Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 nóvember 2005

Yasser Arafat

Í dag er ár liðið síðan að Yasser Arafat fyrrum forseti Palestínu, lést. Hann var 75 ára er hann lést, hinn 11. nóvember 2004 á Clamart-hersjúkrahúsinu í París eftir mikil veikindi. Yasser Arafat fæddist í Kairó í Egyptalandi í ágúst 1929, að því talið er. Sjálfur hélt Arafat því alltaf fram að hann hefði fæðst í Jerúsalem. Fæðingardagur hans var nokkuð á reiki og ekki allir sérfræðingar sammála um hvort það hafi verið 4. eða 24. ágúst, sjálfur sagði Arafat alltaf að fæðingardagurinn væri 4. ágúst 1929. Hann var nefndur við fæðingu Mohammed Yasser Abdul-Raouf Qudwa al-Husseini. Hann var sonur vefnaðarkaupmanns, af palestínskum og egypskum ættum, en móðir hans var frá Jerúsalem. Hann var alinn upp í Egyptalandi, flutti síðar til Jersúalem og loks á Gaza-svæðið. Snemma varð Arafat baráttumaður fyrir frelsi heimalands síns. Hann var aðeins 16 ára gamall þegar hann byrjaði að smygla vopnum fyrir palestínska skæruliða sem áttu í höggi við vopnaða gyðinga og Breta í seinni heimsstyrjöldinni og allt fram að stofnun Ísraelsríkis 1948. Um 1950 flúði Arafat til Kaíró, settist á skólabekk og stofnaði þar samtök palestínskra námsmanna. Hann lauk svo prófi í verkfræði árið 1956.

Árið 1960 var Arafat einn af stofnendum Fatah-hreyfingarinnar sem er hryðjuverkahópur sem hefur alla tíð síðan barist gegn ísraelskum stjórnvöldum. Frá Kaíró hélt Arafat til Kuwait og 1964 hélt hann til Jórdaníu til að stýra árásum al-Fatah á Ísrael. Sama ár voru Frelsissamtök Palestínu, PLO, (Palestinian Liberation Organization), stofnuð en þau eru samtök ýmissa lykilhópa Palestínumanna. Arafat hafði forgöngu um það að Fatah varð meðlimur í PLO. Arafat var fyrst kjörinn formaður framkvæmdastjórnar PLO og varð síðar yfirmaður hermála þeirra. Eftir niðurlægjandi og auðmýkjandi ósigur araba fyrir Ísraelum í sex daga stríðinu árið 1967 varð al-Fatah leiðandi forystuhreyfing Palestínumanna, og 1969 varð Arafat leiðtogi PLO og gegndi því embætti til dauðadags. Hussein Jórdaníukonungi og Arafat kom saman á árunum í kringum 1970, hraus koninginum hugur við veldi Frelsissamtakanna og hermenn hans hröktu þau burt eftir blóðbað. Frá Jórdaníu lá leið Arafats til Líbanon. Þaðan stýrði Arafat hryðjuverkaárásum á ísraelsk stjórnvöld og almenning. Árið 1974 varð sögulegt á ferli Arafats en hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna það ár og flutti eftirminnilega ræðu.

Árið 1982 var Arafat ekki lengur vært í Beirút eftir mannskæða innrás Ísraela. Þaðan flúði Arafat með samtök sín og pólitíska forystu landsins til Túnis, þar sem hann dvaldi nokkurn tíma. Árið 1988 urðu mikil þáttaskil í stefnu og forystu Arafats sem eins helsta leiðtoga Palestínumanna. Þá lýsti hann því yfir að öll ríki ættu tilverurétt í Austurlöndum nær, t.d. Ísrael. Um var að mikla tímamótayfirlýsingu sem greiddi veginn fyrir friðarviðræðum. Bakslag kom í hugmyndir um friðarviðræður árið 1990, þegar Arafat lýsti yfir afdráttarlausum stuðningi við Saddam Hussein leiðtoga Íraks, eftir innrás Íraks í Kuwait og studdi PLO og Arafat einræðisstjórn Husseins í Persaflóastríðinu árið 1991. Enginn vafi er á því að sá stuðningur veikti nokkuð stöðu Arafats. Friðarferli hófst þó formlega á næstu mánuðum. 30. október 1991 hófust formlega viðræður milli deiluaðila í M-Austurlöndum í Madrid á Spáni, og var George H. W. Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, aðalhvatamaðurinn að því að ferlið hófst með fundinum. Um var að ræða sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna.

Yasser Arafat

Leiddu ráðstefnan til friðarviðræðnanna sögulegu í Osló þar sem Ísrael og Palestína sömdu frið 1993. Johan Jörgen Holst þáverandi utanríkisráðherra Noregs, stjórnaði viðræðunum og leiddi þær til lykta skömmu fyrir lát sitt, en hann lést 1994. 13. september 1993 var Óslóarsamningurinn svonefndi undirritaður í Washington af Arafat og Yitzhak Rabin þáv. forsætisráðherra Ísraels. Ári síðar sneri Arafat aftur til Gaza og var ákaft fagnað. Í lok þess árs fékk Arafat friðarverðlaun Nóbels ásamt Rabin og Shimon Peres þáv. utanríkisráðherra Ísraels. 20. janúar 1996 kusu Palestínumenn heimastjórn. Arafat var kjörinn forseti heimastjórnarinnar með 83% atkvæða og gegndi embættinu til dauðadags. Rabin var myrtur á útifundi í Tel Aviv, 4. nóvember 1995. Framlag hans til friðar í Mið Austurlöndum kostaði hann lífið, en öfgasinnaður maður skaut hann til að hefna fyrir friðarsamkomulagið við Palestínumenn. Morðið á Rabin í nóvember 1995 leiddi til hnignunar friðarferlisins. Reynt var til þrautar árið 2000 að ná heildarsamkomulagi um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna.

Hittust Arafat og Ehud Barak þáv forsætisráðherra Ísraels, á fundi með Bill Clinton þáv. forseta Bandaríkjanna í sumarbústað forsetaembættisins í Camp David í Maryland. Reyndi Clinton til þrautar að ná heildarlendingu í málinu fyrir lok forsetaferils síns, en hann lét af embætti 2001. Fóru viðræðurnar út um þúfur og kenndu Bandaríkjamenn Arafat um að viðræðurnar strönduðu. Friðarviðræðurnar árið 2000 í Bandaríkjunum urðu seinasta tækifæri Yasser Arafat til að láta draum sinn um frjálst ríki Palestínumanna rætast á ævi sinni. Harðlínumenn á borð við Benjamin Netanyahu og Ariel Sharon komust til valda í Ísrael og ný uppreisn Palestínumanna, Intífada, braust út. Friðarferlið sem Arafat og Rabin hófu í byrjun tíunda áratugarins beið endanlegt skipbrot. Árið 2001 umkringdi ísraelskt herlið höfuðstöðvar Arafats í Ramallah, sem er vestan Jórdanár, og þar var hann stofufangi í tæp þrjú ár. Honum var ekki leyft að fara til jólamessu í Betlehem og Bandaríkjastjórn sem hafði stutt hann í forsetatíð Bill Clinton sneri við honum bakinu eftir að George W. Bush tók við embætti í byrjun ársins 2001.

Arafat sem hafði verið reglulegur gestur í Hvíta húsinu í Washington og meðal þjóðarleiðtoga víða um heim á tíunda áratugnum var innikróaður í höfuðstöðvum sínum allt þar til hann var fluttur helsjúkur á hersjúkrahús í París í lok októbermánaðar 2004. Margir þjóðarleiðtogar heimsóttu Arafat í höfuðstöðvar hans og ræddu við hann sem þjóðarleiðtoga lands síns. Ísraelsmenn sóttu reglulega að honum og mátti litlu muna að hersveitir þeirra réðu honum bana um páskana 2002. Arafat sem hafði lifað við brothætta heilsu seinustu fjögur árin, veiktist snögglega haustið 2004 og hrakaði honum ört. Lengi vel neituðu talsmenn hans og nánustu samverkamenn í Ramallah að hann væri alvarlega veikur og nefndu að veikindi hans væru minniháttar og hann væri á batavegi. Málið tók nýja stefnu þegar Arafat hné niður í höfuðstöðvum sínum, þann 28. október 2004 og missti meðvitund um tíma. Eftir það tjáðu talsmenn hans og forystumenn palestínskra stjórnmála sig loks af hreinskilni og viðurkennt var að veikindi Arafats væru slíks eðlis að heilsa hans væri mjög brothætt og liti illa út. Læknar ráðlögðu honum að leita sér læknishjálpar.

Yasser Arafat

Ákveðið var að flytja leiðtogann til Parísar á Clamart hersjúkrahúsið. Það var ekki fyrr en ísraelsk stjórnvöld höfðu samþykkt að Arafat fengi að snúa aftur til síns heima, að lokinni meðferðinni sem Arafat ákvað að fara til Parísar. Það var óneitanlega táknræn stund þegar hann kvaddi þjóð sína hinsta sinni, föstudaginn 29. október 2004, með tár á hvarmi í dyrum þyrlu jórdanskra stjórnvalda sem flutti hann seinustu ferðina, fárveikan til að leita sér læknishjálpar. Hann kvaddi þegna sína þá með sama hætti og hann hafði stjórnað henni, með kraftmiklum hætti. Fljótlega eftir komu Arafats til Parísar var sá orðrómur á kreiki að heilsa hans hefði batnað og hann væri á öruggum batavegi. Sú mynd af stöðu mála var tálsýn ein, enda blasti við nokkrum dögum síðar að Arafat væri haldinn ólæknanlegum sjúkdómi og féll hann í dauðadá þann 5. nóvember. Ísraelskir fjölmiðlar tilkynntu þann dag að Arafat væri í raun látinn og hefði verið úrskurðaður heiladauður á sjúkrahúsinu eftir að hafa sífellt hrakað allan daginn. Yfirlýsingin var dregin til baka af yfirlækni sjúkrahússins. Þó var ljóst að Arafat var ekki hugað líf. Honum hrakaði hratt eftir það og ljóst stutt væri í endalokin.

Deilt var um það undir lokin hvar hann yrði jarðsettur. Fjölskylda Arafats og nánustu samstarfsmenn lögðu mikla áherslu á að efnd væri hinsta ósk Arafats, um að hann yrði grafinn í Jerúsalem þar sem hann sagði alla tíð að hann væri fæddur. Ríkisstjórn Ísraels neitaði þráfaldlega öllum viðræðum eða skoðanaskiptum um slíka tillögu. 10. nóvember 2004 náðist sú niðurstaða sem allir gátu sætt sig við að Arafat skyldi jarðsettur við höfuðstöðvar sínar í Ramallah. Hann lést um nóttina. Banamein hans var heilablóðfall, en ekki varð ljóst í læknismeðferð þess stutta tíma sem hann var í París hvað varð honum í raun að aldurtila, hver hefði verið orsök veikinda hans. Skv. hefð mátti ekki kryfja leiðtogann né heldur taka öndunarvél hans úr sambandi. Beðið var því allt þar til líffæri hans gáfu sig eitt af öðru og hann lést, með að úrskurða hann endanlega látinn. Flogið var með lík Arafats til Kaíró í Egyptalandi daginn sem hann lést. Þar var formleg jarðarför Arafats og viðhafnarkveðjuathöfn hans haldin degi síðar. Síðar þann sama dag var haldið með líkkistu hans til Ramallah. Mikil ringulreið skapaðist þegar þyrla lenti með kistu Arafats á Vesturbakkanum.

Þúsundir manna ruddust að lendingarpallinum og öryggislögreglumenn skutu úr byssum upp í loftið til að reyna að dreifa mannfjöldanum. Greftrun Arafats var flýtt og í stað þess að kistan stæði á viðhafnarbörum í nokkrar klukkustundir og hún væri jörðuð við sólsetur var hún grafin strax við höfuðstöðvar heimastjórnarinnar. Mikil sorg var á Vesturbakkanum vegna andláts Arafats, og var lýst þar yfir 40 daga þjóðarsorg. Arafat lét eftir sig eiginkonu, Suhu Tawil, sem hann giftist árið 1990, og dótturina, Zöwhu Ammar. Suha var lengi umdeild meðal Palestínumanna. Hún er kristin og aðeins rétt rúmlega fertug og því rúmum 30 árum yngri en Arafat. Skarð Arafats í palestínskum stjórnmálum var bæði stórt og mjög vandfyllt. Hann hafði haft bæði tögl og hagldir í PLO og í stjórnmálaheimi Palestínu í vel yfir fjóra áratugi. Forsetakjör fór fram í janúar 2005 og var einn af samstarfsmönnum hans innan PLO og eftirmaður hans í forystunni þar, Mahmoud Abbas, kjörinn forseti heimastjórnarinnar. PLO er enn í forystusess í palestínskum stjórnmálum.

Yasser Arafat

Segja má með sanni að ævi Yasser Arafat hafi verið órjúfanlega samofin sögu palestínsku þjóðarinnar og frelsisbaráttu landsins í marga áratugi. Hann leiddi baráttu landsins fyrir frelsi og sjálfstæði af krafti. Arafat náði ekki að lifa þann dag að frjálst ríki Palestínu liti dagsins ljós. Vonandi mun þegnum hans auðnast að sjá slíkt ríki koma til sögunnar á næstu árum og að friðarferlið milli deiluaðila skili árangri á komandi árum.

Saga dagsins
1907 Grímseyingar héldu fyrsta sinni upp á "þjóðhátíðardag" sinn - er fæðingardagur prófessors Willard Fiske, sem gaf t.d. fé til skólabyggingar þar. Minnismerki um hann vígt þennan dag 1998-
1991 Áformum um að reisa álver á Keilisnesi var frestað um óákveðinn tíma - álverið reis aldrei-
1992 Breska þjóðkirkjan leyfir konum að taka prestsvígslu - mikill áfangasigur fyrir breskar konur.
1994 Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér embætti félagsmálaráðherra vegna hneykslismála. Hann var heilbrigðisráðherra 1993-1994 og hafði verið félagsmálaráðherra í nokkra mánuði er hann sagði af sér - hann var bæjarstjóri í Hafnarfirði í 7 ár og talinn einn af krónprinsum íslenskra krata. Guðmundur Árni lét af þingmennsku haustið 2005 og tók hann þá við sendiherrastörfum í Svíþjóð.
2004 Yasser Arafat forseti Palestínu, lést á hersjúkrahúsi í París, 75 ára að aldri. Hann hafði þá verið pólitískur leiðtogi Palestínumanna í rúmlega fjóra áratugi. Hann varð einn af forystumönnum PLO árið 1964 og leiðtogi þess árið 1969 og leiddi baráttu Palestínu fyrir sjálfstæði. Hann var kjörinn forseti landsins árið 1996 og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Yitzhak Rabin og Shimon Peres.

Snjallyrðið
Accept the challenges so that you can feel the exhilaration of victory.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)