Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Í dag eru hundrað ár liðin frá því að Verkamannafélag Akureyrar var stofnað. Það félag var forveri margra helstu verkalýðsfélaganna sem nú starfa hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Stofnun Verkamannafélags Akureyrar á þessum degi fyrir hundrað árum markaði upphaf samfellds starfs verkalýðsfélaganna í bænum og hér við fjörðinn. Haldið var upp á afmælið í dag hér í bænum og kom forseti Íslands hingað norður og heiðraði félögin sem síðan hafa starfað með nærveru sinni. Í tilefni þessa var vígður minnisvarðinn Samstaða, eftir listamanninn Jóhann Ingimarsson (sem rak húsgagnaverslunina Örkin hans Nóa til fjölda ára við Ráðhústorgið) eða Nóa eins og flestir gamalgrónir Akureyringar, eins og ég og fleiri þekkja hann. Verkið er staðsett við tjörnina við Strandgötu á Akureyri og er gjöf Kaupfélags Eyfirðinga til hins vinnandi manns í bænum á þessu aldarafmæli.

Þótti mér leitt að komast ekki að athöfninni vegna annarra verkefna í morgun. Fór athöfnin vel fram, og undir berum himni í góðu veðri, ef marka má frásögn eins þeirra sem var viðstaddur og sagði mér frá athöfninni. Verkið er staðsett skammt frá æskuheimili ömmu minnar, Hönnu Stefánsdóttur, en langafi minn, Stefán Jónasson útgerðarmaður, byggði sér hús að Strandgötu 43 og rak útgerð þar skammt frá til fjölda ára. Ávörp við athöfnina fluttu Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, sem gaf myndverkið og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, sem afhjúpaði minnisvarðann. Að lokum las Þráinn Karlsson leikari, ljóðið Söngur verkamanna, eftir Kristján frá Djúpalæk. Ljóðið er frá árinu 1953 og var frumflutt á 10 ára afmæli Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar (yngri félagsins).

Eftir hádegið var opnuð sýning í Alþýðuhúsinu á Akureyri, Skipagötu 14, þar sem flestöll verkalýðsfélögin á Akureyri eru til húsa. Þar voru til sýnis myndir og munir sem tengjast þessari aldagömlu sögu og einnig var þar boðið upp á kaffi og með því. Ég leit þangað eftir hádegið og átti þar gott spjall við fjölda fólks. Föðurbróðir minn, Guðmundur Ómar Guðmundsson, hefur í tæpa þrjá áratugi verið formaður Félags byggingamanna og forvera þess, Trésmíðafélags Akureyrar, og var um skeið forseti Alþýðusambands Norðurlands - tók við því embætti af Þóru Hjaltadóttur fyrir eitthvað um 15 árum. Ég hef því lengi fylgst með verkum félaganna hér og verkum Mugga í forystu sinna félaga. Eftir að hafa litið á sýninguna fór ég í Iðnaðarsafnið á Krókeyrinni. Þar er glæsilegt safn, sem hefur verið ötullega byggt upp af Jóni Arnþórssyni og hvet ég Akureyringa jafnt sem gesti okkar til að líta þangað.

Ég vil óska verkalýðsfélögunum hér á Akureyri, sem og almennu verkafólki hér í bænum, innilega til hamingju með þetta merka afmæli. Hvet ég jafnframt alla til að líta á sýninguna í Skipagötunni og kynna sér merka sögu félaganna sem staðið hafa vörð um hag verkafólks í bænum á þessum hundrað árum.

stebbifr@simnet.is