnar - en þau eru komin á kortið sem betur fer og verða brátt að veruleika. En það gekk vel að komast heim, þó seinlegt væri. Merkilegt að það sé bara 25. september og komin þessi kuldatíð. En í heildina var helgin hin allra besta.
Snjallyrðið
Hver dagur lífs míns langur er,
en loksins þegar kvölda fer
ég kem hér inn.
Og hver einn smæsti hlutur hér
er helgidómur sem með þér,
ég keypti eitt sinn.
Þinn andi býr í öllu hér
og um þig talar hlutur hver
sitt þögla mál.
Blái stóllinn bekknum hjá
og blómið gluggasyllunni á
og brotin skál.
Þín mynd við mér brosir,
þó burtu sért þú.
Ó svo björt er þín minning:
hún lýsir mér nú.
Að sumri okkar samleið þraut
og sólin skein er hvarfstu á braut,
en samt varð kalt.
Svo þokast áfram árin löng,
en alltaf man ég gamlan söng
um ást og trú.
Iðunn Steinsdóttir rithöfundur (Myndin af þér)
Hugljúft ljóð - lagið við ljóðið varð ódauðlegt í túlkun Vilhjálms Vilhjálmssonar.
<< Heim