Sjálfstæðisfélags Akureyrar
Í gær varð Sjálfstæðisfélag Akureyrar 75 ára. Félagið var stofnað á fullveldisdaginn, 1. desember 1930, og varð fyrsti formaður þess Axel Kristjánsson. Héldum við sjálfstæðismenn upp á afmælið með hófi í Hamborg, Hafnarstræti 94 á milli kl. 18:00 og 20:00. Þetta er mikið merkisafmæli og héldum við upp á það með því að koma saman og eiga góða og notalega stund. Félagið hefur alla tíð verið öflugt og sinnt mikilvægu starfi á vegum flokksins hér í Eyjafirði og hafa margir heiðursmenn leitt það í tímanna rás. Hamborg verður vettvangur kosningabaráttunnar okkar - við hefjum því baráttuna á þessum tímapunkti og opnum kosningamiðstöð okkar á afmælisdegi félagsins okkar. Það er mjög góð aðstaða í Hamborg, við verðum þar á besta stað í bænum og getum verið ánægð með aðstöðuna þar og það opnar okkur mörg góð tækifæri að vera staðsett þar með kosningamiðstöð í þeim kosningum sem framundan eru. Stefán langafi var alla tíð hægrisinnaður og var stofnfélagi í Sjálfstæðisfélaginu og í flokknum var hann alla tíð. Hann var sannur sjálfstæðismaður og sat í bæjarstjórn Akureyrar á árunum 1936-1940. Að öðru leyti er hann sennilega þekktastur fyrir útgerð sína. Hann var með fjölda skipa er hann sinnti útgerð, sennilega er Sjöstjarnan þekktust - hún var allavega alltaf stoltið hans. Hann var fengsæll skipstjóri og þekktur hér í bæ fyrir verk sín. Sem afkomandi Stefáns Jónassonar þótti mér vænt um að Halldór skyldi geta framlags hans til félagsins og stjórnmála á svæðinu, þó vissulega hafi hann eins og fyrr segir verið þekktari fyrir annað en beina þátttöku í pólitík. Stefán langafi sagði lífssögu sína í bók Erlings Davíðssonar, Aldnir hafa orðið, árið 1973. Var það annað bindið af sautján binda ritröð Erlings undir því heiti. Stefán langafi lést í janúar 1982, 101 árs að aldri - þá var hann elsti íbúi Akureyrarkaupstaðar.
Mikið fjölmenni kom saman í Hamborg á þessum merkisdegi. Var gestum boðið þar upp á veitingar og áttum við gott og notalegt spjall um málin á þessum fyrsta degi desembermánaðar - það er orðið jólalegt í miðbænum og allir komnir í jólaskap. Í upphafi flutti Þorvaldur Ingvarsson formaður Sjálfstæðisfélagsins, gott ávarp og fór yfir ýmsa hluti í tilefni afmælisins. Því næst flutti Halldór Blöndal leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, ávarp og fór yfir sögu Sjálfstæðisfélagsins. Það var áhugavert að heyra ræðu hans og fara yfir sögu félagsins með honum. Hefur hann kynnt sér vel sögu félagsins og þekkir vel mikilvæga punkta hennar. Þótti mér mjög vænt um að hann skyldi benda á framlag langafa míns, Stefáns Jónassonar útgerðarmanns frá Knarrarbergi, í ræðu sinni. Stefán langafi hafði alla tíð mjög ákveðnar skoðanir og tók þátt í starfi flokksins hér og víðar á langri ævi sinni.
Þeir sem þekkja til hans og verka hans minnast hans - hann var kraftmikill og traustur maður. Sennilega er hann þekktastur fyrir það að hafa verið ákveðinn - án þess eiginleika hefði honum sennilega aldrei auðnast að reka trausta útgerð til fjölda ára og sinna því með því trausta yfirbragði sem einkenndi verk hans. Það var mér gleðiefni að hans skyldi vera minnst í gær í Hamborg. Oft er mér sagt að við séum mjög líkir ég og langafi. Ef marka má myndir erum við sláandi líkir - sem er varla undur. Sérstaklega þótti mér ánægjulegt að ræða við Gunnar Árnason í Hamborg í gær. Hann var á skipi í eigu langafa til nokkurs tíma. Hann þekkti ennfremur afa minn, Guðmund Guðmundsson. Þeir voru á sama tíma að æfa á skíðum og voru miklir félagar. Fórum við í spjallinu yfir margar skemmtilegar sögur af þeim tíma þeirra. Meðan að afi bjó hér á Akureyri var hann að æfa fyrir félagið hér í bæ og þeir því traustir vinir.
En gærdagurinn var mjög gleðilegur í Hamborg - húsinu okkar í miðbænum. Þar verður aðstaða okkar í kosningabaráttunni. Hefur okkur í Verði verið falið að sjá um húsið í kosningaslagnum. Er stefnt að jákvæðri og öflugri kosningabaráttu. Við höfum góð verk að baki - farsæla forystu fram að færa. Umfram allt verðum við jákvæð - við getum verið stolt í baráttunni framundan, sem og af 75 ára farsælli sögu Sjálfstæðisfélags Akureyrar.
Saga dagsins
1914 Sigurður Eggerz ráðherra, sendi Stjórnarráðinu 2000 orða skeyti og sagði frá því fundi ríkisráðs í Kaupmannahöfn, rætt var um stjórnarskrár- og fánamálið. Lengsta skeyti er hafði verið sent hingað.
1988 Benazir Bhutto verður forsætisráðherra Pakistans - Bhutto varð fyrsta konan til að taka við forsætisráðherraembætti í íslömsku ríki. Hún sat í embætti til 1990 en tók aftur við 1993 og sat í 3 ár.
1993 Kólumbíski eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar drepinn - var einn helsti eiturlyfjabarón sögunnar.
1995 Nick Leeson fyrrum verðbréfamiðlari hjá Barings banka í Singapore, hlýtur dóm vegna aðildar sinnar í gjaldþroti bankans, en hann setti bankann á hausinn 1995 með áhættufjárfestingum sínum.
2000 Björk Guðmundsdóttir hlaut evrópsku kvikmyndaverðlaunin í París sem besta leikkonan fyrir leik sinn í Dancer in the Dark. Ingvar E. Sigurðsson hlaut verðlaun fyrir leik sinn í Englum alheimsins.
Snjallyrðið
A banker is a fellow who lends you his umbrella when the sun is shining, but wants it back the minute it begins to rain.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)
<< Heim