Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 desember 2005

Geir Hallgrímsson (1925-1990)

Í dag eru 80 ár liðin frá fæðingu Geirs Hallgrímssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins og SUS. Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Honum auðnaðist þó að leiða flokkinn út úr þeirri miklu kreppu og skilaði honum heilum af sér við lok formannsferils síns í flokknum og er hann vék af hinu pólitíska sviði. Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fer ég yfir ævi hans og stjórnmálaferil. Jafnan hefur mér þótt mikið til Geirs koma. Ég hef lesið mér mikið til um feril hans og verk hans á vettvangi stjórnmálanna. Skrifaði ég um hann ritgerð eitt sinn, sem þessi grein er að mestu byggð á. Geir hóf stjórnmálaþátttöku ungur og helgaði Sjálfstæðisflokknum krafta sína alla tíð á þeim vettvangi. Stjórnmálaferill hans var lengst af sigursæll, hann var borgarstjóri samfellt í 13 ár og varð forsætisráðherra 1974, eftir glæstasta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins.

Eftir tvær kosningar 1978 gjörbreyttist staða Geirs og var ferill hans á næstu fimm árum ein sorgarsaga. Flokkurinn klofnaði vegna stjórnarmyndunar 1980 og óróleiki varð innan hans vegna þess. En Geir sannaði styrk sinn með því að landa málinu með því að sameina brotin við lok formannsferils síns 1983. Það merkilegasta við arfleifð Geirs að mínu mati er það að hann skilaði flokknum heilum og vann verk sín af hógværð og heiðarleika - var heill í verkum sínum. Geir var að mati samherja og andstæðinga í stjórnmálum heilsteyptur stjórnmálamaður sem hugsaði um hagsmuni heildarinnar umfram eigin og stöðu stjórnmálalega séð. Hann var maður hugsjóna og drenglyndis í stjórnmálastarfi. Óháð átökum kom hann fram með drengilegum hætti - talaði opinberlega í ræðu og riti ekki illa um andstæðinga sína, innan flokks og utan. Til dæmis er víða talað um að þrátt fyrir átök rifust hann og Gunnar Thoroddsen aldrei opinberlega. Þrátt fyrir valdabaráttu var tekist á með hætti heiðursmanna. Hann var öflugur á vettvangi stjórnmála - jafnt í meðbyr sem mótbyr.

Það er með þeim hætti sem ég tel að hans verði minnst, bæði af samtíðarmönnum og eins þeim sem síðar lesa stjórnmálasögu 20. aldarinnar og kynna sér persónu og verk Geirs Hallgrímssonar á löngum ferli. Hvet alla lesendur, sem eru áhugamenn um stjórnmál, til að lesa pistil minn.

Heath Ledger og Jake Gyllenhaal í Brokeback Mountain

Í vikunni var tilkynnt um tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna, sem verða afhent 16. janúar 2006, í 63. skiptið. Golden Globe eru kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun sem erlendir blaðamenn í Hollywood veita ár hvert. Þykir kvikmyndahluti verðlaunanna veita almennt mjög góðar vísbendingar um Óskarinn, sem er afhentur í marsbyrjun. Oftast nær fara þær mjög nærri tilnefningum til Óskarsverðlauna. Kvikmyndin Brokeback Mountain, í leikstjórn Ang Lee, hlaut flestar tilnefningar, sjö alls, tvær fyrir leik, fyrir leikstjórn, auk þess sem hún var tilnefnd sem besta dramatíska kvikmyndin. Kvikmyndirnar Good Night, and Good Luck, Match Point og The Producers hlutu allar fjórar tilnefningar.

Besta dramatíska myndin
Brokeback Mountain
Match Point
Good Night, and Good Luck
The Constant Gardener
A History of Violence

Besta gaman- og söngvamyndin
The Producers
Mrs. Henderson Presents
Pride & Prejudice
The Squid and the Whale
Walk the Line

Tilnefndir sem leikari í dramatískri mynd
Russell Crowe - Cinderella Man
Philip Seymour Hoffman - Capote
Terrence Howard - Hustle & Flow
Heath Ledger - Brokeback Mountain
David Strathairn - Good Night, and Good Luck

Tilnefndar sem leikkona í dramatískri mynd
Maria Bello - A History of Violence
Felicity Hoffman - Transamerica
Gwyneth Paltrow - Proof
Charlize Theron - North County
Ziyi Zhang - Memoirs of a Geisha

Tilnefndir sem leikari í gaman- og söngvamynd
Pierce Brosnan - The Matador
Jeff Daniels - The Squid and the Whale
Johnny Depp - Charlie and the Chocolate Factory
Nathan Lane - The Producers
Cillian Murphy - Breakfast on Pluto
Joaquin Phoenix - Walk the Line

Tilnefndar sem leikkona í gaman- og söngvamynd
Judi Dench - Mrs. Henderson Presents
Keira Knightley - Pride & Prejudice
Laura Linney - The Squid and the Whale
Sarah Jessica Parker - The Family Stone
Reese Witherspoon - Walk the Line


Fjöldi athyglisverðra tilnefninga er þetta árið og stefnir allt í spennandi verðlaunaafhendingu í janúar. Bendi lesendum á að kynna sér tilnefningar til verðlaunanna, en eins og fyrr segir er bæði um kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun að ræða. Bendir flest til þess að verðlaunaafhendingin verði jöfn og áhugaverð. Mikla athygli mína, sem og flestallra kvikmyndaáhugamanna, vekur að kvikmyndir á borð við King Kong, Munich og Bewitched hljóta ekki tilnefningu sem besta mynd ársins í sínum flokkum. Spurning hvort að þær verði heppnari er kemur að Óskarnum. Svo er merkilegt að þær myndir sem hljóta tilnefningar eru flestallar gerðar af minni kvikmyndaverunum. Svo virðist sem tími stórmyndanna frá stóru verunum séu á enda - í bili að minnsta kosti. Merkileg breyting - minnir mann á það sem gerðist fyrir ca. tíu árum er gömlu veldin liðu undir lok og önnur komu til sögunnar, t.d. Dreamworks og Miramax. Er erfitt að spá um sigurvegara allavega að þessu sinni.

Sá eini sem er öruggur um að fara heim með styttu í janúar er breski leikarinn Sir Anthony Hopkins. Hann mun hljóta Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmynda við þetta tilefni. Verður fróðlegt að fylgjast með afhendingu Gullhnattarins eftir mánuð, en eins og venjulega mun ég fylgjast, sem allmikill kvikmyndaáhugamaður, vel með þessu.

Richard Pryor

Bandaríski gamanleikarinn Richard Pryor lést um síðustu helgi, 65 ára að aldri, eftir erfið veikindi. Hann lést úr hjartaáfalli en hann hafði barist við MS-hrörnunarsjúkdóminn í tvo áratugi. Það er óhætt að segja að Richard Pryor hafi verið einn besti gamanleikari Bandaríkjanna á 20. öld. Sennilega varð hann fyrsti blökkuleikarinn sem sló í gegn fyrir gamanleik og hlaut sess sem slíkur. Hann gerði óhikað grín af litarafti sínu og upprunanum. Sló hann fyrst í gegn sem sviðsgrínisti en hóf leik í kvikmyndum á sjöunda áratugnum. Frægðarsól hans reis hæst á áttunda áratugnum en þá lék hann í fjölda óborganlegra kvikmynda. Var Pryor lengi í uppáhaldi hjá mér og hann er ógleymanlegur fyrir leik sinn, t.d. í Silver Streak, Toy, Lady Sings the Blues, California Suite og Brewster's Millions. Ég hressist alltaf þegar að ég sé seinustu stórmyndina hans, See No Evil, Hear No Evil. Þar fór hann á kostum með félaga sínum, Gene Wilder. Blessuð sé minning Richard Pryor - hann kunni þá snilld að kæta og létta tilveruna. Hann var einstakur gamanleikari.

Sagan af Jesúsi

Þeir eru algjörir snillingar á Baggalúti - segi ég og skrifa. Kíki á Baggalút á hverjum degi. Lögin hafa létt mörgum lundina. Á hverju ári bíðum við svo eftir sykursætu aðventulagi vefsins og vel rokkuðu jólalaginu. Í ár er lagið dísætara en allt sem sætt er. Aðventulagið heitir þetta árið, Sagan af Jesúsi. Alveg stórfenglegt lag - sem allir eru að tala um þessa dagana og flestallir hafa væntanlega í spilaranum sínum í tölvunni. Eins og Baggalútsmenn segja á vefnum er um að ræða lítinn helgileik byggðan á raunverulegum atburðum sem gerðust fyrir mörgum árum í útlöndum. Alveg frábærir - allir að hlusta á lagið. Þeir fáu sem eiga eftir að sækja það endilega drífið í því. Eflaust þekkja allir lagið, en það er Keeping the Dream Alive með Freiheit. Eldgamalt og gott lag sem Baggalútsmenn gera að sínu með glæsilegum hætti. Svo bendi ég á fyrri lög þeirra félaga. Ekki má svo gleyma jólalaginu í ár, Föndurstund. Rokkað og gott lag.

Pabbi

Það er bara rúm vika til jóla. Ég er búinn að skreyta allt og hef skrifað á kortin og keypt alla pakka - nema einn. Klára þetta allt um helgina. Þannig að það verður bara róleg og góð lokavika sýnist mér. Alveg merkilegt að fara í búðirnar þessa dagana og sjá allt stressið og lætin í sumum. Annars finnst mér rólegheitin reyndar meiri nú en sum fyrri jól hér - en víða er mikil örtröð í búðum. Egill Helga afgreiddi þetta með penum og flottum hætti í góðum pistli sem hann flutti á NFS í vikunni. Vonandi að flest fólk hafi lært að forgangsraða almennilega. Pabbi kom í kaffispjall um daginn og tók ég þessa mynd þá. Þarna er hann greinilega að segja frá einhverju skemmtilegu. :)

Saga dagsins
1879 Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Jóns Sigurðssonar forseta, lést í Kaupmannahöfn, 75 ára að aldri. Hún lést aðeins 9 dögum á eftir Jóni. Ingibjörg og Jón voru jarðsungin í Reykjavík 4. maí 1880.
1916 Framsóknarflokkurinn var stofnaður - flokkurinn var frá upphafi tengdur búnaðarsamtökunum. Fyrsti formaður flokksins var Ólafur Briem, núv. formaður er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.
1942 Ríkisstjórn Björns Þórðarsonar, utanþingsstjórnin, tók við völdum - hún sat í tæplega tvö ár.
1984 Mikhail Gorbachev síðar leiðtogi Sovétríkjanna, kemur til London og á viðræður við Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands - viðræðurnar þóttu takast vel og bötnuðu samskipti landanna.
1989 Uppreisn stjórnarandstöðunnar í Rúmeníu hefst formlega - hún leiddi til falls stjórnar landsins.

Snjallyrðið
Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg,
í dvala sig strætin þagga.
Í bæn hlýtur svölun brotleg sál
frá brunni himneskra dagga.
Öll jörðin er sveipuð jólasnjó
og jatan er ungbarns vagga.

Og stjarna skín gegnum skýjahjúp
með skærum lýsandi bjarma.
Og inn í fjárhúsið birtan berst
og barnið réttir út arma,
en móðirin, sælasti svanni heims
hún sefur með bros um hvarma.

Og hjarðmaður birtist, um húsið allt
ber höfga reykelsisangan.
Í huga flytur hann himni þökk
og hjalar við reifarstrangann.
Svo gerir hann krossmark, krýpur fram
og kyssir barnið á vangann.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Hin fyrstu jól)