Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 september 2005

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri,
í varaformannsframboð


Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, hefur ákveðið að gefa kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Fyrr í dag gaf Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, kost á sér í varaformanninn og stefnir því í kosningu milli þeirra á landsfundi flokksins sem verður í Reykjavík dagana 13. - 16. október nk. Búast má alveg við fleiri framboðum. Kristján Þór hélt blaðamannafund á Hamarskotsklöppum við styttu Helga magra og Þórunnar hyrnu á Akureyri á þriðja tímanum í dag þar sem hann tilkynnti formlega um framboð sitt. Eiginkona Kristjáns Þórs er Guðbjörg Ringsted og eiga þau fjögur börn. Hann fæddist á Dalvík árið 1957 og var nokkurn tíma kennari við grunnskólann og stýrimannaskólann á staðnum. Kristján Þór Júlíusson hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann varð bæjarstjóri á Dalvík, aðeins 29 ára að aldri, árið 1986 og sat þar að hálfu meirihluta Sjálfstæðisflokksins og vinstrimanna. Sjálfstæðisflokkurinn á Dalvík varð aldrei sterkari og öflugri en á þeim tíma sem hann var bæjarstjóri að hálfu flokksins og aldrei hefur Dalvík verið öflugri en á þeim tíma. Árið 1994 yfirgáfu Kristján Þór og fjölskylda hans Dalvík og hann tók við bæjarstjórastarfi á Ísafirði, sem hann gegndi til ársins 1997.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 1998 sneri Kristján Þór aftur með fjölskyldu sína á heimaslóðir. Var ákveðið að hann yrði bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í þeim kosningum og leiddi hann framboðslista okkar. Var sótt fram af krafti. Slagorð kosninganna varð: Kraftur í stað kyrrstöðu! Var það jákvæð, skemmtileg og ánægjuleg kosningabarátta. Deyfð og stöðnun höfðu einkennt Akureyri á kjörtímabilinu sem þá var að ljúka og slagorðið og krafturinn í framboðinu hittu svo sannarlega í mark. Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur í kosningunum, hlaut tæp 43% og fimm bæjarfulltrúa kjörna af ellefu sem sæti eiga í bæjarstjórn. 9. júní 1998 tók Kristján Þór við embætti bæjarstjóra hér á Akureyri og hefur gegnt því starfi síðan og leitt okkur sjálfstæðismenn með farsælum árangri. Í síðustu kosningum árið 2002 hélt flokkurinn þeim sess aðrar kosningarnar í röð að vera stærsti flokkurinn. Er það vissulega sögulegur árangur í þessu fræga vígi Framsóknarflokksins sem til fjölda ára var stærsti flokkurinn hér. Á þessum tveim kjörtímabilum okkar hefur staða Akureyrar styrkst til mikilla muna: íbúum hefur fjölgað og ýmsar glæsilegar verklegar framkvæmdir hafa einkennt uppbygginguna sem við sjálfstæðismenn höfum leitt í bænum.

Mun ég að sjálfsögðu kjósa Kristján Þór til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hef ég þekkt Kristján Þór Júlíusson í um tvo áratugi. Kynntist ég honum fyrst er ég flutti til Dalvíkur um miðjan níunda áratuginn héðan frá Akureyri. Síðan hef ég metið Kristján Þór mjög mikils. Hann varð farsæll stjórnmálamaður skömmu síðar, varð ungur bæjarstjóri og sannaði styrk sinn í því starfi og stýrði Dalvíkurbæ með miklum krafti og hefur endurtekið leikinn bæði á Ísafirði og hér á Akureyri sem pólitískur leiðtogi okkar sjálfstæðismanna. Faðir Kristjáns Þórs, Júlíus Kristjánsson, hefur verið góðvinur minn ennfremur til fjölda ára og met ég mjög mikils tengsl mín við fjölskyldu hans. Það er sjálfsagt mál að Kristján Þór reyni á stöðu sína og hvernig hann standi á þessum tímapunkti innan flokksins. Stóll varaformanns flokksins er laus í kjölfar þess að Davíð Oddsson tilkynnti í gær að hann myndi láta af formennsku á landsfundi flokksins í október. Nú er framundan spennandi varaformannskjör sem verður athyglisvert að fylgjast með.

Punktar dagsins
Davíð Oddsson

Eins og allir vita hefur Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nú tilkynnt brotthvarf sitt úr íslenskum stjórnmálum. Mikil þáttaskil fylgja því að Davíð víki af þingi og úr ríkisstjórn fyrir lok þessa mánaðar. Jafnframt er ljóst af ákvörðun hans að sækjast ekki eftir endurkjöri á formannsstól Sjálfstæðisflokksins að miklar breytingar verða á forystu flokksins og ásýnd hans. Mörgum kom á óvart að Davíð skyldi víkja úr stjórnmálum á þessum tímapunkti til að taka við embætti seðlabankastjóra. En það þarf engan að undra að Davíð vilji breyta til og stefna á ný verkefni. Hann hefur verið í forystusveit íslenskra stjórnmála í tæp 25 ár, sem leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, borgarstjóri í Reykjavík, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og að lokum utanríkisráðherra. Eins og ég fór yfir í gær er stjórnmálaferill hans glæsilegur og mun hans verða minnst fyrir sína kraftmiklu pólitísku forystu, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þjóðina, í forsæti flokks og ríkisstjórnar. Davíð kynnti þessi þáttaskil með sínum hætti á blaðamannafundinum í Valhöll í gær. Hann talaði af krafti og kom glæsilega fyrir, eins og hans er von og vísa. En miklar breytingar fylgja brotthvarfi hans, það blasir við.

Í gær birtist pistill minn um þessi stórtíðindi á vefritinu íhald.is. Þakka ég þeim sem skrifuðu mér vegna þeirra skrifa. Taldi ég rétt að skrifa eilítið um þann merka stjórnmálaferil sem Davíð hefur átt og það framlag sem hann hefur unnið í þágu flokksins okkar. Við sem erum í Sjálfstæðisflokknum munum aldrei geta þakkað honum nægilega fyrir sína góðu forystu. En ég vona að þessi pistill hafi verið jafneinlæglegur og hann átti að vera í garð þessa mikla forystumanns okkar. Það var merkilegt að sjá í gær viðbrögð formanna stjórnarandstöðuflokkanna við þessum pólitísku stórtíðindum. Öll lofuðu þau mjög pólitískt starf hans og karakterinn Davíð Oddsson. Er það engin furða, enda væri sá stjórnmálamaður eða stjórnmálaspekingur í mikilli afneitun ef hann viðurkenndi ekki styrk Davíðs sem stjórnmálamanns og merk verk hans á þeim vettvangi. Sérstaklega var áhugavert að heyra í formanni Samfylkingarinnar, sem þrátt fyrir orrahríðir við Davíð, talaði mjög glæsilega um verk hans og forystu. Enda er varla annað hægt. Hann er einfaldlega það öflugur hluti af stjórnmálasögu landsins seinustu áratugina að það blasir við öllum sem fylgjast með útlínum og meginpunktum stjórnmálanna, bæði í nútímanum og eins áður fyrr, sögulega hornsteina stjórnmálasögu okkar.

En það er vissulega líf eftir Davíð Oddsson, þó öll söknum við hans mjög úr forystunni. Nú er það verkefni okkar sem eftir stöndum að halda uppi merki hans í stjórnmálum og standa vörð um pólitísku verkefnin sem framundan eru og eins þau miklu verk sem hann hefur leitt til þessa. Pólitísk verkefni taka aldrei enda, alltaf eru áskoranir framundan á veginum - verk að vinna. Vissulega verður eilítið öðruvísi að starfa innan Sjálfstæðisflokksins í pólitísku starfi eftir að formannsferli Davíðs Oddssonar lýkur. En flokkurinn hefur haldið velli í tæpa átta áratugi og leitt íslensk stjórnmál sem stærsti flokkur landsins. Þannig var það áður en Davíð Oddsson kemur til sögunnar og þannig verður það nú þegar að hann fer úr forystusveitinni eftir sín góðu verk. Sjálfstæðisstefnan sem grunnpunktur flokksins sameinar okkur og á grunni hennar sækjum við fram á komandi árum, í tveim mikilvægum kosningum. En það er alltaf sjónarsviptir af sterkum mönnum - eftirsjá þegar að litríkir menn sem sett hafa svip á samtíð sína taka þá ákvörðun að hætta störfum að stjórnmálum og takast á hendur önnur verkefni. Það á svo sannarlega við um þann öfluga stjórnmálamann sem Davíð Oddsson er.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra

Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi flokksins í október. Hann tilkynnti þetta í Valhöll í gær í kjölfar þess að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti að hann sæktist ekki eftir endurkjöri. Það kemur engum á óvart að Geir hafi áhuga á formennsku í flokknum við þessi þáttaskil. Hann er mjög reyndur stjórnmálamaður. Geir hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal forseti Alþingis, setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir hefur verið varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og hefur verið fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, frá 16. apríl 1998, eða í rúm sjö ár. Það er því mjög eðlilegt að hann sækist nú eftir því að leiða flokkinn og verða eftirmaður Davíðs Oddssonar. Styð ég hann heilshugar í því verkefni. Hefur Geir unnið mjög ötullega að flokksstarfinu úti á landi í varaformannstíð sinni. Hann hefur sótt fundi á vettvangi kjördæmanna og hann hefur nokkrum sinnum verið gestur okkar hér ásamt eiginkonu sinni, Ingu Jónu Þórðardóttur, í sumarferðum okkar.

Fyrir mánaðarmót verður Geir utanríkisráðherra og tekur við nýjum verkefnum eftir farsælan feril í fjármálaráðuneytinu. Verður merkilegt að fylgjast með honum í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Geir verður einn í kjöri á landsfundinum eftir mánuð og mun hljóta glæsilega kosningu sem eftirmaður Davíðs á formannsstóli. Það verða engin átök um formennskuna og við munum öll sameinast að baki Geir og styðja hann heilshugar í þeim verkefnum sem blasa við honum og flokknum okkar á komandi árum. Framundan eru tvær mjög spennandi kosningar og áhugavert verður að vinna fyrir flokkinn í þeim átökum sem fylgja kosningunum, og undir forystu Geirs sem væntanlegs formanns okkar. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins seinustu árin að fylgja formanni sínum heilshugar í því sem gera þarf og þeim verkefnum sem framundan eru á veginum. Ég vil óska Geir góðs í því sem við tekur eftir að hann tekur við formennsku flokksins og vona að honum muni ganga vel í því stóra verkefni sem bíður hans er hann tekur við forystunni af farsælasta foringja okkar sjálfstæðismanna, Davíð Oddssyni.

Jarðarför William H. Rehnquist

William Rehnquist forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, var jarðsunginn í Washington í gær. Hann lést að kvöldi laugardags eftir erfiða baráttu við krabbamein, áttræður að aldri. Hann hafði setið í hæstarétti Bandaríkjanna í 33 ár, frá árinu 1972, og verið forseti réttarins í tæpa tvo áratugi, frá árinu 1986. Jarðarförin þótti mjög látlaus. Hafði Rehnquist sjálfur afþakkað viðhafnarjarðarför (state funeral) sem hann átti rétt á sem forseti hæstaréttar. Aðeins forsetar landsins og réttarins hafa rétt á slíku. Fór athöfnin fram í St. Matthew's kapellu í Washington. Fluttu James Rehnquist (sonur hins látna), George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Sandra Day O'Connor hæstaréttardómari (sem var náin vinkona Rehnquist og ennfremur skólafélagi hans og síðar vinnufélagi í réttinum í 24 ár), og Antonin Scalia hæstaréttardómari, ræður við athöfnina og minntust hans. Fyrir athöfnina hafði kista Rehnquist legið á viðhafnarbörum í viðhafnarsal hæstaréttar í rúman sólarhring. Einn líkmanna við útförina var John G. Roberts sem skipaður hefur verið eftirmaður Rehnquists á forsetastól hæstaréttar, en hann hafði verið aðstoðarmaður hans í réttinum um tíma á níunda áratugnum. Eftir útförina var kista Rehnquists flutt í Arlington-kirkjugarð þar sem greftrun fór fram.

Helgi magri og Þórunn hyrna

Skóladeild Akureyrarbæjar hefur nú auglýst eftir tilboðum í rekstur nýja leikskólans hér á Brekkunni, sem hlotið hefur heitið Hólmasól. Leikskólinn, sem er við Helgamagrastræti, er nefndur eftir Þorbjörgu hólmasól, sem var fyrsta barnið sem talið er að fæðst hafi í Eyjafirði, en hún var dóttir landnámshjónanna Helga magra og Þórunnar hyrnu. Stendur skólinn einmitt við götur sem heitir í höfuðið á þeim Helgamagrastræti og Þórunnarstræti. Er gleðiefni að rekstur leikskólans sé boðinn út og annað rekstrarform komi í leikskólamálum. Er ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdum á byggingasvæðinu, en leikskólinn rís nú mjög hratt og tekur sífellt á sig mynd. Verður hann tilbúinn á fyrrihluta næsta árs.

Saga dagsins
1779 Bjarni Pálsson landlæknir, lést, sextugur að aldri. Bjarni var landlæknir allt frá 1760 til æviloka.
1891 Ölfusárbrú vígð - var fyrsta hengibrú landsmanna og ein mesta verklega framkvæmd landsins.
1943 Bandamenn ná formlega völdum á Ítalíu - veldi Benito Mussolini hafði hrunið þá fyrr um árið.
1975 Dagblaðið "frjálst, óháð dagblað" kom út í fyrsta skipti - blaðið sameinaðist Vísi í DV árið 1981.
1987 50 króna mynt kom til sögunnar - samhliða því var formlega hætt útgáfu 50 krónu seðils.

Snjallyrðið
Þú ert eins og vindurinn og kælir mig niður,
þú ert eins og sumarið hiti og friður,
þú ert eins og vorið björt og fríð,
í skugga þínum ég brosi og bíð.

Þú ert eins og vatnið kitlandi svalt,
þú ert eins og stálið blikandi kalt,
þú ert eins og silkið svo undurmjúkt,
sál mín af ást til þín er sjúk.

Þú bara ert
- og það nægir mér.

Þú ilmar sem hafið þungt og sætt,
ilmar eins og barnið sem er nýfætt,
þú ilmar sem öspin eftir rigninganótt
hjarta mitt slær taktfast og rótt.

Þú ert eins og moldin frjó og góð,
þú ert full af lífi og eldmóð,
þú ert eins og barnið og spyrð um allt,
í skugga þínum er alltaf svalt.

Þú ert eins og tunglið og togar í mig,
þú ert eins og eldur og ég elska þig,
þú ert spör á orðið sem ég þrái að heyra,
ég bragðaði á þér og ég vil meira.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Þú ert)

Mikið innilega er þetta fallegt ljóð hjá meistara Bubba. Sætt og ljúft í gegn - eitt af glæsilegum ljóðum við falleg lög Bubba á nýju plötunum hans.