Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Ég vil þakka fólki fyrir góð viðbrögð á bloggfærsluna og pælingar sem þar komu fram. Bloggið verður eins og fyrr segir í dag öðruvísi fram að prófkjöri. Þá sleppum við fastaliðunum en höldum okkur í pælingum um prófkjörið og pólitík - styttri færslur og snarpari. Þakka góð viðbrögð - vona að þið fylgist með næstu vikurnar.

Í dag fylgdist ég með blaðamannafundi forsætisráðherrans í Ráðherrabústaðnum á NFS. Kom svosem fátt nýtt fram þar. Þingið kemur jú saman á morgun - þar verður úrskurður kjaradóms tekinn fyrir og hækkunin felld úr gildi. Munu laun forsetans lækka til samræmis við þá prósentulækkun og aðrir verða fyrir. Líst vel á þetta. Það er alveg ljóst að sátt ætti að nást um þessar breytingar og væntanlega verður það fljótafgreitt að taka þetta fyrir. Er sammála mati forsætisráðherrans á málefnum RÚV. Það er mikilvægt að frumvarp þar um verði afgreitt sem fyrst og mál í stofnuninni færð til nútímans - þó fyrr hefði verið. Eftir sem áður er mikilvægt að nýtt fjölmiðlafrumvarp komi til sögunnar nú á vorþingi og verði að lögum fyrir lok þinghalds - er mikilvægt að frumvarp verði byggt á fjölmiðlaskýrslunni frá því í fyrra og samstaða náist um málið milli allra flokka. Þó að ég sé ekki alltaf sammála honum Halldóri má hann eiga það að hann stendur sig vel með þessa blaðamannafundi - þeir eru mjög af hinu góða.

Svo stendur auðvitað upp úr seinustu daga ákvörðun borgaryfirvalda um að draga sig út úr viðræðum um kaup ríkisins á eignarhluta borgarinnar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Er alveg greinilegt að ástæðan er sú að hinn steindauði R-listi hefur engan kraft í að klára málið og frestar því fram yfir kosningar. Greinilegt er að VG er þrándur í götu málsins - bæði Árni Þór og Björk Vilhelms hin brottflutta vinstri græna sem flúði í fang Samfylkingarinnar og kallar sig óháða í prófkjörinu. Kostulegt, ekki satt? R-listavofan hefur ekkert afl í að klára málið greinilega. Nú sé ég svo í dag að Valgerður iðnaðarráðherra er að senda R-listanum pillu í pistli á vef sínum - það er vel skiljanlegt. Borgin bað um viðræðurnar en hrökklast frá þessu. Mjög merkilegt. Annars á Akureyrarbær að halda sínu striki og selja hlut sinn. Þó að R-listinn hafi ekki pólitískan mátt til að feta í söluátt eigum við Akureyringar að halda ótrauð okkar stefnu og klára málið fyrir kosningar.

Sé svo í dag að menn eru að rífast um prófkjörsúrslitin í Garðabæ. Það er vel skiljanlegt - hlutur kvenna er afspyrnuslakur. Engin kona í vonarsætunum fjórum og Laufey Jóhannsdóttir, sem setið hefur í bæjarstjórn frá 1990, beið algjört afhroð. Þessi niðurstaða er dapurleg, enda eru margar efnilegar konur þarna, t.d. Ragnhildur Inga, Ingibjörg og Laufey. Er þegar farið að tala um að breyta röðun listans. Er það vissulega hægt í ákvörðun fulltrúaráðs - en umdeildanlegt. Enda varla líklegt að einhver vilji afsala sér öruggu bæjarfulltrúasæti sem vannst í prófkjöri. Þetta er jú einu sinni val prófkjörs og erfitt upp að stokka. En þeir í Garðabænum taka ákvörðunina. Hitt er svo annað mál að það er rétt hjá Jóni Guðmundssyni formanni fulltrúaráðs, að þetta er ekki seljanlegur listi. Ákvörðun um uppstokkun er því ekki ólíkleg, þykir mér - þó það gæti kostað einhver særindi.

Í kvöld verða Golden Globe-verðlaunin afhend í Los Angeles. GG er ein af þeim verðlaunaafhendingum sem eru ómissandi fyrir kvikmyndafíkla eins og mig - þau hafa enda oft haft mikið um að segja hverjir fá Óskarinn í mars. Það er pottþétt að ég reyni að vaka fram á nótt og horfa á þetta. Ekta popp og kók-kvöld framundan við að horfa á afhendingu Gullhnattarins. Góða skemmtun (sérstaklega aðrir bíófíklar). :)