Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 janúar 2006

Staðfestingarferli vegna skipunar
Samuel Alito í hæstarétt Bandaríkjanna


Samuel Alito

Í gær kom Samuel Alito fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og með því hófst staðfestingarferli vegna skipunar hans í Hæstarétt Bandaríkjanna. Var hann skipaður til setu í réttinum af George W. Bush forseta Bandaríkjanna, þann 31. október sl. sem eftirmaður Söndru Day O'Connor, sem tók fyrst kvenna sæti í réttinum árið 1981. Var hann þriðja dómaraefnið sem skipað var í stað Söndru. Upphaflega, fyrr í sumar, í kjölfar afsagnar Söndru hafði forsetinn skipað John G. Roberts sem dómara við réttinn. Í kjölfar andláts William H. Rehnquist forseta Hæstaréttar, í septemberbyrjun, var Roberts skipaður í stað hans og var staðfestur sem forseti réttarins í lok september. Þá skipaði forsetinn Harriet Miers yfirlögfræðing Hvíta hússins, sem dómara. Hætti hún að lokum við að þiggja útnefninguna er sýnt varð að henni skorti nauðsynlegan meirihluta í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og í þingdeildinni sjálfri.

Andstaða við hana innan hins íhaldssama arms Repúblikanaflokksins varð henni að falli - án þess stuðnings var borin von að hún hlyti tilskilinn stuðning í þinginu. Því fór sem fór. Brotthvarf Miers frá ferlinu og erfiðleikar hennar í stöðunni markaði vandræðalegt ástand fyrir forsetann. Það hefur enda jafnan þótt vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið. Tók Bush forseti engar áhættur í valinu á næsta dómaraefni. Skipaður var tryggur hægrimaður - umfram allt tryggur íhaldsmaður í lykilmálum. Alito er mjög tryggur íhaldsmaður hvað varðar þau lykilmál sem deilt hefur verið um seinustu árin. Hann er allavega talinn svo líkur hæstaréttardómaranum íhaldssama Antonin Scalia, að hann er almennt uppnefndur Scalito. Þessi brandari hefur löngum þótt lífseigur og rifjast upp nú þegar hann hefur baráttuna fyrir staðfestingu þingsins í embættið.

Bakgrunnur Alito er mjög honum til styrktar hvað varðar stuðning repúblikana í þinginu. Bush gerði sér allavega grein fyrir því hvaða stuðning þarf til að dómaraefnið komist heilt í land - vandræði Miers og harkaleg endalok staðfestingarferlisins sannfærðu hann vel um það. Því var skipaður tryggur íhaldsmaður með þær grunnskoðanir sem forsetinn telur þurfa til að dómaraefnið nái í gegnum hið langvinna og harðvítuga ferli. Búast má við umtalsverðum deilum og hefur það sést vel seinustu vikur af tali demókrata - verið er að spila um mun meira nú en þegar Roberts kom fyrir dómsmálanefndina í haust. Nú er verið að fylla í skarð Söndru, sem var þekkt sem swing vote í réttinum. Búast má við að demókratar berjist hatrammlega gegn því að yfirlýstur íhaldsmaður taki við af Söndru. Þegar hafa þekktir demókratar tjáð andstöðu sína við Alito og líklegt að nokkur átök verði í þinginu. Um mun meira er enda verið að spila nú en þegar Roberts kom fyrir þingið.

Samuel Alito

Samuel Alito er fæddur í Trenton í New Jersey hinn 1. apríl 1950. Hann útskrifaðist frá Princeton-háskóla árið 1972 og fór í Yale lagaskólann að því loknu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1975. Árin 1976-1977 starfaði hann sem aðstoðarmaður alríkisdómarans Leonard I. Garth. Árin 1977-1981 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra New Jersey-fylkis. 1981-1985 var Alito aðstoðarmaður Rex E. Lee lagasérfræðings Hvíta hússins. Árin 1985-1987 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í ráðherratíð Edwin Meese. 1987-1990 var Alito saksóknari New Jersey-fylkis. Frá árinu 1990 hefur Alito verið alríkisdómari við áfrýjunardómstólinn í Philadelphiu. Hann hefur flutt tólf mál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og býr því yfir víðtækri reynslu. Alito og eiginkona hans, Martha, búa í West Caldwell í New-Jersey. Þau eiga tvö börn, soninn Phil og dótturina Lauru. Eins og sést á upptalningu á verkum Alito hefur hann gríðarlega reynslu að baki og erfitt verður að finna að verkum hans sem lagasérfræðings.

Það er jafnan talin ein helsta arfleifð forseta Bandaríkjanna á hverjum tíma hverja hann tilnefnir til setu í hæstarétti Bandaríkjanna. Með vali sínu getur forsetinn sett mark sitt á stefnu réttarins og samfélagið á hverjum tíma ennfremur. Til dæmis mun það væntanlega verða ein helsta arfleifð forsetatíðar George W. Bush að á þeim tíma varð hinn 55 ára gamli John G. Roberts forseti réttarins - einkum í ljósi þess hversu ungur hann er og hversu víðtæk áhrif Roberts-rétturinn mun hafa um langt skeið. Eins og vel hefur komið fram í uppstokkunarferlinu í réttinum seinustu mánuði verður dómaraefni forsetans að hljóta staðfestingu meirihluta öldungadeildar Bandaríkjaþings og því er forsetinn auðvitað ekki einráður um það hverjir veljast þar til setu. Þingið verður að samþykkja þann kost sem forsetinn telur vænlegastan. Hæstiréttur Bandaríkjanna er stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Bandarískir hæstaréttardómarar eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Gott dæmi um þetta er að William H. Rehnquist sat í réttinum í 33 ár (frá því í forsetatíð Richard M. Nixon) og var forseti hans í tæpa tvo áratugi, árin 1986-2005. Tveir dómaranna eru undir sextugu, Roberts sem er 55 ára gamall og Clarence Thomas sem verður 58 ára á þessu ári. Er Roberts var staðfestur til setu í réttinum hafði ekki losnað þar sæti í áratug, en síðast áður hafði verið skipað í réttinn árið 1994 er Bill Clinton tilnefndi Stephen Breyer. Segja má því með sanni að Alito sé einn virtasti og hæfasti dómari í Bandaríkjunum. Ólíkt Harriet Miers hafa demókratar fátt á hann er staðfestingarferlið hefst. Verður merkilegt að fylgjast með því er hann kemur fyrir dómsmálanefndina og svarar þar spurningum um lagaleg álitaefni og hitamál samtímans.

Samuel Alito

Þrátt fyrir kurteislegt yfirbragð við upphaf staðfestingarferlisins í Washington í gær var alvarleikinn áberandi. Við blasir að Arlen Specter og Patrick Leahy, leiðtogar repúblikana og demókrata í nefndinni, eru ósammála um ágæti hins tilnefnda og búast má við að demókratar verði mjög aðgangsharðir í spurningum. Þegar er ljóst að demókratarnir Dianne Feinstein, Edward Kennedy og Charles Schumer muni verða mjög hvassir í ferlinu og hafa hótað því að reyna að hindra staðfestingarkosningu fyrir deildinni svari hann ekki spurningum um mikilvæg málefni eins og málefni samkynhneigðra og fóstureyðingar. Búast má við að Alito fái á sig margar krefjandi spurningar og sótt verði að honum með því. Greinilegt er að andstæðingar íhaldsgildanna eru að búa sig undir átök í samfélaginu og spurning hvað gerist með demókratana sem helst hafa haldið uppi andmælum við tilnefningunni. Það er alveg ljóst að ef átök verða vegna skipanarinnar fyrir þinginu muni þau verða mjög harkaleg.

Frjálslyndir telja Samuel Alito ekki viðeigandi dómaraefni - hann hafi að þeirra mati lagst gegn mál- og trúfrelsi og gæti þrengt lagaramma þess sem dómari. Þá segir hópur, sem berst fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Alito sé alfarið andvígur fyrri afstöðu Hæstiréttar til fóstureyðinga. Frægt er málið, Roe v. Wade frá árinu 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Nýir dómarar gætu snúið þeim tímamótadómi og hert lagarammann til muna. Þó hefur Alito ekki fullyrt í fjölmiðlum að það verði að gera. En demókratar óttast stöðu mála með Alito sem oddaatkvæðið í mikilvægum málum er hann hefur tekið sæti Söndru Day O'Connor. En nú ræðst hvert ferlið stefnir. Það er þó alveg ljóst að staðfestingarferlið mun verða gegnumskrifuð pólitík, ef harka leggst í málið. En almennt talið af sérfræðingum sem tjáð hafa sig í fjölmiðlum að líkur á hvassyrtu staðfestingarferli hafi aukist til muna. Muni aðgangsharka demókrata í ferlinu í dómsmálanefndinni velta mjög á svörum Alito er demókratarnir fara að spyrja um hitamálin fyrrnefndu.

Samuel Alito

Tel ég viðbúið að búast megi við átökum fyrir þinginu vegna skipunar Bush forseta á kaþólikkanum Alito í Hæstarétt Bandaríkjanna. Þar verða átakapunktarnir klassískir - en umfram allt harðir. Þar takast á grunnpólar, með og á móti íhaldssömum sjónarmiðum. Verður sá slagur mjög hvass, enda mun sá sem tekur sæti Söndru Day O'Connor í réttinum hafa umtalsverð áhrif á skipan mála á komandi árum og framvindu hitamálanna sem allir þekkja. Því má búast við að það muni reyna mjög bæði á Alito, sem berst fyrir staðfestingu þingsins, og ekki síður George W. Bush, sem skipar hann til setu í réttinum.

Saga dagsins
1884 Ísafold, sem varð fyrsta stúka góðtemplara, var formlega stofnuð í Friðbjarnarhúsi á Akureyri.
1942 Ford bílaverksmiðjurnar hófu framleiðslu á jeppum, sem varð notaður fyrst sem farartæki í hernaði. Jeppinn náði fljótt miklum vinsældum og hefur síðan orðið eitt helsta farartæki samtímans.
1944 Laxfoss strandar í byl út af Örfirisey - mannbjörg varð. Endurbyggt en fórst síðar við Kjalarnes.
1957 Harold Macmillan fjármálaráðherra Bretlands, tekur við embætti sem forsætisráðherra Breta.
1994 Þyrla varnarliðsins bjargar 6 mönnum af Goðanum í Vöðlavík á Austfjörðum - einn maður fórst.

Snjallyrðið
Hvað er nú tungan? - Ætli engin
orðin tóm séu lífsins forði.
Hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs, í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði.
Sr. Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Íslensk tunga)