Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 september 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um pólitísku stöðuna í Þýskalandi í kjölfar þingkosninganna þar. Óhætt er að segja að pattstaða sé komin upp því að hvorugri valdablokkinni tókst að ná hreinum meirihluta. Stefnir því í stjórnarkreppu, nema þá að stóra samsteypa (grosse koalition) komi til sögunnar. Velti ég fyrir mér stöðunni og fer yfir úrslitin og önnur merkileg atriði sem rétt er að fjalla um. Óhætt er að segja að úrslit kosninganna feli í sér mestu óvissustöðu í þýskum stjórnmálum í marga áratugi. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði mistókst hægrimönnum undir forystu dr. Angelu Merkel leiðtoga CDU (kristilegra demókrata) að vinna þann mikla kosningasigur sem talinn var í sjónmáli. Hinsvegar hefur Merkel engu að síður mjög góða stöðu og fær væntanlega umboð til að mynda stjórn. Hún leiðir nú stærsta flokkinn í þýska þinginu, þann flokk sem flest atkvæði hlaut í kosningunum í dag. Gerhard Schröder kanslari, er þó ekki í þeim hugleiðingum að bakka sjálfviljugur frá sæti sínu og verður fróðlegt að sjá hvað taki við á næstu dögum.

- í öðru lagi fjalla ég um John G. Roberts sem hefur verið skipaður forseti hæstaréttar Bandaríkjanna. Hefur hann komið fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og svarað spurningum. Blasir við að hann verði staðfestur í embættið fyrir lok mánaðarins. Fjalla ég um Roberts og málefni tengd skipan hans. Það er til marks um sterka stöðu Roberts að demókratar hafa ekki lagt fram vafa vegna kosningarinnar, sem fara á fram 28. september nk. Enginn þorir að draga feril hans í efa. Það er alveg ljóst að Bush hefur tekist ætlunarverkið með tilnefningunni, að finna íhaldsmann til að tilnefna en mann með mjög góðan bakgrunn og er ekki með beinagrind í skápnum, eins og sagt er. Það er enda ljóst að Roberts mun verða staðfestur af þinginu vel fyrir mánaðarmót. Það er ljóst að með skipun Roberts í forsetastól hæstaréttar hefur Bush forseti markað sér sess í sögunni.

- í þriðja lagi fjalla ég um umsókn okkar í Öryggisráð SÞ og atburðarás vegna þess máls seinustu daga. Forsætisráðherra hefur lýst formlega yfir framboðinu með ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Andstaða við málið hefur magnast upp seinustu mánuðina innan stjórnarflokkanna. Eins og sést hefur á viðbrögðum þingmanna stjórnarflokkanna eftir yfirlýsingu forsætisráðherra, meira að segja þingmanna hans eigin flokks er engin samstaða um málið. Það er enda farið af sporinu - möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Ég get ekki annað en ítrekað andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn.


Kristján Eldjárn forseti
1916-1982


Kristján Eldjárn forseti

Lengi hef ég haft mikinn áhuga á að fræðast um söguna og sögulega punkta úr ævi merkra Íslendinga. Í síðustu viku veiktist ég og þurfti að vera heima vegna þess. Endurnýjaði ég kynni mín af ævisögum Gylfa Gröndal um fyrstu forsetana þrjá - stórfenglegar bækur. Sérstaklega hefur mér alltaf þótt gaman að lesa bókina um Svarfdælinginn Kristján Eldjárn og forsetaferil hans, þar sem vitnað er í dagbókarskrif hans. Las ég bókina aftur - fyrsta af þessum þremur að þessu sinni. Kristján hefur alltaf að mínu mati verið einn fremsti forseti þjóðarinnar - sannkallaður heiðursmaður sem var sameiningartákn í embættinu. Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947. Hann var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1968. Sat hann á forsetastóli í þrjú kjörtímabil, 12 ár, eða allt til ársins 1980. Hann lést á sjúkrahúsi í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum þann 14. september 1982.

Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Kristján var mjög kraftmikill ræðumaður og rómaður fyrir innihaldsríkar og tilkomumiklar ræður sínar. Hef ég kynnt mér ítarlega ævi hans og starfsferil og skrifaði langa ritgerð um hann í skóla eitt sinn. Þegar ég kynnti mér verk hans og ævi þótti mér helst standa upp úr hversu farsællega hann vann öll sín verk. Hann var öflugur þjóðarleiðtogi og ávann sér virðingu fólks með alþýðlegri og tignarlegri framkomu, jafnt hér heima sem á erlendum vettvangi. Hann var sannkallað sameiningartákn landsmanna - eitthvað sem við höfum svo sannarlega saknað frá því að Vigdís Finnbogadóttir hætti sem forseti.

Bók Gylfa um Kristján er stórfengleg lýsing á þessum merka manni. Merkilegast af öllu við að kynna mér hann og verk hans í gegnum þessa bók var það að honum var alla tíð illa við Bessastaði og var alltaf stressaður vegna ræðuskrifa sinna - var aldrei sáttur við neinar ræður sínar. Hann var hinsvegar talinn þá og enn í dag besti ræðumaður sinnar kynslóðar að Gunnari Thoroddsen frátöldum. Hann er eini af þeim þrem forsetum landsins sem látnir eru sem hvílir ekki að Bessastöðum, heldur hvílir hann í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík. Fékk ég ævisögu Kristjáns í jólagjöf um jólin 1991 - eflaust er það mjög til marks um karakter minn og áhugamál. Meðan að skólafélagar mínir fengu bók á borð við Tár, bros og takkaskór, las ég svona eðalbækur. Tel ég mig hafa grætt mikið á því og hafa áhugasvið mín ekki breyst í áranna rás.

Hvet ég alla til að lesa þessar góðu bækur og kynna sér vel og ævi og forsetatíð forsetanna þriggja - sérstaklega mæli ég með bókinni um Kristján, sveitastrákinn að norðan sem varð forseti Íslands og öflugur þjóðhöfðingi landsins.

Saga dagsins
1851 Dagblaðið New York Times kom út í fyrsta skipti - umdeilt blað vegna fréttamennsku sinnar.
1961 Dag Hammarskjöld framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ferst í flugslysi í Rhodesíu, 56 ára að aldri. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels eftir andlát sitt, í virðingarskyni við umfangsmikið framlag hans til friðar í heiminum, en hann var á leið til Kenýa til að taka þátt í friðarviðræðum þegar hann lést. Aldrei hefur komið fyllilega í ljós hvort flugvél Hammarskjolds fórst vegna slyss eða var grandað.
1968 Portúgalska knattspyrnuliðið Benfica keppti við boltalið Vals á Laugardalsvellinum í Reykjavík. Áhorfendur voru 18.243, en það var vallarmet á vellinum allt til 18. ágúst 2004 þegar Ísland sigraði Ítali. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en meðal leikmanna Benfica var hinn víðfrægi Eusebio.
1970 Tónlistarmaðurinn Jimi Hendrix, lést í London, 27 ára gamall. Hann var einn fremsti gítarleikari 20. aldarinnar - rokkgoðsögn í lifanda lífi, sem ávann sér sess í sögu tónlistarinnar á örstuttum ferli.
1997 Viðskiptajöfurinn Ted Turner sem átti til dæmis CNN, gaf Sameinuðu þjóðunum 1 billjón dala.

Snjallyrðið
Það er svo margt að una við,
að elska, þrá og gleðjast við,
jafnt orð, sem þögn og lit sem lag,
jafnt langa nótt, sem bjartan dag.
Mér fátt er kærra öðru eitt
ég elska lífið djúpt og heitt,
því allt, sem maður óskar, næst
og allir draumar geta ræzt.

Ég byggi hlátraheima
í húmi langrar nætur.
Af svefni upp í söngvahug
með sól ég rís á fætur.
Og augun geisla af gleði
sem grær í mínu hjarta.
En syrti að ég syng mig inn
í sólskinsveröld bjarta.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Dans gleðinnar)

Fallegt ljóð Akureyrarskáldsins Kristjáns frá Djúpalæk - tært og sætt í gegn.