Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 október 2005

Stefán Friðrik Stefánsson

Þriggja ára afmæli bloggvefsins
Í dag eru þrjú ár liðin síðan ég hóf bloggskrif á netinu á þessum stað. Allt frá upphafi hafa hitamál samtímans, bæði á vettvangi innlendra og erlendra stjórnmála, verið umfjöllunarefni í skrifum mínum. Þennan vettvang hef ég notað til að tjá mínar skoðanir um helstu málin, fara yfir þau frá mörgum hliðum og vera með úttekt á því sem helst er fréttnæmt. Fyrir mér var bloggheimurinn frá upphafi einkar spennandi vettvangur til að tjá skoðanir mínar og hef ég uppfært bloggvefinn reglulega allan þennan tíma. Fyrir tveim árum breytti ég uppsetningunni verulega og bætti hana nokkuð og til sögunnar kom öflugri umfjöllun. Í febrúarmánuði breytti ég aftur til og í sumar hætti ég með gamlan og góðan flokk og kaflaskiptingu og við blasir þetta sem nú sést: samantekt í fimm punktum, dagleg umfjöllun og í lokin sögulegir punktar og snjallyrði. Allan tímann hef ég haft sanna ánægju af þessu. Myndi varla nenna þessu nema sönn ástríða á umfjöllunarefnunum og hjartans áhugi á þjóðmálum væri fyrir hendi. Pælingarnar halda áfram af krafti.

bestu kveðjur og kærar þakkir fyrir samfylgdina
Stefán Friðrik Stefánsson

Kenneth Clarke

Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, féll í gær úr leik í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins. Hlaut hann því fæst atkvæði þeirra fjögurra sem gefið höfðu kost á sér til leiðtogastöðunnar. Hann hlaut 38 atkvæði af þeim 198 sem greidd voru. David Davis hlaut flest atkvæði, alls 62. David Cameron hlaut 56 atkvæði og Liam Fox hlaut 42. Clarke er því úr leik og kosið verður að nýju á morgun milli þeirra þriggja sem eftir standa. Þeir tveir sem standa eftir að lokinni þeirri umferð fara í lokaumferðina, sem er póstkosning allra flokksmanna. Þetta er í þriðja skipti sem Clarke fer í leiðtogaslag - alltaf hefur hann tapað slagnum. Hann fór fram árið 1997 þegar að Sir John Major lét af leiðtogaembættinu eftir afhroðið í kosningunum það ár. Hann tapaði svo í póstkosningu allra flokksmanna fyrir Iain Duncan Smith árið 2001. Hann fór þó ekki fram árið 2003, enda var Michael Howard þá sjálfkjörinn í leiðtogastöðuna. Fullyrða má að einkum tvennt hafi orsakað það að Clarke féll úr leik. Bæði er hann harður Evrópusinni, sem fer ekki vel í þingmenn flokksins almennt, og svo er hann orðinn 65 ára gamall og er eldri en núverandi leiðtogi flokksins.

Þáttaskil verða samhliða þessu - Clarke er væntanlega á útleið úr stjórnmálum að loknu þessu kjörtímabili. Hann mun allavega aldrei verða leiðtogi flokksins, þessi úrslit leiða til þess að þessi umdeildi en litríki stjórnmálamaður pakkar niður og heldur af hinu pólitíska sviði. Við blasir að staða David Cameron hefur vænkast verulega seinustu vikurnar. Nú þegar hafa margir af lykilstuðningsmönnum Clarke að styðja hann. Við blasir að hann muni fá flest atkvæði í kjörinu á morgun. Þau þáttaskil hafa því átt sér stað að Davis, sem lengi vel var talinn fremstur í kjörinu og sigurstranglegastur, hefur misst þann sess til Cameron. Honum hefur vaxið mjög ásmegin og stefnir allt í að hann verði leiðtogi með mjög afgerandi hætti. Stuðningur við Davis hefur þverrað mjög hratt seinustu daga og stefnir allt í að hann verði fyrir miklu áfalli á morgun. Það var Davis og stuðningsmönnum hans áfall hversu naumur sigur Davis var í fyrri umferðinni. Það blasir við að margir töldu að Cameron myndi ekki komast yfir 50 atkvæði í fyrstu umferðinni. Það að svo fór leiðir til þess að staða Davis veikist - eins og sést hefur í dag og í gær.

Svo gæti farið að sigur Cameron í annarri umferðinni verði svo yfirgnæfandi að ekki komi til framhaldskosninga. Mótherji hans í póstkosningunni leggi ekki í þann slag og pakki saman. Forskot Cameron er enda orðið svo yfirgnæfandi að fátt annað kemur orðið til greina en að hann nái í mark. Hann hefur meðbyr lykilflokksmanna og hefur stuðning almennra flokksmanna í könnunum. Ef marka má fréttir í dag telja margir að Cameron verði jafnvel orðinn leiðtogi strax fyrir helgi - en til þess þarf sá sem fer í póstkosninguna að draga sig til baka. Margir telja það blasa við - enda hafi Cameron náð það afgerandi stöðu að mótherjinn telji vonlaust að hafa hann undir. Þetta er merkileg þróun, enda var Cameron talinn djarfur að leggja í leiðtogaslaginn og lengi vel talinn outsider í slagnum. En skjótt skipast oft veður í lofti. Það er allavega hægt að orða það þannig að leiðtogi hafi fæðst á flokksþinginu í Blackpool.

Reykjavíkurflugvöllur

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var nokkuð rætt um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Sat ég fundi samgöngunefndar þar sem var lífleg umræða um málið. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir nefndarmanna á tilvist vallarins náðist samstaða um orðalag í ályktunina í endanlegum drögum sem fyrir fundinn fóru á sunnudeginum. Var það ánægjuleg niðurstaða - mikið gleðiefni að svo skyldi vera. Aðilar komu til móts hvor við annan og niðurstaðan farsæl fyrir okkur öll - einkum þó flokkinn okkar. Einn þeirra sem sat fundi nefndarinnar og tók undir samkomulagið að því er virtist var Örn Sigurðsson arkitekt og frambjóðandi í prófkjöri flokksins í borginni. Eins og allir vita er Örn ekki stuðningsmaður vallarins. Það virtist á fundunum nefndarinnar svo að Örn tæki undir málamiðlun í málinu og lagði hann ekki fram neinar tillögur beint í aðra átt þar inni. Það kom því mjög á óvart þegar sami maður lagði fram á sunnudeginum tillögu um að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera farinn úr Vatnsmýrinni, eigi síðar en árið 2012. Komu frá honum ennfremur fleiri tillögur í svipaða átt - allar með þeim hætti að vera algjörlega óviðunandi fyrir landsbyggðarfólk.

Þessi gangur mála hefði varla orðið fréttaefni hér á þessum vef nema fyrir þær sakir að ég og aðrir tókum ekki eftir þessum tillögum Arnar inni í nefndinni. Þetta var mjög merkilegt, svo vægt sé til orða tekið. Eins og allir vita sem sátu í nefndinni tók Örn þátt í því ásamt fjölda manna að móta orðalag sem vera mætti til málamiðlunar og var ekki að flagga neinum sólómennskutillögum. Þær komu þó fram á sunnudeginum. Er mjög vægt til orða tekið að við höfum orðið gáttuð á þessum vinnubrögðum og undrandi á því að þessar tillögur kæmu fram og það með þessum hætti. Birna Lárusdóttir formaður vinnuhópsins um samgöngumál í aðdraganda fundarins, fór í pontu og lagði fram tillögu til frávísunar á tillögur Arnar. Kom þá Örn í pontu og varði tillögur sínar. Meðan að hann talaði lyftum við landsbyggðarfólk (og fleiri) upp rauða nei-spjaldinu sem notað var við atkvæðagreiðslur. Þótti okkur það sterk skilaboð að senda manninum og skilaboðum hans rauða spjaldið með táknrænum hætti. Var það mjög viðeigandi.

Svo fór að tillögur hans voru felldar. Var það mjög gleðilegt! Afstaða fundarmanna kom vel fram og meirihluti landsfundarfulltrúa henti tillögum hans algjörlega út í hafsauga! Tek ég undir með Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra á Ísafirði, sem ritar um málið í dagbókinni á vef sínum, að Örn Sigurðsson þurfi að fara á námskeið í félagsstarfsemi og fundaþátttöku! Það veitti varla af því. Allavega fór það svo að arkitektinn rann á rassinn með tillögur sínar á fundinum - okkur landsbyggðarfólki til mikillar gleði!

Daniel Craig

Nú hefur verið tilkynnt formlega að leikarinn Daniel Craig muni taka við hlutverki njósnara hennar hátignar, James Bond, sem ber kenniheitið 007 í bresku leyniþjónustunni. Markar valið á Craig nokkur þáttaskil - enda verður hann fyrsti ljóshærði leikarinn sem leikur ofurnjósnarann í rúmlega fjögurra áratuga langri sögu kvikmyndanna um Bond. Tekur hann við hlutverkinu af Pierce Brosnan, sem lék Bond í fjórum kvikmyndum á tímabilinu 1995-2002. Mun Craig birtast áhorfendum í kvikmyndinni Casino Royale, sem verður frumsýnd á næsta ári. Verður það 21. kvikmyndin sem Broccoli-fjölskyldan framleiðir um Bond. Eftirsjá er af Brosnan í hlutverki Bond. Taldi ég lengi vel að hann hefði átt að leika Bond einu sinni enn. En skiljanlegt er að framleiðendur vilji breyta til. Verður fróðlegt að sjá Daniel Craig færa okkur annan og unglegri Bond í nýju myndinni.

Sálin

Rosalega er nýja lagið með Sálinni gott. Ég er ekki fjarri því að lagið "Undir þínum áhrifum" sé besta lag Sálarinnar í fjöldamörg ár. Það allavega hitti beint í hjartastað hjá mér - svo er um fleiri hef ég heyrt. Stórfenglegt lag - þeir eru algjörir snillingar strákarnir. Í vikunni var myndbandið við lagið frumsýnt í Íslandi í dag hjá Svansí og Ingu Lind. Hvet alla til að horfa á það - stórfenglegt myndband sem segir sæta og hugljúfa ástarsögu (afturábak skemmtilegt nokk) frá því að ástin kviknar milli tveggja einstaklinga þar til að kemur að þeirri stundu að annar aðilinn kveður þennan heim. Stórfenglegt lag - frábært myndband. Klikkar ekki!

Saga dagsins
1918 Spænska veikin barst til landsins með tveimur skipum, öðru frá Kaupmannahöfn en hinu frá
New York. Í hinni skæðu inflúensu létust á fáum vikum vel á fimmta hundrað manns í Reykjavík.
1965 Fyrsta plata hljómsveitar Ingimars Eydal kom út. Meðal laga á plötunni voru klassísk lög á borð við Vor í Vaglaskógi og Á sjó. Hljómsveitin starfaði með breytingum allt til andláts Ingimars árið 1993.
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, neitar að afhenda dómstólum hljóðritanir á trúnaðarsamtölum úr forsetaskrifstofunni vegna Watergate-málsins. Þessi ákvörðun leiddi til málaferla sem lauk fyrir hæstarétti þar sem forsetanum var skipað að afhenda hljóðritanirnar. Sú ákvörðun leiddi í ljós að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 á innbrotinu í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið til afsagnar forsetans, 9. ágúst 1974.
1989 Guildford fjórmenningunum sleppt úr fangelsi, eftir að sannað var að þau voru saklaus um að hafa staðið á bakvið sprengjutilræði í Guildford 1975. Þau sátu inni saklaus í 15 ár, er talið eitt mesta hneykslið í réttarsögu Bretlands - saga málsins er sögð í kvikmyndinni In the Name of the Father.
2003 Móðir Teresa gerð að dýrlingi af Jóhannesi Páli páfa II við hátíðlega athöfn - hún lést 1997.

Snjallyrðið
Í regninu elskendur finnurðu falda,
fallandi regnið mun yfir þau tjalda,
hjörtun þau titra, hjörtun þau loga,
hjörtun sér fórna undir silfruðum boga.

Við þig ég tala meðan tunglið syndir
tekur þín augu sýnir þér myndir.
Lífinu mundi ég vissulega voga
í von um koss undir silfruðum boga.

Dagarnir mínir daufir líða,
daprir eftir ástinni þurfum að bíða
í hjarta mitt sem hamast togar
húmblá augu undir silfruðum boga.

Ef í regninu elskendur finnurðu farna
felldu ekki dóminn, allavega ekki þarna,
ef þú aðeins heldur við hjartans loga
mun hamingjan bíða undir silfruðum boga.

Ástin undir silfruðum boga bíður
að bros þitt vakni því tíminn líður.
Ef regninu kaldar göturnar gengur
gakktu undir bogann og dveldu þar lengur.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Silfraður bogi)

Ein af perlunum hans Bubba - sætt og hugheilt ljóð sem fært var í undurfagran búning á plötunni Dögun fyrir tveim áratugum.