Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 desember 2005

Hjallastefnan í Hólmasól

Kristján Þór Júlíusson og Margrét Pála Ólafsdóttir

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Margrét Pála Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf. undirrituðu í dag, mánudaginn 19. desember, samning um rekstur leikskólans Hólmasólar við Helgamagrastræti. Samningurinn gildir til 31. desember 2009. Hugmyndafræði Hjallastefnunnar samanstendur meðal annars af nokkrum meginatriðum sem lita allt leikskólastarfið. Fyrst ber að nefna að nemendahópnum er skipt eftir kynjum í kjarna (deildir, bekki) til að mæta ólíkum þörfum beggja kynja og til að geta leyft stelpna- og strákamenningu að njóta sín jafnhliða því að unnið er gegn neikvæðum afleiðingum hefðbundinna staðalímynda og kynhlutverka um möguleika stúlkna og drengja. Í öðru lagi er áhersla á opinn og skapandi efnivið og lausnir barnanna sjálfra í stað leikfanga og hefðbundinna námsbóka. Í þriðja lagi er lagt upp úr jákvæðum aga og hegðunarkennslu þar sem nemendur læra lýðræðislega samskiptahætti innan ákveðins ramma.

Námskrá Hjallastefnunnar byggir á og uppfyllir öll skilyrði. Aðalnámskrár leikskóla. Í dag er enginn biðlisti fyrir börn 2ja ára og eldri hjá leikskólum Akureyrar. Um 95% barna á Akureyri á aldrinum 2ja – 5 ára eru í leikskóla. Meðal dvalartími þeirra í leikskóla eru um 7,4 klukkustundir á dag. Stöðugildin í leikskólunum á Akureyri eru í heild 220, þar af eru 139 stöðugildi vegna deildarstarfs og 64 % af deildarstöðugildunum eru mönnuð fagfólki. Leikskólinn Hólmsól er sex deilda leikskóli og er gert ráð fyrir að hann rúmi allt að 157 börn. Stöðugildin verða um 30. Leikskólagjöld verða þau sömu og eru í öðrum leikskólum Akureyrarbæjar. Þegar nýi leikskólinn tekur til starfa í apríl næstkomandi verða 13 leikskólar starfandi hér á Akureyri. Frá og með næsta hausti verður pláss fyrir um 1.150 börn í leikskólunum hér og þá verður 18 mánaða börnum boðið upp á leikskólapláss.

Þetta er gleðilegt og gott skref sem stigið er með þessum samningi. Lengi hef ég verið talsmaður þess að skólar hér verði einkareknir. Sérstaklega hef ég verið talsmaður þess að grunnskóli hér í bæ verði rekinn með þessu kerfi og horfi ég þar að sjálfsögðu til Naustaskóla sem rísa mun á næstu árum. Tel ég ennfremur rétt að við tökum hér á Akureyri upp sama kerfi og er í Garðabæ - það er módel sem ég tel að hafi reynst vel og rétt sé að stefna að verði virkt hér af krafti. En fyrst og fremst fagna ég þessum samningi bæjarins við Möggu Pálu og óska henni alls góðs við rekstur Hólmasólar næstu fjögur árin - þann tíma sem fyrrnefndur samningur gildir.

Saga dagsins
1901 Tólf hús brunnu í miklum bruna á Akureyri og rúmlega fimmtíu manns urðu þá heimilislausir.
1956 Lög um bann við hnefaleikum voru samþykkt á Alþingi - samkvæmt því var bönnuð öll keppni
eða sýning á hnefaleikum hérlendis. Ólympískir hnefaleikar voru leyfðir að nýju á Íslandi árið 2001.
1969 Aðild Íslands að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, var samþykkt á Alþingi - tók gildi 1970.
1984 Bretar og Kínverjar undirrita samkomulag þess efnis að Kína taki við stjórn Hong Kong af Bretum 1. júlí 1997 - valdaskiptin fóru fram eins og samið var um og með því lauk 150 ára stjórn Breta.
2000 Hæstiréttur dæmdi að tekjuskerðing örorkubóta vegna tekna maka væri ólögleg - dómurinn sem var sögulegur, leiddi til þess að stjórnin breytti lögum um örorkugreiðslu og fyrirkomulag þeirra.

Snjallyrðið
Mundu að þakka guði
gjafir, frelsi og frið,
þrautir, raunir, náungans
víst koma okkur við.
Bráðum klukkur klingja
kalla heims um ból
vonandi þær hringja flestum
gleði og friðarjól.

Biðjum fyrir öllum þeim
sem eiga bágt og þjást
víða mætti vera meira um kærleika og ást.

Bráðum koma jólin
bíða gjafirnar
út um allar byggðir
verða boðnar kræsingar.
En gleymum ekki guði
hann son sinn okkur fól
gleymum ekki að þakka
fyrir gleði og friðarjól.
Magnús Eiríksson tónlistarmaður (1945) (Gleði og friðarjól)