Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ávarpaði aðfararnótt föstudags allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York, sem fundar nú þessa dagana. Í ræðu sinni lýsti forsætisráðherra því yfir formlega að Ísland yrði nú í fyrsta skipti í framboði til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, tímabilið 2009-2010. Kom yfirlýsing Halldórs mjög á óvart, enda hafði almennt verið talið að ákvörðun í málinu myndi bíða fram yfir ráðherraskipti í utanríkisráðuneytinu eftir tíu daga. Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sem lætur af ráðherraembætti þann 27. september nk. hafði lýst því yfir í vikunni að hann væri hlynntur því að hætta við framboðið en teldi rétt að eftirmaður hans á ráðherrastóli, Geir H. Haarde, myndi taka ákvörðunina er hann tæki til starfa í utanríkisráðuneytinu. Svo virðist vera sem að Halldór hafi ekki talið rétt að bíða þess og tekið af skarið fyrr. Er að mínu mati mjög óeðlilegt að Halldór lýsi þessu yfir og láti málið og endanlegt ákvörðunarvald ekki vera í höndum utanríkisráðherra, þar sem það á að vera. Þykja mér vinnubrögð forsætisráðherrans langt í frá til sóma og ekki til sæmdar forsætisráðherranum að koma fram með þessum hætti. Hef ég annars aldrei hikað við að tjá andstöðu mína við þessa umsókn í öryggisráðið og hefur andstaða mín sífellt aukist eftir því sem ég hef kynnt mér málið betur. Er þetta að mínu mati ein þvæla í gegn.
Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Þykir mér skorta allverulega á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Ef forsætisráðherra ætlar að halda áfram á sömu braut er rétt að velta því fyrir sér hvað gerist í málinu innan Sjálfstæðisflokksins og af hálfu verðandi formanns flokksins og væntanlegs utanríkisráðherra. Sólómennska forsætisráðherra við þetta steindauða mál vekur mikla furðu, en rétt er á það að benda að um er að ræða gæluverkefni hans til nokkurs tíma. Að framansögðu er rétt að ítreka mat mitt að Ísland eigi að hætta við umsókn sína um sæti í öryggisráðinu. Rétt er að forgangsraða betur í málaflokknum og beina sjónum okkar í aðrar áttir.
Eins og sést hefur á viðbrögðum þingmanna stjórnarflokkanna eftir yfirlýsingu forsætisráðherra, meira að segja þingmanna hans eigin flokks er engin samstaða um málið. Það er enda farið af sporinu - möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Kosningabaráttunni fylgir geypilegur kostnaður við baráttuna og ekki síður þegar og ef sætinu er náð (sem sífellt minni líkur eru á að komi til vegna minnkandi möguleika okkar á sætinu). Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. En það er viðbúið að brátt dragi að úrslitastund og fróðlegt að sjá hver endirinn verður, í ljósi andstöðu við málið innan beggja stjórnarflokkanna.
Óhætt er að segja að ný auglýsingaherferð Verslunarmannafélags Reykjavíkur hafi hitt í mark. Um er að ræða herferð undir yfirskriftinni: Ekki láta útlitið blekkja þig! Auglýsingarnar varpa ljósi á um hvað launamunur kynjanna snýst í raun og veru. Þær tala í raun enda sínu máli. Í auglýsingunum sjáum við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Gísla Martein Baldursson og Egil Helgason í nýju ljósi - öðrum kynjahlutverkum. Gísli Marteinn birtist sem glæsileg ljóska, Ingibjörg Sólrún sem reffilegur embættismaður, Þorgerður Katrín sem verkamannstýpa og Egill sem miðaldra kona, þó frekar stórgerð. Þetta eru snilldarlega gerðar auglýsingar. Þeim tekst bæði að vekja á sér athygli vegna þess hversu frumlegar og góðar þær eru. Umfram allt vekja þær þó athygli á því þarfa umræðuefni sem launamunur kynjanna. Eins og vitað er, er launamunur kynjanna óeðlilegur og leitt að á okkar tímum sé hann enn til staðar. Hann verður að hverfa, færa verður stöðu mála til nútímans. Kynbundinn launamunur er óeðlilegur. Þessar auglýsingar eru mjög góðar og hefja nauðsynlega umræðu á nýtt plan og vekur athygli á þörfu málefni með kraftmiklum og lifandi hætti. VR á mikið hrós fyrir þetta framtak að mínu mati. Síðast en ekki síst er svo mjög skemmtilegt að sjá fyrirsæturnar í nýju ljósi - í senn bæði fyndnu og sem vekur til umhugsunar.
Yfirheyrslum yfir John G. Roberts tilnefndum forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, lauk í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fimmtudag. Lauk þá ítarlegu spurningaferli í garð Roberts og flutti hann að því loknu lokaorð til nefndarmanna. Í kjölfarið komu fyrir nefndina fulltrúar ýmissa þrýstihópa og samtaka sem vilja tjá sig um skipan hans í forsetastól hæstaréttar, og eru bæði andvígir honum og meðmæltir. Brátt styttist svo í formlega atkvæðagreiðslu um hann. Er gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu eigi síðar en 28. september. Rétturinn kemur saman að loknu réttarhléi þann 3. október og því alveg ljóst að Roberts verður tekinn við starfinu fyrir þann tíma. Er nú helst efasemdir um það hversu margir demókratar muni kjósa Roberts í kosningunni. Það er til marks um sterka stöðu Roberts að demókratar hafa ekki lagt fram vafa vegna kosningarinnar og ekki reynt að tefja undirbúning þess að hún fari fram eigi síðar en 28. september. Það segir ansi margt um stöðu mála. Enginn þorir að draga feril hans í efa og nær allir ljúka lofsorði á störf hans. Það er alveg ljóst að Bush hefur tekist ætlunarverkið með tilnefningunni, að finna íhaldsmann til að tilnefna en mann með mjög góðan bakgrunn og er ekki með beinagrind í skápnum, eins og sagt er. Það er enda ljóst að Roberts mun verða staðfestur af þinginu vel fyrir mánaðarmót.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina að kvöldi fimmtudags frá miðborg New Orleans í Louisiana. Miklar skemmdir urðu í borginni í kjölfar fellibylsins Katrínar og mikil eyðilegging blasir þar við. Mjög hefur verið deilt á vinnubrögð í kjölfar fellibylsins og deilt hefur verið harkalega sérstaklega á forsetann. Meirihluti Bandaríkjamanna telur skv. skoðanakönnunum að forsetinn hafi ekki staðið sig í málinu og óvinsældir hans hafa aukist mjög. Í ávarpinu talaði Bush til landsmanna og útskýrði málið og fór yfir það. Viðurkenndi hann þar að öll stig stjórnkerfisins hefðu brugðist eftir hamfarirnar. Fram kom í máli forsetans að vandinn sem fylgt hefði í kjölfar fellibylsins hefði reynst yfirþyrmandi fyrir þunglamalegt kerfi almannavarna landsins sem þyrfti stórlega að bæta. Hann tók fram að ábyrgðin á mistökunum væri að lokum sín, enda væri hann forseti landsins. Jafnframt tók hann fram að það væri hans að finna lausnina á vandanum. Í ávarpinu tók forsetinn af öll tvímæli um það að borgin skyldi endurreist. Mjög góður rómur var gerður að ræðu forsetans og virðist sem honum hafi tekist í senn bæði að laga almenningsálitið og ná forystu í málinu að nýju eftir vandræðin.
Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi á morgun. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til nokkuð öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands. Í ítarlegum pistli á vef Heimdallar í gær fór ég yfir þýsku þingkosningarnar og málefni kosningabaráttunnar sem nú er að ljúka. Það ræðst á sunnudagskvöldið hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og hin fimmtuga austurþýska járngella íhaldsmanna er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á allar kosningaspár. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist því vel með allt þar til að úrslitin koma í ljós. Þýsk stjórnmál eru enda skemmtilega heillandi.
Saga gærdagsins
1908 General Motors-bílafyrirtækið formlega stofnað - er hið stærsta sinnar tegundar í heiminum.
1936 Franska hafrannsóknaskipið Pourquoi paz? strandaði í miklu fárviðri við Straumfjörð á Mýrum. 38 manns fórust í slysinu, þeirra á meðal vísindamaðurinn Jean Charcot. Aðeins einn komst lífs af.
1942 Kvikmyndin Citizen Kane var frumsýnd í Gamla bíói - almennt talin ein besta mynd aldarinnar.
1963 Lyndon B. Johnson varaforseti Bandaríkjanna, kom í opinbera heimsókn til Íslands og var vel fagnað. Rúmum tveimur mánuðum eftir heimsókn sína hingað til Íslands, varð Johnson 36. forseti Bandaríkjanna. Hann tók við embætti í kjölfar morðsins á John F. Kennedy forseta, í Dallas í Texas.
1977 Óperusöngkonan Maria Callas deyr í París, 53 ára gömul - ein af bestu söngkonum aldarinnar.
Saga dagsins
1717 Gos hófst í Kverkfjöllum við norðanverðan Vatnajökul - mikið hlaup varð í Jökulsá á Fjöllum.
1980 Anastasio Somoza Debayle fyrrum forseti Nicaragua, myrtur í Asunción í Paraguay. Debayle
var seinasti þjóðarleiðtogi landsins úr hinni alræmdu Somoza-fjölskyldu sem ríkti í landinu 1936-1979.
Í kjölfar þess að Debayle missti völd sín flúði hann í útlegð til Bandaríkjanna. Debayle var myrtur
af útsendurum Sandinista-stjórnarinnar í Nicaragua, sem tók við völdum eftir fall Somoza-veldisins.
1984 Brian Mulroney tók við embætti forsætisráðherra í Kanada - hann sat á valdastóli allt til 1993.
1992 Landsbanki Íslands tók yfir allar eignir Sambands íslenskra samvinnufélaga, upp í gríðarlegar skuldir Sambandsins til bankans. Í kjölfarið mátti heita að starfsemi SÍS, sem verið hafði stórveldi í íslensku þjóðlífi megnið af 20. öldinni, lyki. SÍS er þó enn til og starfar að litlu leyti hér á Akureyri.
2001 José Carreras hélt tónleika í Laugardalshöll - söng ásamt Diddú fyrir fullu húsi og var vel fagnað.
Snjallyrðið
Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.
Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.
Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.
Steinn Steinarr skáld (1908-1958) (Tíminn og vatnið)
Eitt af bestu ljóðum Steins. Hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér - táknrænt og öflugt ljóð.
<< Heim