Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 september 2005

Punktar dagsins
Varðskip

Tilkynnt var um skiptingu Símapeninganna í síðustu viku. Ríkið fékk tæpa 67 milljarða fyrir Símann og framundan eru næg verkefni sem blasa við sem andvirði þeirra fer í. Ánægjulegast er að stór skerfur andvirðisins fer í að greiða niður skuldir ríkisins. Ennfremur fagna ég því mjög að Landhelgisgæslan fái vænan hluta: í nýja björgunarþyrlu og varðskip. Eru það þörf og góð verkefni. Ennfremur er ánægjulegt að Sundabraut komi loks til sögunnar. Hinsvegar deila menn um ágæti hátæknisjúkrahússins ef menn ætla að fara að færa flugvöllinn jafnvel burt úr borginni. Vonandi heldur hann sér á höfuðborgarsvæðinu. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því að skipan máli verði með þeim hætti. Það er allavega ekki vænlegt skref að ætla að byggja upp hátæknisjúkrahús og ætla svo jafnvel að færa völlinn til Keflavíkur. Er mikilvægt að menn íhugi vel mikilvægi flugvallar á höfuðborgarsvæðinu, eins og ég hef svo margoft tekið fram. En aftur að varðskipunum. Í síðustu viku kom varðskipið Ægir til landsins frá Póllandi eftir gagngerar endurbætur. Eins og allir vita var tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar tekið í endurbætur á Ægi og Tý. Eins og allir vita sem fylgjast hafa með skrifum mínum á þessu ári var ég einn þeirra sem harmaði mjög þá ákvörðun.

Við sjálfstæðismenn á Akureyri vorum allavega verulega ósátt við það að tilboði Slippstöðvarinnar hér á Akureyri í verkið var ekki tekið og sendum við í Verði ályktun frá okkur um málið. Óhætt er að fullyrða að þessi ákvörðun hafi orðið okkur Akureyringum mjög mikil vonbrigði, svo ekki sé nú meira sagt. Vakti mikla furðu og undrun að ekki hafi verið samið við Slippstöðina, hér á Akureyri, um breytingar og endurbætur á varðskipunum. Tilboð pólverjanna hljóðaði upp á 275 milljónir og var 13 milljónum króna lægra en tilboðið frá Slippstöðinni. Við blasti enda að munurinn á tilboðunum væri það lítill að hann myndi ekki einu sinni ná að dekka þann kostnað sem fylgdi því að flytja verkið úr landi. Þótti mér með ólíkindum að hlusta á rökstuðning Ríkiskaupa í málinu á þeim tímapunkti, en ég hef í engu skipt um skoðun. Að mínu mati var með ólíkindum að ekki hafi verið reynt að efla íslenskan skipa- og málmiðnað með þeim hætti sem best hentar, þegar svo stórt verkefni var um að ræða. Vakti þessi ákvörðun margar spurningar í stöðunni á þeim tímapunkti og ekki síður nú. Sú sem helst stendur eftir er þessi: hvað olli því að Ríkiskaup tók þann kostinn að horfa að öllu leyti framhjá kostnaði við flutning skipanna, uppihaldi starfsmanna og tengda þætti sem óhjákvæmilega fylgir?

Var ekki rétt að staldra aðeins við og taka þann þátt betur inn í dæmið áður en svo stór ákvörðun er tekin. Er rétt að minna á að fyrir nokkrum árum voru sömu varðskip send í endurnýjun til Póllands. Í það skiptið varð viðgerðin á Tý um 60% dýrari en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Hvað varðar Ægi fór kostnaðaráætlun þá 90% yfir það sem stefnt var að. Búast hefði mátt við að sú lexía hefði orðið stjórnvöldum og Ríkiskaupum dýrkeypt og mótað afstöðu til málsins fyrr á árinu. Sú varð ekki raunin. Eins og heyrst hefur í fréttum er staða Slippstöðvarinnar frekar slæm og horfir þunglega, en vonandi ná menn höndum saman um að laga það sem að er. Var ekki til að bæta stöðuna að horfa á þetta stóra og mikla verkefni fara héðan frá Akureyri út til Póllands. En ég endurtek mikilvægi þess að Símapeningarnir fari í mikilvæg verkefni og tek fram mikla ánægju mína með það að gert sé ráð fyrir nýju varðskipi og nýrri björgunarþyrlu.

John G. Roberts með fjölskyldu sinni

Eins og kom fram hér á vefnum í síðustu viku hefur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilnefnt John G. Roberts sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, í stað William H. Rehnquist sem lést fyrir rúmri viku. Í sumar hafði Bush tilnefnt Roberts sem dómara við réttinn í stað Söndru Day O'Connor. Sú skipan hefur verið dregin aftur og mun Bush fljótlega tilnefna annað dómaraefni en Sandra mun gegna embætti þar til eftirmaður hefur verið staðfestur í þinginu. Í dag kom Roberts fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og með því hefst staðfestingarferli vegna skipunar hans í forsetastólinn. Er þetta í fyrsta skipti í ellefu ár sem slíkt ferli hefst fyrir þinginu. Roberts þykir vera óumdeildur og er ekki búist við miklum og bitrum átökum vegna skipunar hans. Er það eflaust vegna þess að hann verður ekki svokallað swing vote eins og áður stefndi í, hefði hann tekið við af Söndru. Enginn í þinginu hefur þorað að draga feril hans, hið minnsta jafnvel, í efa og ljúka allir lofsorði á störf hans. Búast má við að hann fái á sig margar krefjandi spurningar og sótt verði að honum með því. En hinsvegar minnka sífellt líkurnar á hvassyrtu staðfestingarferli. Eru flestir spekingarnir vestanhafs farnir að spá því að Roberts muni fljúga með hraði inn í forsetastól réttarins og mæti lítilli mótspyrnu er á hólminn komi.

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í varaformannskjöri og styður Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Ennfremur hefur Bjarni Benediktsson lýst yfir stuðningi við Þorgerði Katrínu. Var yfirlýsing Árna merkileg í ljósi þess að hann er leiðtogi síns kjördæmis og hefur setið mun lengur á þingi en Þorgerður Katrín og ennfremur verið lengur í ríkisstjórn en hún. Leggur Árni greinilega ekki í slag við Þorgerði Katrínu um varaformennskuna. Það er vissulega mjög merkilegt að Árni styðji Þorgerði Katrínu til varaformennsku á þeirri forsendu einni að hún sé kona. Árni nefndi enda engin önnur atriði sem ástæðu fyrir því að hann styður Þorgerði Katrínu. Mér virðist það vera svo að Árni sé annaðhvort orðinn lítillátur maður með aldrinum eða hefur misst pólitíska frumkvæðið í kjördæminu til Þorgerðar Katrínar með atburðum seinustu daga. Mér er það allavega stórlega til efs að hann muni leiða lista flokksins í kjördæminu verði Þorgerður Katrín varaformaður og fari aftur fram í kraganum. Það getur varla svo verið komið að fólk verði forystumenn flokka sinna eingöngu vegna kynferðis síns – allavega undrast ég það ef svo er. Það hlýtur að vera svo að annað ráði en kynjasjónarmið, þó það sé auðvitað gott og blessað að konur hafi metnað fyrir sér. Fyrri verk og pólitísk forysta hljóta að vera ráðandi þáttur.

Jens Stoltenberg og Kjell Magne Bondevik

Þingkosningar eru í Noregi í dag. Skv. skoðanakönnunum í Noregi stefnir allt í spennandi kosningar og erfitt að spá hvort að vinstri- eða hægriarmurinn komist til valda að þeim loknum. Þó spá flestir spekingar að vinstristjórn komist til valda í landinu eftir kosningarnar, undir forsæti Jens Stoltenberg leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Fari svo mun óhjákvæmilega hægristjórn Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra, falla. Stjórnin hefur setið nær óslitið frá árinu 1997. Stoltenberg var reyndar forsætisráðherra í rúmt ár, 2000-2001, en tapaði seinustu þingkosningum árið 2001. Seinustu vikurnar hefur reyndar munurinn milli vinstri- og hægriblokkarinnar minnkað nokkuð. Skyndilega er orðinn fræðilegur möguleiki á því að Bondevik haldi völdum. Líkurnar á því minnka vissulega í ljósi þess að Carl I. Hagen og Framfaraflokkurinn vilja helst breyta til. Stjórnin hefur minnihluta á þinginu og þarf algjörlega að stóla sig á Hagen og flokk hans. Hætti hann stuðningi við stjórnina árið 2000 sem leiddi til falls hennar fram að kosningunum sem hægriflokkarnir unnu og mynduð var á ný stjórn í takt við fyrri hægristjórn. Búast má við spennandi kjördegi og talningu atkvæða. Bondevik hefur að flestra mati tekist að bæta verulega við sig og náð vopnum sínum. En nú er spurt: tekst honum að snúa stöðunni við? Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

Jóna Lísa ásamt sóknarbörnum

Séra Jóna Lísa kvaddi sóknarbörn hér á Akureyri í gær með messu í Akureyrarkirkju. Var það notaleg og góð stund. Fjöldi fólks mætti í kirkju til að kveðja Jónu Lísu. Hún lætur af embætti á fimmtudag og heldur til annarra starfa. Eftir messuna var kaffi og veitingar í boði í Safnaðarheimilinu, fjöldi fólks þáði það boð. Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson tekur svo við störfum í kirkjunni fyrir vikulok og ásamt honum Sólveig Halla Kristjánsdóttir guðfræðingur, sem tekur við nýju starfi æskulýðsprests. Með því þjóna þrír prestar við kirkjuna í stað tveggja áður. Svavar Alfreð heldur auðvitað áfram sínum störfum sem aðalprestur við kirkjuna. Séra Jónu Lísu eru færðar góðar kveðjur við starfslokin, er hún heldur nú til útlanda í ný verkefni. Nýjum presti er óskað góðs í sínum störfum fyrir sóknarbörn í Akureyrarprestakalli.

Saga dagsins
1974 Haile Selassie keisara Eþíópíu, steypt af stóli í valdaráni hersins. Keisaradæmið aflagt með því.
1977 Steve Biko, sem leiddi baráttu blökkumanna gegn valdhöfum í Suður-Afríku, deyr í varðhaldi.
1997 Skotar samþykkja með yfirgnæfandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu að koma upp heimastjórn í Edinborg - Donald Dewar verður fyrsti forystumaður heimastjórnar - Dewar lést snögglega árið 2000.
2001 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir stríði gegn hryðjuverkum, eftir árásir á BNA.
2003 Sveitasöngvarinn Johnny Cash, ein helsta goðsögnin í sveitatónlistinni, deyr, 71 árs að aldri.

Snjallyrðið
When I think of angels
I think of you.
And your flaming red hair
and the things that you do.

I heard you had left
no it couldn't be true.
When I think of angels
I think of you.

Gods speed to you angel
wherever you go.
Although you have left
I want you to know;

My heart's full of sorrow
I won't let it show.
I'll see you again
when it's my time to go.
Kristján Kristjánsson (KK) tónlistarmaður (When I Think of Angels)

Gríðarlega fallegt ljóð eftir KK. Engin orð fá lýst þessu - þetta talar sínu máli. Sannkölluð snilld.