Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um brotthvarf Davíðs Oddssonar úr íslenskum stjórnmálum. Davíð hefur jafnan verið talinn maður óvæntra tíðinda í íslenskum stjórnmálum. Hann kom flestum á óvart á miðvikudag með því að tilkynna að hann tæki við embætti seðlabankastjóra og myndi víkja úr ríkisstjórn og af þingi fyrir lok mánaðarins og léti af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í næsta mánuði. Fer ég yfir mat mitt á þessari ákvörðun Davíðs. Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins, það er ekki flóknara. En hann tekur þessa ákvörðun sjálfur og við í flokknum virðum hana og kveðjum hann með nokkrum söknuði en við höfum fjölda fólks sem tekur við verkunum og forystu flokksins. En ég neita því ekki að ég sé eftir Davíð úr stjórnmálum. Í pistlinum lýsi ég yfir stuðningi við Geir H. Haarde sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins. Fer vel á því að hann verði eftirmaður Davíðs á formannsstóli.
- í öðru lagi fjalla ég um væntanlegan varaformannsslag í Sjálfstæðisflokknum. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hafa lýst yfir framboði sínu. Lýsi ég yfir stuðningi mínum við Kristján Þór í pistlinum. Eins og flestir ættu að vita höfum við Kristján Þór verið samherjar í pólitík hér í Eyjafirði til fjölda ára og ég styð hann því auðvitað heilshugar til þessa embættis. Annars tel ég flokknum hollt að fram fari hressileg átök um varaformennskuna, sem nú er laus í kjölfar tíðinda vikunnar, en að landsfundi loknum muni flokksmenn svo auðvitað sameinast að baki kjörinni forystu. Við brotthvarf Davíðs Oddssonar er mikilvægt að við stöndum saman vörð um arfleifð stjórnmálaferils hans og sjálfstæðisstefnuna, grunnstefnu okkar hægrimanna sem styðjum flokkinn, sem okkur er öllum svo kær.
Í dag, 11. september, er þess minnst að fjögur ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum grimmdarlegu á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið, árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center í rjúkandi rúst og svo hinni táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar á sinn hátt um allan heim. Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðir minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas.
Á þessum fjórum árum hefur mannlífið í Bandaríkjunum verið að taka á sig sömu mynd og áður en andrúmsloftið verður aldrei samt eftir það mikla rothögg sem þessi árás var fyrir allt vestrænt samfélag og Bandaríkjamenn. Ætlun hryðjuverkamannanna var að sundra þjóðarsál Bandaríkjanna og vega að henni. Árásirnar þjöppuðu hinsvegar landsmönnum saman og efldi þjóðerniskennd þeirra. Þjóðerniskennd hefur sennilega aldrei verið meiri en nú í landinu, og hetjanna sem létust í árásinni verður minnst um allan heim í dag. Árásirnar reyndu mikið á ríkisstjórn George W. Bush forseta Bandaríkjanna, og hann persónulega. Þær settu gríðarmikið mark á fyrra kjörtímabil hans og stefnu ríkisstjórnarinnar og öll áhersluatriði í valdatíð hans.
Árásin á New York og Washington, 11. september 2001, var ekki bara aðför að Bandaríkjunum heldur vestrænu samfélagi almennt. Með þeim hætti var þeim voðaverkum svarað og stuðningur mikill um allan heim við þær aðgerðir sem fylgdu í kjölfar þessa sorgardags þegar hryðjuverkasamtök réðust á ógeðfelldan hátt að vestrænum háttum. Enginn vafi er á því að þessi atburður hefur breytt algjörlega gangi heimsmála og leitt til atburða sem kannski sér ekki fyrir endann á. Atburðir 11. september 2001 og eftirmáli, urðu áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku.
Saga dagsins
1944 Fyrstu hermenn Bandamanna komast inn í Þýskaland. Veldi nasista hrundi svo loks í apríl 1945.
1964 Frú Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú, lést úr hvítblæði, 71 árs að aldri. Hún var fædd 23. febrúar 1893. Dóra var systir Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra. Hún giftist Ásgeiri Ásgeirssyni árið 1917. Hann var forsætisráðherra 1932-1934 og var kjörinn forseti Íslands árið 1952. Frú Dóra, sem var forsetafrú í tólf ár, vakti athygli fyrir glæsileika sinn og tignarlega framkomu hvar sem hún fór. Ásgeir sat á forsetastóli áfram eftir andlát Dóru, en lét af embætti árið 1968. Ásgeir lést í september 1972.
1973 Salvador Allende forseta Chile, steypt af stóli í blóðugri uppreisn hersins. Hann lést í átökum
í forsetahöllinni. Augusto Pinochet hershöfðingi, varð leiðtogi Chile og ríkti hann allt til ársins 1990.
2001 Hryðjuverkaárás í Bandaríkjunum - hryðjuverkamenn ráðast á New York og Washington með því að ræna farþegaflugvélum og fljúga þeim á valin skotmörk. Tveim flugvélum var flogið á World Trade Center og einni á Pentagon. Tvíburaturnarnir (WTC) hrundu til jarðar og Pentagon varð mjög illa úti.
2003 Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, deyr á sjúkrahúsi af völdum sára sem hún hlaut er vitfirringur réðst að henni með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í miðborg Stokkhólms, daginn áður.
Snjallyrðið
Æ, ljúfast var að vaka ástin mín
vetrarnætur dimmar við brjóstin þín
þegar kalt er í veðri og vindurinn hvín
þá vekur fölur máninn börnin sín.
Hversu ljúft var að hlæja og gera grín
grafa sig undir þitt hvíta lín
og opna þitt heita hjartaskrín
hverfa loks þangað sem ástin skín.
Í húminu svala ég ligg og læt mig dreyma
leyfi sorginni að vaka í mínu hjarta
og sakna hlýju þinna handa.
Og fyrri tíðar myndir í myrkrinu svarta
magnast hverju sinni er ég anda.
Ég er orðinn of gamall til að gleyma.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Sonnetta)
<< Heim