Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 september 2005

Punktar dagsins
Angela Merkel og Gerhard Schröder

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi eftir tæpar tvær vikur. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands, og leysa af hólmi Gerhard Schröder kanslara, sem setið hefur á valdastóli frá árinu 1998 og leitt ríkisstjórn sósíalista og græningja. Í kosningunum 2002 tókst kanslaranum naumlega að halda völdum á lokaspretti kosningabaráttunnar, eftir að hafa verið undir í skoðanakönnunum nær alla baráttuna. Vonast hann til að endurtaka leikinn nú, en staðan er enn erfiðari fyrir hann nú en þá. Stefnir því í það að hann missi völdin núna, ef ekkert breytist. Hægrimenn eru greinilega staðráðnir í því að endurtaka ekki nú sömu mistökin á lokasprettinum 2002 er þeir leyfðu hinum fjölmiðlavæna kanslara að stela sviðsljósinu. Angela hefur skipt um útlit, er komin í fagrar dragtir og hefur fengið sér glæsilega hárgreiðslu og talar af enn meiri fítonskrafti en nokkru sinni áður. Greinilegt er að Schröder getur ekki einvörðungu treyst á persónuþokkann og kosningabrosin og reynir því að snúa út úr málefnalegum punktum andstæðinganna með ýmsum hætti.

Á sunnudagskvöldið mættust Merkel og Schröder í kappræðum að bandarískum hætti í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni RTL. Þar var farið yfir kosningabaráttuna og átakapunkta hennar. Þau voru bæði í hörkuformi og skiptust á skotum sín á milli. Fyrirfram hafði verið álitið að Merkel myndi standa mun verr að vígi, enda almennt talin hafa nokkuð harða ásýnd og vera mun fjarlægari í framkomu í sjónvarpi en kanslarinn. Fyrir þrem árum þegar að Schröder mætti Edmund Stoiber þáverandi kanslaraefni hægrimanna, var mikið rætt um aldursmuninn milli þeirra, enda var hinn gráhærði Stoiber (maður reynslunnar) mun eldri ásýndum en kanslarinn dökkhærði með þaulæfða kosningabrosið. Þá var mikið reyndar talað um hvort kanslarinn litaði á sér hárið til að halda sér unglegum sem leiddi til málshöfðunar kanslarans í garð slúðurblaðs. Stoiber tapaði naumlega kosningunum reyndar, en væntanlega má skrifa það á það að hann var eldri en Schröder og mörgum fannst hann orðinn einum of gamall, eins hlægilegt og það er að segja um mann sem hefur mikla reynslu til að bera. Merkel kom eitilhörð til leiks á sunnudagskvöldið, staðráðin í að sanna sig og taka frumkvæðið í kappræðunum og reka af sér slyðruorðið um að hún væri lakari í kappræðum en kanslarinn. Hún sýndi kanslaranum þá hörku sem þurfti.

Angela kom kraftmikil til leiks og sannaði kraft sinn. Það greinilega fékk á kanslarann hversu vel undirbúin hún var og vel inni í málunum. Hún svaraði öllu sem hann sagði með krafti og endurtók lykilorðin: atvinnuleysið hefur minnkað í valdatíð þinni - hagvöxturinn hefur dalað - Þýskaland hefur liðið fyrir vinstriáherslur, og klikkti út með því að horfa í áttina til kanslarans og segja: Það hefur ekkert staðist af því sem þú hefur lofað. Kanslarinn átti sína spretti og var mjög öflugur á köflum. Mörgum fannst þó fyndið að sjá hvernig Merkel stóð álengdar meðan kanslarinn talaði og leit til hans augum í takt við kennslukonuna sem horfir ábúðarfull á nemandann. Henni tókst það sem margir höfðu talið að hún myndi flaska á, að ná frumkvæði og halda dampi gegn fjölmiðlastjörnunni Schröder. Mörgum fannst merkilegt að fylgjast með lokaorðum Merkel í kappræðunum. Var greinilegt að hún hafði sótt í smiðju Ronald Reagan fyrrum forseta Bandaríkjanna, og lokaorðum sem hann flutti í kappræðum við Jimmy Carter fyrir forsetakosningarnar 1980. Spurði Merkel líkt og Reagan fyrir 25 árum hvort kjósendur væru vel stæðir eftir valdatíð vinstrimanna og hvort þeir væru sáttir við stjórnvöld. Var hún einbeitt í tali og kom mörgum á óvart með frammistöðu sinni.

Angela Merkel sem eins og fyrr segir verður væntanlega næsti kanslari Þýskalands græðir aðallega á tvennu: óvinsældum kanslarans (sem hefur ekki tekist að efna fögru loforðin frá kosningunum 1998) og frjálslegt yfirbragð. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus og því langt í frá lík t.d. Stoiber sem þótti vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Schröder og Merkel eiga það sameiginlegt að hafa gifst oftar en einu sinni og vera allskrautlegar týpur sem hika ekki við að taka vinnuna framyfir einkalífið - vera miklir vinnuhestar. Það ræðst bráðlega hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og Angela er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á kosningaspár.

Guðmundur Árni Stefánsson

Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra, lét af þingmennsku í síðustu viku. Hann sat á þingi í tólf ár, fyrir Alþýðuflokkinn og Samfylkinguna. Guðmundur Árni hafði við afsögn sína af þingi þann merka sess að vera seinasti formaður Alþýðuflokksins, sem enn er til á pappírunum en rann inn í Samfylkinguna árið 2000. Í ítarlegu viðtali við Árna Þórarinsson í Morgunblaðinu sl. sunnudag fór Guðmundur Árni yfir stjórnmálaferil sinn og mikilvæga punkta sem hann nefnir er hann gerir upp árin tólf á þingi. Fannst mér merkilegt að lesa þetta viðtal. Í því segir hann hreint út að kosningabarátta Samfylkingarinnar 2003 hafi verið misheppnuð, þrátt fyrir fylgisaukningu, og að leiðtogatvíeyki flokksins í kosningunum, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson hafi klikkað í forystu sinni í kosningunum. Hann sakar þau hreinlega um reynsluleysi í viðtalinu. Kemur greinilega fram að Guðmundur Árni vildi stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eftir kosningar og segir að reynsluleysi leiðtogatvíeykisins með því að ætla að hlaupa til Framsóknar eftir kosningar og bjóða þeim strax forsæti í mögulegri stjórn flokkanna hafi eyðilagt möguleika flokksins á stjórnarsetu. Er ekki hægt að taka orð hans í viðtalinu öðruvísi en sem harkalega gagnrýni á þau sem leiddu flokkinn fyrir og eftir kosningarnar 2003.

Það er greinileg eftirsjá hjá Guðmundi Árna er hann hættir í stjórnmálum. Hann ítrekar að hann hafi verið í stjórnmálum til að hafa áhrif og hafi ekki áhuga á starfi í stjórnarandstöðu endalaust og vilji því reyna á nýjar lendur. Hann hefur misst áhugann og pólitíska kraftinn og skiptir um starfsvettvang vegna þess. Eins og allir vita var Guðmundur Árni lengi vel ein skærasta stjarna íslenskra jafnaðarmanna og framan af talinn einn helsti vonarpeningur þeirra. Hann varð bæjarstjóri í Hafnarfirði eftir kosningasigur krata árið 1986 og varð það áfram eftir kosningarnar 1990 er flokkurinn vann hreinan meirihluta. Hann lét af bæjarstjórastarfi árið 1993 er hann tók sæti á Alþingi er Jón Sigurðsson varð seðlabankastjóri. Samhliða því tók hann við embætti heilbrigðisráðherra. Við afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1994 varð hann félagsmálaráðherra. Í kjölfar hneykslismála neyddist hann til að segja af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994. Í viðtalinu víkur Guðmundur Árni að því máli og segir að innan Alþýðuflokksins hafi menn barist gegn sér á þeim tíma og hann hafi ekki getað treyst á lykilmenn sem veittust harkalega að honum þegar á reyndi. Er greinilegt að í hans huga er sú rimma geymd en ekki gleymd.

En það sem mér finnst athyglisverðast við viðtalið við Guðmund Árna er að hann ræðst bæði að ISG og Össuri. Það er greinilegt að mjög djúpstæðar deilur hafa verið milli þessara þriggja innan Samfylkingarinnar og grunnt á því góða. Það sást t.d. mjög vel í eftirlaunamálinu er þáverandi formenn stjórnarandstöðuflokkanna stóðu að samkomulagi sem þeir hrökkluðust frá með skottið á milli lappanna vegna innri ágreinings. Össur lét ISG stjórna sér í þeim hasar, Steingrímur J. flúði á fjöll og Guðjón Arnar fór í frí til Kanarí. Sigurjón Þórðarson greiddi svo atkvæði gegn frumvarpi sem hann var sjálfur flutningsmaður að, eins og margir muna. Menn eru enn að reyna að átta sig á þeim merkilega viðsnúningi goðans. Guðmundur Árni stóð við sitt sem Samfylkingin hafði samþykkt í sínum þingflokki, en aðrir hrökkluðust þar frá. En þetta er áhugavert viðtal - uppgjör manns sem til fjölda ára var áberandi í íslenskum stjórnmálum. Maður sem sennilega upplifði á ferlinum bæði hátind og botn pólitískrar þátttöku, pólitíska sæta sigra og beiska pólitíska ósigra. Í raun hef ég alltaf borið virðingu fyrir Guðmundi Árna og metið hann einna mest þeirra krata sem eftir eru úr gamla Alþýðuflokknum og reyndu fyrir sér í Samfylkingunni, með misjöfnum árangri.

Bendi ég lesendum vefsins á að líta á bók hans, Hreinar línur, sem er að finna á vef hans. Í þeirri bók fer hann yfir pólitískan feril sinn fram að afsögninni árið 1994 og fer vel yfir átökin sem fylgdu afsögninni. Þessi bók er ágætislesning fyrir alla pólitíska áhugamenn að mínu mati. En það var mjög áhugavert að lesa Moggaviðtalið við Guðmund Árna, nú er hann skiptir um starfsvettvang og gerir upp fyrri pólitísk málefni áður en hann flýgur til Stokkhólms í ný verkefni í utanríkisþjónustunni.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í gærkvöldi var aðalfundur fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri haldinn í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri. Fundurinn var mjög fjölmennur og var ánægjulegt að hitta flokksfélaga sem komu þar saman og eiga þar gott spjall um málin. Fundarstjóri á fundinum var Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður og fyrrum bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Fundarritari var Anna Fr. Blöndal fyrrum formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Í upphafi fundar flutti Björn Magnússon formaður, skýrslu stjórnar fulltrúaráðsins. Að því loknu kynnti Eygló Birgisdóttir gjaldkeri stjórnarinnar, reikninga fulltrúaráðsins, með ítarlegum hætti. Að því loknu var komið að kosningu til stjórnar. Björn Magnússon var sjálfkjörinn til formennsku í fulltrúaráðinu. Hefur hann leitt fulltrúaráðið frá árinu 2000 og mun því leiða fulltrúaráðið á kosningavetrinum sem framundan er.

Fjögur framboð bárust svo til setu í aðalstjórn fulltrúaráðsins, en kosið er um tvö sæti, utan formanns sem kjörinn er sérstaklega. Kjör í stjórn fulltrúaráðsins hlutu Anna Fr. Blöndal og Eygló Birgisdóttir. Ásamt þeim og Birni sitja í stjórn fulltrúaráðs formenn sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Þau eru auk undirritaðs sem er formaður Varðar, Þorvaldur Ingvarsson formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, Helga Ingólfsdóttir formaður Varnar, og Gísli Aðalsteinsson formaður Sleipnis. Varamenn voru kjörnir Anna Þóra Baldursdóttir, Gísli Jónsson og Jóhanna H. Ragnarsdóttir. Jafnframt var kjörin kjörnefnd vegna sveitarstjórnarkosninganna sem framundan eru og kosið í kjördæmisráð af hálfu fulltrúaráðsins, en kjördæmisþing verður í Mývatnssveit laugardaginn 24. september nk. Að fundi loknum var boðið upp á veitingar og eins og venjulega skipulagði Helga okkar Ingólfsdóttir það af sinni stöku snilld.

Kenneth Clarke

Eins og allir vita er leiðtogakjör framundan í breska Íhaldsflokknum. Verður það væntanlega í nóvember sem kjörið fer fram og mun Michael Howard þá formlega hætta sem leiðtogi eftir að hafa setið á þeim stóli í tvö ár. Þegar hafa Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, Malcolm Rifkind fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, David Davis, Liam Fox og David Cameron gefið kost á sér í leiðtogahlutverkið. Stefnir því allt í harðan og spennandi slag um leiðtogastöðuna. Í gær var birt skoðanakönnun BBC um fylgi leiðtogaefnanna meðal landsmanna. Þar hefur Ken Clarke algjöra yfirburði yfir aðra kandidata. Segjast 40% Breta vilja að Clarke taki við leiðtogahlutverkinu. Aðeins 10% nefna David Davis og 4% nefna Malcolm Rifkind. Það er greinilegt að ráði landsmenn verði Clarke leiðtogi á þessum tímapunkti. Stefnir í harðan slag um leiðtogastöðuna og verður spennandi að fylgjast með þeim átökum. En því er ekki að neita að staða Clarke er gríðarlega sterk, hann er maður sem hefur reynsluna og kraftinn sem þarf til að leiða. Menn staldra hinsvegar við aldur hans, en hann er 65 ára gamall. Svo er og hefur lengi verið deilt um afstöðu hans til Evrópumálanna. En framundan er leiðtogakjör í Íhaldsflokknum þar sem kúrsinn í stefnu og leiðtogasveit verður mörkuð.

Greifinn

Á sunnudagskvöldið fór ég ásamt góðum félögum út að borða. Eins og svo oft áður varð veitingastaðurinn Greifinn fyrir valinu. Að mínu mati jafnast enginn veitingastaður hér í bæ á við Greifann. Flottur matur, góð þjónusta, þægilegt andrúmsloft - hvað er hægt að hafa þetta betra? Alltaf ánægjulegt að fara þangað og fá sér góðan mat. Geri það reglulega. Svo jafnast auðvitað ekkert á við pizzurnar frá Greifanum. Dettur ekki í hug að panta pizzur annarsstaðar - svo góðar eru þær. Fyrsta flokks staður og matur. Allir sem koma til Akureyrar verða að fara þangað og við sem hér búum höfum gott af því að hvíla potta og pönnur eitt og eitt kvöld og fá okkur að borða þar. :)

Saga dagsins
1943 Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, kom út - hún varð ein vinsælasta bók landsins á 20. öld.
1948 Júlíana Hollandsdrottning, tekur við embætti - hún var drottning til 1980. Júlíana lést 2004.
1972 Allir gíslarnir 9 sem haldið hafði verið föngnum á Ólympíuleikunum í Þýskalandi, létust - reynt var að frelsa gíslana úr haldi mannræningjanna (palestínskra hermdarverkamanna) en það mistókst.
1997 Díana prinsessa af Wales, var jarðsungin í Westminster Abbey-dómkirkjunni í London. Milljónir manna um allan heim fylgdust með afhöfninni, sem þótti mjög tilfinningamikil og hjartnæm. Díana var síðar um daginn jarðsett á eyju á miðri landareign fjölskyldu sinnar, Althorp, í Northampton-skíri.
1998 Japanski kvikmyndaleikstjórinn Akira Kurosawa lést í Tokyo í Japan - hann var 88 ára að aldri.

Snjallyrðið
Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn,
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.
Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin,
því ég sé það fyrst á rykinu, hve langur tími er liðinn.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli.
Því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það alltaf skýrt,
augnlínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.
Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best,
En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttunni er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær.
Ég man þig þegar augu mín eru opin, hverja stund.
En þegar ég nú legg þau aftur, fer ég á þinn fund.
Magnús Þór Jónsson (Megas) skáld (Tvær stjörnur)