Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 febrúar 2006

Listin að vera kvikmyndaáhugamaður

Stefán Friðrik

Seinustu vikur hef ég verið í miklum persónulegum pælingum, sennilega þeim mestu í ein sex til sjö ár. Það er margt sem er þess vert að hugsa um litið frá mínum bæjardyrum. Ég hef reyndar orð á mér fyrir það að vera mikill pælari, stúdera hlutina fram og til baka. Ég er samt persóna sem tek ákvarðanir mjög fljótt og afgerandi. Ég læt vaða, oft er það hið rétta en stundum ekki. Ég er ekki týpan sem hikar og verð aldrei. Það er eins og það er bara. Seinustu dagana hef ég verið að finna aftur kvikmyndaáhugamanninn inn í mér. Ég er genetískur kvikmyndaáhugamaður. Hef allt frá því að ég var smákrakki dýrkað kvikmyndaform og allt tengt því - gjörsamlega dýrkað kvikmyndalistina. Já, ég er svona týpa sem horfir á allar kvikmyndaverðalaunahátíðir, poppa á föstudagskvöldum yfir flottum myndum og mæti alltaf í bíósalinn með popp og kók. Ég er í öllum pakkanum. Sjálfur hef ég safnað kvikmyndum frá því að ég var um tíu ára aldurinn og á sennilega orðið um þúsund kvikmyndir hérna heima. Það að horfa á kvikmynd er listgrein að mínu mati - það er ekki það sama að horfa á mynd og að njóta hennar.

Einu sinni var kvikmyndaástríðan ríkari í mér en sú sem snýr að stjórnmálum. Þeir sem hafa kynnst mér nú á seinustu árum trúa því eflaust ekki. Sú var þó tíðin að ég skrifaði kvikmyndagagnrýni og þessi ástríða var meira áberandi en stjórnmálafíknin. Seinustu árin hefur bæði togast á í mér. Sennilega hef ég verið pólitískur fíkill alla mína ævi. Ég er reyndar kominn af fólki sem hefur alltaf verið mjög ákveðið og haft áhuga á stjórnmálum. Einu sinni fékk ég að heyra það að ég væri eins og langafi, Stefán gamli Jónasson. Reyndar erum við gríðarlega líkir já. Alla tíð hef ég haft áhuga á pólitík. En ég er sú týpa sem hef unun af rökræðum - maður sem hlustar og stundar spjall með rólegum og yfirveguðum hætti. Ég er reyndar mjög skapríkur maður og get tekið rosaleg skapgerðarköst ef því er að skipta. Sú hlið sem snýr að flestum er hin rólynda og yfirvegaða. En það fólk hefur sennilega aldrei séð mig í þeim ham sem ég bý yfir. Sumir vinir mínir hafa reyndar sagt mér seinustu daga að þessi hlið hafi verið mjög sýnileg hér á vefnum seinustu vikurnar. Er það vel.

Einn vinur minn sagði mér um daginn að ég ætti nú að fara að snúa mér að þeim gír sem er mér bestur - kvikmyndavettvangurinn. Skrifa kvikmyndagagnrýni og stúdera kvikmyndaformið betur. Honum fannst sennilega orðið komið nóg um hinn reiða og ákveðna mann sem skrifað hefur um stjórnmál frá prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Honum hefur sennilega ekkert litist á Stefán Friðrik hinn skapmikla - viljað mun frekar hinn rólega Stefán Friðrik í kvikmyndapælingunum. Það er reyndar alveg rétt að ég hef lítið stúderað kvikmyndir síðan að ég varð meira áberandi í stjórnmálum. Þessi hlið hefur farið í skuggann. Það er orðið nokkuð um liðið síðan að ég var að stúdera af ástríðu og sál um kvikmyndir. Reyndar fer ég alltaf í bíó í hverri viku - reyni það allavega. Ég verð að fara í bíó reglulega. Ég hef unun af flottum myndum og stúdera ekki bara leikarana heldur allan rammann - tek pælingar um allt frá kvikmyndatökunni til tónlistarinnar. Allt form kvikmyndar skiptir jú máli. Hver vill annars sjá mynd með góðum leikurum en í lélegum myndgæðum? Tja, enginn!

Kvöld eitt í byrjun vikunnar settist ég niður og horfði í einni runu á allar Guðföðurmyndirnar. Vá, það var alveg rosalega gaman!! Engin orð lýsa þeim gæðapakka nógu vel. Góðar myndir eru gulls ígildi. Fljótlega ætlum svo ég og góðvinur minn að eyða einum degi saman að horfa á Hringadróttinssögu. Það er dúndur, segi ég og skrifa. Allir sannir kvikmyndaáhugamenn hafa eflaust sett allar þrjár í DVD-spilarann sinn í einni runu. Þeir sem eiga það eftir eiga að drífa í því hið snarasta. Í vetur kynntist ég einum andstæðingi mínum í pólitík hér í bæ sem er í ungliðamálunum. Við höfum kynnst vel og höfum rætt pólitík mikið skiljanlega og engan veginn alltaf sammála. Eitt sinn fór ég að tala um kvikmyndir. Upp úr dúrnum kom sameiginleg ástríða á kvikmyndum og kvikmyndaforminu. Síðan þá höfum við margar eðalstundirnar átt ásamt fleirum við að stúdera kvikmyndir og eiginlega komnir með kvikmyndaklúbb. Það er alveg eðall - enda er jú fátt betra en rökræður um stjórnmál frá a-ö og kvikmyndapælingar við fólk sem dýrkar kvikmyndalistina jafnmikið og maður sjálfur.

Þeir sem einu sinni hafa helgað hjartað sitt kvikmyndum og pælingum um það vita vel hverju ég er að lýsa. Þetta er alveg eðall. Sennilega er rétt að kvikmyndaáhugamaðurinn Stefán Friðrik fari nú að pæla meira í kvikmyndum og helga meira rými fyrir þessa ástríðu sína? Ja, hver veit. Allavega er mikil list að vera sannur kvikmyndaáhugamaður. Eitt sinn var ég spurður hvaða mynd stæði hjarta mínu næst sem kvikmyndaáhugamaður. Ég hugsaði mikið þá og rann í huganum yfir allt safnið mitt. Eftir stóð ein mynd: hin ítalska og undurljúfa Cinema Paradiso. Þar eru æskuár kvikmyndagerðarmanns rakin og sagan sögð hvernig hann varð barnslega hugfanginn af listforminu. Þeir sem hana sjá gleyma sér í hugarheimi kvikmyndanna yfir henni - slíkur er kraftur hennar. Líf aðalsöguhetjunnar snýst allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Cinema Paradiso sameinar að mínu mati alla helstu grunntóna þess að njóta kvikmyndarinnar - dýrka hana sem ástríðu.

Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Það segi ég allavega fyrir mig - verandi kvikmyndáhugamaður af ástríðu. Hvet alla til að njóta kvikmynda sem sannrar ástríðu. Það bætir alla. Ég ætla að halda áfram af krafti að rækta kvikmyndaástríðuna innra með mér - kannski fer maður að skrifa meira um kvikmyndir hérna en hefur verið? Ja hver veit!

stebbifr@simnet.is