Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 september 2005

Punktar dagsins
Eyjafjörður

Heitasta málið í umræðunni hér í Eyjafirði þessa dagana eru sameiningarmálin. Eftir tæpan mánuð, þann 8. október nk. verður kosið um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði. Mikið er rætt um þessi mál hér og hefur maður orðið mjög var við það að fólk telur vanta meiri umræðu um kosti og galla sameiningar og beina kynningu á málinu. Í gærkvöldi héldum við sjálfstæðismenn á Akureyri fund um sameiningarmálin í Kaupangi. Var ég fundarstjóri á fundinum og flutti Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður sameiningarnefndar sveitarfélaganna níu, framsögu um málið. Fór hún þar yfir málið frá mörgum hliðum og kynnti stöðu mála frá sjónarhóli nefndarinnar sem hún hefur stýrt. Að lokinni framsögu Sigrúnar Bjarkar voru miklar umræður um málið, margar spurningar og líflegt spjall. Er greinilegt að fólk hefur áhuga á málinu og vill heyra meira um meginpunkta þess, sem eðlilegt er. Bráðlega fara svo af stað kynningarfundir á málinu. Hefjast þeir 19. september nk. á Siglufirði og lýkur kynningarferlinu með stórum fundi hér á Akureyri þann 4. október nk. Gefst þar kjósendum tækifæri á að spyrja um málið frá öllum hliðum og fara yfir stöðuna. 3. október nk. verður svo haldinn kynningarfundur um málið á Dalvík og verður gestur þess fundar Árni Magnússon félagsmálaráðherra, og fyrrum sveitarstjórnarmaður í Hveragerði.

Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla þessara mála. Á því eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur gallar eins og ávallt þegar um stórmál er að ræða. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina. Einnig má deila um það hvort þessi kosning fari fram á heppilegum tíma. Persónulega var ég andvígur því að hafa kosninguna svona seint á árinu. Það eru kosningar til sveitarstjórna framundan eftir rúma 9 mánuði og það er óþægilegt fyrir allt skipulag þeirra að vera að flækjast með þessa kosningu á undan sér framundir árslok jafnvel, ef ferlið fer í aðra umferð - sem óhjákvæmilegt verður að mínu mati. Ég er eftir að hafa velt málinu mikið fyrir mér eindreginn stuðningsmaður þess að sameining fari fram. Ýmis hagræðing fer fram samhliða sameiningunni og ennfremur verður svæðið ein og styrk heild umfram allt. Það er mjög mikilvægt að styrkja meginlínurnar með því að sameina kraftana og vinna vel saman.

Hinsvegar tek ég undir með mörgum andstæðingum sameiningar að það er rangt af yfirvöldum að framkvæma svona kosningu víða á sama tímapunkti. Það á að vera innri ákvörðun sveitarfélaga hvort að þau vilji sameinast eða taka upp nánari samvinnu í stórum málum. Gott dæmi er sameiningar hér í firðinum á undanförnum árum. Þær hafa komið fram vegna þess að sveitarfélögin hafa viljað vinna saman. Árið 1993 var kosið um allt land um tillögur þáverandi félagsmálaráðherra um sameiningu sveitarfélaga. Kosið var um að sameina allan Eyjafjörð í eitt sveitarfélag. Þessi tillaga var felld með miklum mun allsstaðar nema á Akureyri. Þá var svo róttæk tillaga ekki tímabær. Á seinasta áratug hafa sameiningar orðið milli sveitarfélaga á svæðinu. Dalvík, Árskógsströnd og Svarfaðardalur sameinuðust í Dalvíkurbyggð árið 1998, árið 2002 sameinuðust Skriðuhreppur, Hörgárdalshreppur og Glæsibæjarhreppur í Hörgárbyggð og í fyrra sameinuðust Akureyrarbær og Hríseyjarhreppur. Ljóst er að þróunin stefnir í þá átt að fjörðurinn verði að lokum eitt sveitarfélag, en það gæti gerst í lengri skrefum en þau sem stíga á með kosningunni 8. október.

En fyrst og fremst verður þetta ekki fengið fram með valdboði, heldur því að sveitarfélögin vilji stíga skrefið. Það er grunnpunktur að mínu mati. En kynningarferlið heldur áfram - við fylgjumst spennt með því, erum hér öll áhugasöm um að heyra meira um málið og kynningu á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaga hér við Eyjafjörð.

Bessi Bjarnason (1930-2005)

Bessi Bjarnason leikari, er látinn, 75 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn besti leikari Íslendinga á 20. öld. Hann setti sterkan svip á íslenskt leikhúslíf og var áberandi í auglýsingum, sjónvarpsmyndum og kvikmyndum á löngum leikferli og var heiðursfélagi í Félagi leikara. Bessi fæddist í Reykjavík 5. september 1930. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1952 og hóf störf við leikhúsið það ár. Bessi var fastráðinn við Þjóðleikhúsið allan sinn leikferil, árin 1952-1990, en hann lét þar af störfum árið 2000. Fyrsta hlutverk hans í leikhúsinu var er hann var nemi og tók þátt í opnunarsýningu Þjóðleikhússins, Íslandsklukkunni, árið 1950. Lék hann í rúmlega tvö hundruð hlutverkum á glæsilegum ferli við Þjóðleikhúsið. Hann þótti jafnvígur á alvöru sem gráglettið gaman og fór á kostum í gamanleikritum, söngleikjum og alvarlegum leikritum og fjölmörgum barnaleikritum. Hann er ódauðlegur fyrir túlkun sína á Mikka ref í Dýrunum í Hálsaskógi. Á ég það leikverk á spólu - sannkallaður fjársjóður. Ennfremur þykir mér ógleymanleg túlkun hans í fjölda sjónvarpsleikrita og kvikmynda. Sem sviðsleikara verður hans væntanlega helst minnst fyrir Skugga-Svein, Húsvörðinn, Andorra, Lukkuriddarann, Gæja og píur, Kabarett, Pilt og stúlku, Bílaverkstæði Badda; svo aðeins nokkur séu nefnd. Undir lok ferilsins fór hann á kostum í fjölda hlutverka í gamanverkum.

Ógleymanleg er túlkun hans á Guðjóni Ísdal í Manni í mislitum sokkum, árið 1997. Eitt af hans seinustu verkum á sviði var Fjögur hjörtu. Hann lék þar ásamt félögum sínum Rúrik Haraldssyni, Árna Tryggvasyni og Gunnari Eyjólfssyni. Var þetta síðasta sviðsverk Rúriks, sem lést árið 2003. Gleymi ég aldrei skemmtilegri kvöldstund hér á Akureyri sumarið 1998 er þeir félagar komu norður með sýninguna. Ógleymanleg kvöldstund með sönnum snillingum. Ennfremur má minnast á fyrstu sjónvarpsauglýsinguna, sem fór í loftið er Sjónvarpið hóf útsendingar árið 1966. Þar fór Bessi Bjarnason á kostum við að auglýsa Kórónajakkaföt, sem þóttu hið flottasta þá. Sú auglýsing er alveg stórfengleg. Bar ég alltaf mikla virðingu fyrir Bessa sem leikara, hann var í mínum huga hinn eini sanni gamanleikari. Hitti alltaf í mark með túlkun sinni og setti mark sitt á þau verk sem hann tók þátt í. Man ég vel eftir því þegar að ég hitti Bessa í verslun í Reykjavík, aðeins sjö ára gamall. Þá þótti mér sem ég hefði hitt guðlega veru. Bessi var enda Mikki refur í mínum augum - og eflaust flestra af minni og eldri kynslóðum. Eftirlifandi eiginkona Bessa Bjarnasonar er Margrét Guðmundsdóttir leikkona. Þau giftust eftir að þau léku saman í hinum stórfenglega gamanleik Á sama tíma að ári, á áttunda áratugnum.

Við leiðarlok er Bessi Bjarnason kvaddur með söknuði. Hann var í senn ógleymanlegur leikari og sá besti á sviði gamanleiks á seinnihluta tuttugustu aldarinnar. Sannkallaður meistari sem túlkaði stórbrotna karaktera með óviðjafnanlegum hætti.

Jens Stoltenberg

Það fór eins og flesta grunaði. Hægristjórnin í Noregi féll í þingkosningunum í gær. Var mjótt á munum en þó meiri munur en helstu spekingar höfðu spáð fyrir kjördag. Þáttaskil verða því í norskum stjórnmálum. Rauðgræna bandalagið hefur hafið formlegar stjórnarmyndunarviðræður - en það hafði ákveðið fyrir kosningar að starfa saman fengi það meirihluta á þingi. Öllum er þó ljóst að bandalagið mun starfa saman og Jens Stoltenberg leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, verður forsætisráðherra Noregs, öðru sinni. Hann var forsætisráðherra Noregs árin 2000-2001. Þó að Stoltenberg geti verið glaður með að komast til valda aftur er sigurinn óneitanlega nokkuð súrsætur. Jafnaðarmenn fá tæp 33%, sem eru önnur lökustu kosningaúrslit flokksins frá því á öðrum áratug. Sögulegu lágmarki flokksins var náð með þingkosningunum árið 2001, þegar fylgið fór undir 25%, sem þótti skelfilegur árangur. Skal það engan undra, enda hefur Jafnaðarmannaflokkurinn verið í forystu norskra stjórnmála meginpart seinustu aldar. Með þessum úrslitum lýkur forsætisráðherraferli prestsins og hægrimannsins Kjell Magne Bondevik. Stjórn hans sat nær óslitið í átta ár. Verður merkilegt að fylgjast með norskum stjórnmálum nú við valdaskiptin.

Á Glerártorgi

Fimm ár eru nú liðin frá því að verslunarmiðstöðin Glerártorg opnaði hér á Akureyri. Mikil og öflug fyrirtæki eru þar í verslunarrekstri og mikill fjöldi leggur þangað leið sína á hverjum degi. Það hefur svo sannarlega sýnt sig og sannað að bygging verslunarmiðstöðarinnar var gott skref. Segja má að miðpunktur verslunar í bænum hafi fært sig þangað. Nú eru komnar fram metnaðarfullar hugmyndir um að stækka verslunarmiðstöðina að Glerártorgi um helming. Með endalokum Skinnaiðnaðar gefst tækifæri á að stækka Glerártorg. Nú hefur Smáratorg sem á verslunarmiðstöðina gert tilboð í hús Skinnaiðnaðar. Eigendur hússins er Akureyrarbær auk lífeyrissjóða og Landsbankans. Nú verður spennandi að sjá hvað gerist. Óneitanlega verður enn líflegra yfir svæðinu og verslun þar verði stækkunin að veruleika. Blasir það við öllum að sóknarfæri eru til að stækka verslunarmiðstöðina og efla hana.

Góð plata félaganna á Baggalút

Fastur liður í vefrúntinum á hverjum degi er hinn óborganlegi vefur félaganna á Baggalút. Stórskemmtilegur og flottur vefur með góðu gríni. Allavega hentar hann vel mínum húmor. Nýlega gáfu þeir félagar út plötuna Pabbi þarf að vinna... sem er með flottum lögum og góðum húmor, eins og þeirra er von og vísa. Keypti mér plötuna um daginn, enda hafði ég heyrt nokkur lög hljóma í útvarpinu, t.d. titillagið sem sungið er af Rúnari Júlíussyni. Hvet alla til að fá sér plötuna og skemmta sér vel yfir henni. Pottþétt skemmtun.

Saga dagsins
1948 Margaret Chase Smith var kjörin fyrst kvenna á bandaríska þingið - Margaret varð fyrsta konan í sögu landsins sem kjörin var bæði í fulltrúadeild og öldungadeild bandaríska þingsins í þingsögunni.
1981 Borgarfjarðarbrúin var vígð - með henni styttist leiðin milli Akraness og Borgarness umtalsvert.
1982 Málaferli hefjast gegn foreldrum barns sem sökuð eru um að hafa myrt barn sitt, en þau sögðu að hafi verið drepið af villidýri - umdeilt mál sem gerð var kvikmynd um. Foreldrarnir unnu í málinu.
1993 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels og Yasser Arafat leiðtogi Palestínuaraba, skrifa undir samning um frið í Mið-austurlöndum. Samningurinn var virtur að mestu í upphafi og friður komst á, en friðarferlið fór út af sporinu eftir morðið á Rabin árið 1995 og ríkisstjórnarskipti í Ísrael árið eftir.
2001 Iain Duncan Smith, lítt þekktur þingmaður Íhaldsflokksins, kjörinn leiðtogi flokksins - Duncan Smith var umdeildur innan flokksins meðan hann leiddi hann og var felldur af leiðtogastóli árið 2003.

Snjallyrðið
We'll meet again,
Don't know where,
Don't know when,
But I know
We'll meet again
Some sunny day.

Keep smiling through
Just like you
Always do
Till the blue skies
Drive the dark clouds
Far away.
Ross Parker tónlistarmaður (We'll Meet Again)

Allir þeir sem hafa séð myndina Dr. Strangelove þekkja lagið og ljóðið. Undurfallegt og sætt ljóð - með sannri tilfinningu.