Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 desember 2005

David Cameron kjörinn
leiðtogi breska Íhaldsflokksins


David Cameron

7 mánuðum eftir að Michael Howard tilkynnti að hann myndi láta af leiðtogaembætti í breska Íhaldsflokknum hefur eftirmaður hans loks verið kjörinn. Í gær var tilkynnt um úrslit í póstkosningu almennra flokksmanna á milli þeirra tveggja, David Cameron og David Davis, sem flest atkvæði hlutu í útsláttarkosningu innan þingflokksins. Hlaut David Cameron kjör í leiðtogaembættið og hefur því tekið formlega við stjórn flokksins. Cameron hlaut afgerandi kosningu. Hann hlaut 2/3 greiddra atkvæða. Cameron hlaut 134.446 atkvæði en keppinautur hans hlaut 64.398 atkvæði. Umboð Cameron er því afgerandi og ljóst að hann hefur gott veganesti er hann tekur nú við forystunni í flokknum og leiðir stjórnarandstöðuna í komandi verkefnum. Stuðningsmenn flokksins vonast að sjálfsögðu eftir því að yfirburðasigur hans leiði til þess að flokkurinn eflist.

David Cameron er tæplega fertugur, fæddur 9. október 1966. Hann er fyrsti leiðtogi flokksins í fjóra áratugi sem er af hefðarættum og nam t.d. við Eton og Oxford. Síðasti leiðtogi flokksins sem telst af hefðarættum var Sir Alec Douglas-Home, en hann leiddi flokkinn 1963-1965, eða þar til að Edward Heathvar kjörinn í hans stað. Hann gegndi forsætisráðherraembætti fyrra ár sitt á leiðtogastóli, en flokkurinn tapaði í þingkosningunum 1964. Flokkurinn hafði þá verið samfellt við völd í þrettán ár. Cameron var lengi framan af talinn eiga litla möguleika í leiðtogakjörinu. Hann hafði fyrst hlotið kjör á breska þingið í kosningunum 2001 fyrir Whitey-kjördæmi. Lengi vel þótti flest benda til þess að David Davis, sem setið hefur á þingi frá árinu 1987, myndi sigra í kjörinu. Eftir fremur lélega ræðu á flokksþinginu í Blackpool í október missti hann öflugt forskot sitt til Cameron.

Cameron talaði þar blaðlaust til þingfulltrúa – hann flutti þar í senn bæði kraftmikla og hrífandi ræðu. Eftir það hafði hann yfirburði í leiðtogaslagnum. Stuðningur við Davis minnkaði mjög í kjölfar flokksþingsins og hann missti flugið jafnt og þétt á skömmum tíma. Er útsláttarkosningunni lauk í þingflokknum blasti við að baráttan milli þeirra nafna væri ójöfn og sýndu allar skoðanakannanir meðan póstkosningin stóð að Cameron myndi vinna afgerandi sigur. Fór það enda svo. Er fyrrnefndu ferli innan þingflokksins lauk í október og þeir stóðu einir eftir bjuggust sumir við að Davis myndi veita Cameron embættið án frekari baráttu. Svo fór ekki. Hann háði þó öfluga baráttu og barðist af krafti til enda. En ósigur varð þó ekki umflúinn. Þrátt fyrir tap kemur hann sterkur úr kjörinu og hlýtur væntanlega verðugan sess í liðssveit flokksins á komandi árum.

Michael Howard

Með úrslitum gærdagsins lýkur eins og fyrr segir leiðtogaferli Michael Howard innan breska Íhaldsflokksins. Gegndi hann embættinu í tvö ár. Tók hann við embættinu á umbrotatímum innan flokksins. Forvera hans, Iain Duncan Smith, var steypt af stóli með vantraustskosningu innan þingflokksins í októberlok 2003. Bauð hann sig fram að því loknu og sameinuðust flokksmenn um hann. Svo fór að hann varð einn í kjöri. Tók hann við leiðtogastöðunni þann 6. nóvember 2003. Þegar Michael Howard tók við forystu Íhaldsflokksins var almennt litið á hann sem einn af hinum misheppnuðu leiðtogum flokksins sem til komu eftir kosningaósigurinn 1997 og hann settur í sama flokk og forverar hans, William Hague og Iain-Duncan Smith, sem mistekist hafði að höfða til kjósenda. Hann átti því alla tíð risavaxið verkefni fyrir höndum.

Niðurstaða kosninganna í vor voru vissulega vonbrigði fyrir flokkinn og Howard sem leiðtoga hans. Honum mistókst altént að leiða flokkinn til þess sigurs sem stefnt var að. Tony Blair náði kjöri þriðja sinni og Verkamannaflokkurinn hélt völdum. Þó styrktist flokkurinn – hann bætti við sig mörgum þingsætum og náði inn mönnum í fjölda kjördæma sem Verkamannaflokkurinn réð yfir. Þingmeirihluti kratanna rýrnaði enda verulega og Blair veiktist í sessi, eins og vel hefur sést seinustu vikurnar í innbyrðis valdatafli á þeim bænum. Michael Howard tókst í þessari kosningabaráttu að taka vissa grunnvinnu í að efla grunn flokksins og náði að styrkja hann mjög til komandi verkefna - þó sigur næðist visulega ekki. Flokkurinn er enda mun samhentari og öflugri nú en áður í stjórnarandstöðu seinustu átta ára. Hann er til í þá vinnu sem þarf.

Mörgum kom reyndar á óvart að Howard skyldi tilkynna strax daginn eftir kosningar að hann hyggðist víkja af leiðtogastólnum. Það vissulega veikti umboð hans að vera einungis starfandi leiðtogi flokksins í rúmt hálft ár og leiðtogaslagurinn innan flokksins var að flestra mati einum of langvinnur. Það helgast vissulega fyrst og fremst af því að Howard vildi ná fram tillögu um að breyta lögum um valið á leiðtoga flokksins. Hann vildi afnema póstkosninguna og láta þingflokkinn um leiðtogavalið, eins og var alla tíð fram til ársins 2001 er Iain Duncan Smith var kjörinn leiðtogi. Svo fór að það var ekki samþykkt og því tók leiðtogavalið lengri tíma en ella. Mörgum þótti kjörið taka of langan tíma: fyrst fór fram fljótvinnt kjör í þingflokknum á milli Cameron, Davis, Kenneth Clarke og Liam Fox. Póstkosningin tók sex vikur – þótti mörgum kerfið á bakvið kosninguna vera einum of tímafrekt.

David Cameron

En úrslit liggja nú fyrir. Nú er hinn nýji leiðtogi hefur valið skuggaráðuneyti sitt tekur við barátta næstu ára – að byggja upp öflugan flokk sem getur tekið við völdum í Bretlandi í næstu kosningum. Strax í dag mætti Cameron forsætisráðherranum Tony Blair í fyrirspurnartíma í breska þinginu og stóð sig fantavel. Það blasir hinsvegar við að hinn nýji leiðtogi Íhaldsflokksins mun ekki mæta Tony Blair í næstu kosningum. Blair hefur fyrir löngu tilkynnt að hann fari ekki oftar í kosningar og muni víkja á kjörtímabilinu. Hefur staða Blairs veikst mjög eftir kosningarnar og því aðeins tímaspursmál hvenær nýr húsbóndi tekur við völdum í forsætisráðherrabústaðnum að Downingstræti 10 í London. Flest bendir til þess að eftirmaður Blairs á valdastóli verði fjármálaráðherrann Gordon Brown. Hefur Brown lengi beðið á hlíðarlínunni en við blasir að stutt sé í að hans tími renni upp.

Þykir því vera nokkuð augljóst að Cameron muni mæta Gordon Brown í næstu kosningum. Segja má að Gordon Brown hafi verið sigurvegari kosninganna í vor, ekki Tony Blair. Það var Brown sem halaði inn sigur flokksins og var meginpunktur kosningabaráttu flokksins. Hann fylgdi enda Blair eftir hvert fótmál á lokaspretti kosningabaráttunnar, þegar stefndi í að munurinn milli stærstu flokkanna væri að minnka, og hann var sá sem mesta athyglin snerist um. Segja má að Brown hafi verið eins og skugginn á eftir forsætisráðherranum alla baráttuna og á hann var baráttan markaðssett. Blair var fastur í neikvæðri umræðu og beinlínis orðinn óvinsæll og því notuðu menn niðurstöður kannana og drógu Brown fram og tefldu meginpunkta baráttuna á honum. Þótti Verkamannaflokkurinn vinna kosningarnar merkilegt nokk þrátt fyrir Blair en ekki vegna hans, eins og 1997 og 2001.

Hinsvegar blasir auðvitað við að Gordon Brown hefur verið lengi við völd. Hann hefur verið fjármálaráðherra allan valdatíma Verkamannaflokksins, eða frá maíbyrjun 1997. Það verður því auðvelt fyrir Íhaldsflokkinn að stilla baráttunni upp í næstu kosningum að valið snúist um hinn ferska Cameron og kerfiskallinn Brown, sem verið hafi við völd allan kratatímann og því arfur af liðnum tíma undir forystu Blair. Cameron hefur af mörgum verið líkt við Tony Blair eins og hann var fyrir rúmum áratug – er hann varð keppinautur John Major um völd og náði völdunum út á sjarma sinn og kjörþokka. Sama sjarma þykir Cameron búa yfir. Sennilega hefur sá kjörþokki ekki síst haft mikið um það að segja að hann hefur nú hlotið leiðtogaembætti flokksins. Þykir flestum enda að hann búi yfir þeim stjörnuþokka sem alla leiðtoga flokksins hefur skort frá því að Margaret Thatcher leiddi flokkinn á árunum 1975-1990.

David Cameron

Hefur mörgum þótt nóg um hversu Blair og Cameron eiga að vera líkir. Gárungar hafa reyndar gengið svo langt að kalla Cameron hinu skondna nafni Tory Blair. Tony Blair er þrettán árum eldri en Cameron. Mörgum þykir að Cameron sé að sigla sömu leið og Blair fór fyrir rúmum áratug. Hann varð leiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994 og leiddi flokkinn svo til sigurs þrem árum síðar. Sá munur er þó vissulega á þeim að Blair hafði mun meiri þingreynslu. Hann tók sæti á þingi árið 1983 og hafði lengi verið í skuggaráðuneyti flokksins. Margir íhaldsmenn sem styðja Cameron hafa gert lítið úr meintu reynsluleysi hans og bent á að hann hafi verið öflugur allan feril sinn á þingi, verið náinn samstarfsmaður Michael Howard og hann hafi hlotið eldskírn sem skuggaráðherra menntamála af hálfu flokksins seinustu mánuði. Þar hefur hann verið öflugur og þótt taka vel á menntamálaráðherranum Ruth Kelly.

Nú er komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Með kjöri öflugs ungs manns í leiðtogastólinn hefur átt sér stað að mínu mati fyrsta skrefið í mikilvægu ferli. Í flokknum þarf að fara fram bæði mikil endurnýjun í forystuliði en ekki síður byggja á mikilvægri reynslu sem til staðar er. Mikilvægast af öllu er að fram fari hugmyndafræðileg vinna við að marka flokknum í senn bæði nýja tilveru og sóknarfæri. Cameron hefur mætt þessu nú þegar með vali nýrra og öflugra manna í skuggaráðuneytið og byggir á mikilvægri reynslu þeirra sem fyrir er. Mikla athygli vekur að hann skipar einn af forverum sínum, William Hague, sem leiddi flokkinn á árunum 1997-2001, í þann hóp. Hague þótti lengi gjalda fyrir að hafa verið of ungur er hann var kjörinn í forystu flokksins og fannst mörgum að hans kraftar hafi ekki nýst til fulls eftir að hann vék af leiðtogastóli. Hann kemur nú aftur á fremstu bekki flokksins.

Það verður nú verkefni David Cameron sem nýs leiðtoga breska Íhaldsflokksins að taka við keflinu af Michael Howard og halda verki hans við uppbyggingarstarf flokksins áfram af krafti. Ég tel að Cameron geti byggt á góðum verkum Howard og lagt sjálfur til í þá vinnu góða kosti sína. Með því verði hægt að gera flokkinn enn öflugri - flokk sem verður raunhæfur valkostur fyrir breska kjósendur í næstu kosningum. Með því komi til sögunnar flokkur sem getur tekið völdin með öflugum hætti. Það var alltaf mat mitt að fara þyrfti nýjar leiðir og fela þyrfti yngri kynslóð flokksins það hlutverk að leiða flokkinn – fá fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn inn í nýja tíma. Því þótti mér Cameron hafa meira fram að færa við þessi þáttaskil flokksins en David Davis, þó hann sé vissulega mætur maður. En mikilvægt er að reynsla Davis njóti sín í forystunni samt sem áður á næstu árum.

David Cameron

Breski Íhaldsflokkurinn hefur mörg sóknarfæri við þessi leiðtogaskipti. Tækifærin blasa altént við þegar að nýr leiðtogi hefur tekið við forystunni og heldur af stað – vonandi á sanna sigurbraut.

Saga gærdagsins
1593 Yfirdómur, æðsti dómstóll á Alþingi var stofnaður - Yfirdómurinn starfaði í rúmar tvær aldir.
1916 Dr. Kristján Eldjárn þriðji forseti Íslands, fæddist að bænum Tjörn í Svarfaðardal. Kristján varð þjóðminjavörður árið 1947 og sat á þeim stóli þar til hann var kjörinn forseti Íslands 1968. Hann sat á forsetastóli til ársins 1980. Kristján lést á sjúkrahúsi í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum 14. sept. 1982.
1949 Þriðja ráðuneyti undir forystu Ólafs Thors tók við völdum - stjórnin sat í tæplega hálft ár.
1965 Íþróttahöllin í Laugardal, Laugardalshöll, formlega tekin í notkun - markaði mikil þáttaskil.
1985 Hafskip hf. var tekið til gjaldþrotaskipta - var eitt stærsta gjaldþrot í sögu landsins. Yfirmenn fyrirtækisins voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og málaferli vegna gjaldþrotsins tók rúm fimm ár.

Saga dagsins
1879 Jón Sigurðsson forseti, lést í Kaupmannahöfn, 68 ára að aldri. Hann var jarðsettur í Reykjavík 4. maí 1880 ásamt Ingibjörgu Einarsdóttur, konu sinni, sem lést skömmu síðar, 16. desember 1879.
1881 Minnisvarði um Jón Sigurðsson forseta, var afhjúpaður á gröf hans og eiginkonu hans í kirkjugarðinum við Suðurgötu, tveim árum eftir lát hans. Minnisvarðinn var gerður fyrir samskotafé.
1941 Japanir ráðast óvænt á herstöð Bandaríkjanna í Pearl Harbor á Hawaii - 2400 Bandaríkjamenn létu lífið í árásinni, sem varð til þess að Franklin Roosevelt forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir stríði á hendur Japönum. Bandaríkjamenn urðu með þessu beinn þátttakandi að seinni heimsstyrjöldinni.
1975 Indónesar ráðast inn í Austur-Tímor, sem Portúgalar höfðu yfirgefið nokkrum mánuðum fyrr.
2001 Áhöfn þyrlu varnarliðsins bjargaði skipbrotsmanni úr Sigurborgu við mjög erfiðar aðstæður, en skipið hafði strandað við Svörtuloft á Snæfellsnesi. Þrír fórust. Eitt mesta björgunarafrek seinni ára.

Snjallyrðið
I think a prime minister should be intimidating - it's not much good being a weak, floppy thing in the chair.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)