Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 janúar 2006

Stefán Friðrik

Í kvöld komst frænka mín, Guðrún Árný Karlsdóttir, áfram á úrslitakvöld Eurovision-keppninnar þann 18. febrúar. Söng hún lagið Andvaka eftir Trausta Bjarnason í keppninni. Guðrún Árný hefur alla tíð verið iðin söngkona, hún vann söngkeppni framhaldsskólanna fyrir sjö árum, árið 1999, fyrir Flensborg með því að syngja hið fræga Celine Dion-lag To love you more og verið áberandi í mörgum söngkeppnum alla tíð síðan. Til dæmis söng hún lagið Með þér í söngvakeppninni fyrir þrem árum, með Dísellu í febrúar 2003. Amma hennar, Árný Friðriksdóttir, er móðursystir mín og Guðrún Árný er eins og margt af okkar fólki mjög söngelsk og virk í tónlistinni. Þetta er glæsilegur árangur hjá frænku - ég óska henni innilega til hamingju!

Annars voru öll lögin í kvöld mjög góð að mínu mati - mun þéttari og betri pakki en var um seinustu helgi. Var sáttur við valið á þeim fjórum lögum sem halda áfram í úrslitakeppnina. Þetta er vönduð og góð dagskrá hjá RÚV í tengslum við Eurovision að þessu sinni. Eurovision-spurningakeppnin með Halla í Botnleðju og Heiðu í Unun er virkilega flott og áhugaverð. Spaugstofan er svo pottþétt í hléinu milli keppninnar og úrslitastundarinnar. Í gærkvöldi fóru þeir algjörlega á kostum í gríninu um keppnina og svo er alltaf gaman hversu vel Pálmi Gestsson nær forsætisráðherranum. Flottur pakki - annars finnst mér stærsti gallinn við keppnina vera kynnarnir sem mér finnst alltof háfleygir miðað við tilefnið. En þetta er mitt mat allavega - gott fólk en einum of alvarlegt.

En föstudags- og laugardagskvöldin eru orðin pottþétt fjölskyldukvöld við imbann - enda varla til það fólk sem í sannleika sagt vill missa af Eurovision og Idol. Þessir tveir stórviðburðir í sjónvarpi sameina ólíkar kynslóðir. Enda hver hefur ekki gaman af tónlist? Rúsínan í pylsuendann í gærkvöldi var einmitt tónlistarþáttur Hemma Gunn. Þessi meistari spjallþáttanna hefur farið á kostum síðasta árið með þátt sinn, Það var lagið. Frábær þáttur með pottþéttum stjórnanda - afslappað og ómissandi!

stebbifr@simnet.is