Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 september 2005

Punktar dagsins
Hús Sameinuðu þjóðanna í New York

Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið er um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur þetta leitt til umræðu um hvort að draga eigi umsóknina til baka eður ei. Er ljóst að ekki hefur verið samstaða innan Sjálfstæðisflokksins um málið og þessa aðildarumsókn í heild sinni. Athygli vakti í janúarmánuði er Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, tjáði eindregna andstöðu sína við aðildarumsóknina. Sagði hann þá kostnað við hana geta farið yfir einn milljarð króna þegar allt væri talið með. Tilkynnti þá skoðun sína að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, ætti að draga umsóknina til baka. Hef ég alla tíð verið mjög andsnúinn þessari umsókn, eins og ég hef margoft ítrekað í skrifum mínum. Við hjá SUS höfum margoft ályktað ennfremur gegn umsókninni. Skrifaði ég ítarlegan pistil um málið þann 7. febrúar sl. og fór þá yfir umræðuna vikurnar á undan. Í pistlinum bar ég fram þá ósk að Davíð myndi beita sér í þá átt að hætta við þessa umsókn með formlegum hætti.

29. apríl sl. flutti Davíð skýrslu sína um utanríkismál. Þar tjáði hann þá skoðun sína að áleitnar spurningar hefðu komið upp í hans huga varðandi kostnað við framboð Íslands til öryggisráðsins. Síðan þá og eins eftir ummæli þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa miklar efasemdir verið uppi um þetta mál. Nú er framundan allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og verða íslensk stjórnvöld að taka endanlega ákvörðun í málinu, hvort þeir fara út í kosningabaráttu af þessu tagi, fyrir þingbyrjun 3. október nk. Í dag tilkynnti Davíð að hann myndi ekki taka þá ákvörðun áður en hann léti af embætti utanríkisráðherra þann 27. september nk. Það kemur því í hlut Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, sem tekur við embætti af Davíð að taka hina endanlegu ákvörðun um framhald málsins. Verður fróðlegt að sjá hvaða afstöðu hann muni taka til málsins að lokum. Finnst mér það rétt hjá Davíð að færa valdið í hendur eftirmanns síns. Davíð er að fara að hætta störfum í stjórnmálum og kveður ráðuneytið brátt og því hið eina rétta að Geir taki ákvörðunina. Eins og fyrr segir hef ég alla tíð verið mjög andvígur því að Ísland myndi sækja um þessa aðild, enda um að ræða mjög kostnaðarsama kosningabaráttu sem taki bæði langan tíma og alls óvíst sé um árangur.

Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Þykir mér skorta allverulega á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Ef forsætisráðherra ætlar að halda áfram á sömu braut er rétt að velta því fyrir sér hvað gerist í málinu innan Sjálfstæðisflokksins og af hálfu verðandi formanns flokksins og væntanlegs utanríkisráðherra. Að framansögðu er rétt að ítreka mat mitt að Ísland eigi að hætta við umsókn sína um sæti í öryggisráðinu. Rétt er að forgangsraða betur í málaflokknum og beina sjónum okkar í aðrar áttir.

Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Geir muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. En það er viðbúið að brátt dragi að úrslitastund og fróðlegt að sjá hver endirinn verður.

Gerhard SchröderAngela Merkel

Þjóðverjar ganga að kjörborðinu á sunnudag. Munurinn milli vinstri- og hægriblokkarinnar hefur aukist að nýju seinustu daga. Stefnir nú allt í frekar afgerandi sigur hægriaflanna og það að Angela Merkel verði kanslari, fyrst þýskra kvenna. Gerhard Schröder kanslara, hafði tekist eftir sjónvarpseinvígi milli hans og Merkel í seinustu viku að auka fylgi jafnaðarmanna en nú hefur munurinn aukist aftur. Skv. nýjustu könnunum gætu hægriflokkarnir myndað starfhæfa ríkisstjórn undir forsæti Merkel. Að því stefnir hún. Schröder hefur lagt nótt við dag til að breyta stöðunni en líkur hans minnka sífellt eftir því sem nær dregur. Svo gæti þó farið að hægriflokkarnir nái ekki starfhæfum meirihluta, sem myndi leiða til hinnar svonefndu stóru samsteypu (grosse koalition) sem er samstjórn hægriflokkanna og jafnaðarmanna. Hefur slík stjórn ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það yrðu því óneitanlega þáttaskil ef hún kæmi til nú. Hvernig sem fer virðist allt stefna í að Merkel taki við og ákveði framhaldið. Er öllum ljóst að Schröder yrði vart í stjórn undir forsæti hennar og er því spurning hvernig flokkur hans færi út úr slíku samstarfi. Reyndar er Schröder ekki leiðtogi flokksins, heldur aðeins kanslaraefni hans. Hvernig sem fer stefnir í líflegan lokasprett og spennandi kosningakvöld þegar úrslitin koma endanlega í ljós.

John G. Roberts

Seinustu dagana hefur John G. Roberts tilnefndur forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, setið fyrir svörum hjá dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Þar hefur hann fengið fjölda spurninga um lagaleg álitaefni og málefni tengd persónu hans. Er óhætt að fullyrða að farið hafi verið yfir ólík málefni, allt frá smáatriðum sem hann hefur ritað um persónuleg viðhorf og lagaleg álitaefni til háfræðilegra málefna tengdum stórmálum sem fyrir hæstarétt hafa farið á undanförnum áratugum. Hef ég fylgst smávægilega með spurningaferlinu og séð brot af því á vef CNN. Er óhætt að segja að þetta séu ítarlegar yfirheyrslur og fátt sem framhjá fer í því öllu saman. Sérstaklega hafa fulltrúar demókrata í nefndinni saumað að Roberts og viljað heyra meira um skoðanir hans á fjölda málefna. Hefur Roberts komið mjög á óvart að flestra mati í þessum yfirheyrslum með því að virka með á alla hluti og vel reiðubúinn að eiga við þaulreynda þingmennina. Er enginn vafi á því að hann verður staðfestur sem forseti réttarins innan skamms tíma. Reyndar lýkur yfirheyrslunum formlega á morgun og þá tekur við bein kosning fyrir öldungadeildinni. Þar verður Roberts að hljóta rúmlega 50 atkvæði til að verða staðfestur. Er algjörlega ljóst að hann fær þann stuðning og gott betur. Ekki er búist við mikilli andstöðu er á hólminn kemur.

Easy Rider

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Easy Rider, sígilda og næstum sagnfræðilega gullaldarheimild um hippaheimspeki sjöunda áratugarins. Í myndinni er sögð saga af blómabörnunum Billy og Wyatt sem leggja upp í ferð til að skoða gervalla Ameríku. Á leiðinni kynnast þeir fjölmörgum skrýtnum landanum, m.a. er George Hanson, lögfróður drykkjurútur, sem ákveður að slást í för með þeim félögum. Hiklaust ein af mest stefnumótandi myndum sjöunda áratugarins og jafnvel kvikmyndasögunnar, enda eru eftirlíkingarnar af henni orðnar óteljandi. Kostaði smáaura en halaði inn milljónum dollara og varð ein af vinsælustu kvikmyndum sjöunda áratugarins og hefur unnið sér merkan sess í kvikmyndasögunni. Dennis Hopper og Peter Fonda fara á kostum í hlutverkum ferðafélaganna og óskarsverðlaunaleikarinn Jack Nicholson er ógleymanlegur í hlutverki George Hanson. Það hlutverk færði honum frægð og frama og frelsaði hann undan samstarfi hans við B-myndaleikstjórann Roger Corman, en B-myndirnar voru ódýrar fljótheitamyndir sem gerðar voru til að fylla upp í þegar A-myndir voru sýndar með annarri mynd. Heldur afar vel sínum upphaflega sjarma og er enn í dag meistaraleg úttekt á þessum róstursama áratug þegar blómabörnin voru uppá sitt besta. Ætti að vera flestum ágæt upprifjun eða upplifun.

Brynjólfur Sveinsson

Á hverjum degi meðhöndlum við flestöll þúsund króna seðil. Eins og flestir vita prýðir þann seðil mynd af Brynjólfi Sveinsson biskup að Skálholti. Brynjólfur á sér mjög merka sögu, svo vægt sé til orða tekið. Í dag opnaði hr. Karl Sigurbjörnsson biskup, ítarlegan vef um Brynjólf og sögu hans. Hvet ég alla lesendur vefsins til að líta á hann og kynna sér betur þennan merka mann og lesa umfjöllunina sem þar er að finna. Er hún bæði góð og fróðleg.

Saga dagsins
1950 Flugvélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu á Vatnajökli - 6 manna áhöfn komst lífs af í slysinu.
1982 Dr. Kristján Eldjárn fyrrv. forseti Íslands, deyr á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, 65 ára að aldri, eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð í Ohio. Kristján þótti táknmynd alþýðleika og virðugleika á forsetastóli, en hann gegndi forsetaembættinu með mjög farsælum hætti í tólf ár, árin 1968-1980.
1982 Grace Kelly furstaynja af Mónakó, deyr af völdum heilablóðfalls í kjölfar bílslyss, 52 ára að aldri. Grace var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug 20. aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum og hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Country Girl árið 1955. Grace hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood, er hún giftist Rainier III fursta af Mónakó, árið 1956. Rainier sat áfram á valdastóli eftir lát konu sinnar. Hann lést í aprílmánuði 2005.
1996 Vestfjarðagöngin, milli Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Ísafjarðar vígð - þau eru 9 km. löng.
2003 Sænskir kjósendur höfnuðu aðild landsins að myntbandalagi Evrópu, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Snjallyrðið
Ljúfasta stundin
er löngu horfin
og liðið að hausti.
Skjálfa viðir,
en skipið fúnar
skorðað í nausti.

Og sorgin læðist
í svörtum slæðum
um sölnuð engi.
Blöðin hrynja
í bleikum skógum
á brostna strengi.

Löng er nóttin
og nístingsköld
við niðandi ósa.
Hjartað stinga
hélaðir þyrnar
heilagra rósa.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Haustkveðja)

Ein af perlum Davíðs frá Fagraskógi - fallegt og táknrænt ljóð.