Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 febrúar 2006

...og mundu að hjartanu ber að fylgja

Stefán Friðrik

Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, var mæt kona - kjarnakona með alþýðutaug og skaplag úr gulli. Sennilega er það sú kona sem ég hef á ævi minni metið mest. Hún kenndi mér gullna lífsins reglu sem ég hef alltaf metið á ævinni mest. Hún sagði alltaf: "Berðu höfuðið hátt og mundu að hjartanu ber að fylgja". Lína amma var sterk kona - hún kenndi mér að vera sterkur og öflugur í gegnum hvað sem væri. Lína amma var alþýðukona að austan. Hún þekkti bæði lífsins gleði og sorgir. Ung missti hún frumburð sinn í hörmulegu slysi. Hún bar þann missi alltaf innra með sér. Sennilega var ég einn af örfáum sem hún treysti síðar fyrir sorg sinni og lýsti angistinni sem greip hana nóvemberdagana árið 1944 þegar að Veiga skildi við. Hún og ég höfðum svo margt sameiginlegt. Við vorum alla tíð mjög náin. Sennilega var taugin á milli okkar sterkari en á milli nokkurs sem ég hef kynnst á ævinni til þessa. Örlögin höguðu því svo að ég var einn hjá henni þegar að hún kvaddi þennan heim í litla fallega herberginu sínu á Dalbæ á Dalvík í janúarmánuði árið 2000. Það var táknræn stund í mínum huga.

Ég er reyndar alinn upp í kvennaríki með ömmur mínar, ömmusystur, tvær öflugar systur og frænkur mínar við stjórnvölinn - að ógleymdri mömmu. Ömmur mínar voru guðmæður mínar - pabba og mömmu hefur sennilega ekki litist meira á mig við komuna en svo að það bæri að setja mæður sínar í það verkefni að halda utan um snáðann og leggja honum reglur lífsins. Þær hafa svo sannarlega gert það og alla tíð hugsa ég til þessara mætu kvenna með virðingu að leiðarljósi. Báðar hafa þær verið akkeri lífs míns - reyndust mér alla tíð vel og voru gulls ígildi fyrir mig. Á mikilvægum stundum á ævi minni hafa þær verið til staðar með ráð og notalegheit sem mig hafa skipt miklu máli. Það er ekki amalegt að hafa átt svo styrkar stoðir að. Þær hafa alltaf verið mér mikilvægar. Þær kenndu mér lífsins gullnu reglur - bæði þær sem snúa að mannlegum samskiptum og hvernig maður á að meta sjálfan sig. Lína amma var manneskjan sem kenndi mér mestu og sterkustu karaktereinkenni mín: virðingu fyrir öðru fólki og kurteisi í garð þeirra sem manni þykir vænt um og styður til verka. Þessi einkenni eru grundvöllur hins öfluga einstaklings að mínu mati.

Hún var amman í kjallaranum: bjó á neðrihæðinni hjá okkur í Norðurbyggð, sá um okkur börnin fyrir og eftir skóla og var okkur svo innilega ómetanleg. Hún eldaði alltaf hádegismatinn meðan að mamma var að vinna og var til staðar. Það er eiginlega eins og gylltur ljómi yfir minningu hennar í huga mér. Við hana gat ég allt rætt og við treystum hvoru öðru fyrir miklu. Við vorum trúnaðarvinir. Ég launaði henni alla hlýjuna og trygglyndið seinustu árin er halla tók undan fæti hjá henni og heilsan byrjaði að dala. Hún átti það skilið að njóta atlætis míns þegar að hún gat ekki lengur séð um sig sjálf. Eitt atvik á ævi minni gleymist mér ekki - það er eiginlega fyrsta bernskuminningin. Það var þegar að við fjölskyldan bjuggum hér ofar í götunni, að Þórunnarstræti 118. Þá var ég fjögurra ára gamall og náði að strjúka. Ég var reyndar alltaf stríðinn og baldinn ungur maður og tók áhættur - bæði þá sem síðar. Fannst ég síðar sama dag niðrí Brekkugötu skammt frá heimili Hönnu ömmu fyrir merkilega tilviljun og farið var með mig heim. Þegar að komið var með mig heim brosandi út að eyrum eftir ævintýrið mætti mér amma brosandi yfir að ég hafði fundist. Brosið var hennar vörumerki.

Það er svo margt sem er fast í huga mér þessa dagana. Ég hef verið að hugsa mjög mikið seinustu vikurnar. Hugsa um hvað sé rétt og hvað sé rangt í stöðunni. Þær eru margar litlu fallegu minningarnar sem koma upp í hugann. Stöku sinnum koma þær beisku fram. Ég hef upplifað sjálfur lífsins gleði og sorgir. Ég hef grætt vini og misst vini - ég hef misst einstaka ástvini og ættingja, suma langt um aldur fram og ég hef eignast nýjar stoðir þegar að þær gömlu féllu. Sumar stoðirnar fóru alltof snemma - þær skilja eftir sig ummerki sem ég get og mun aldrei gleyma. Vil ekki gleyma þeim. Þó að stöku súrsæt minning einkenni sumt af þessu mæta fólki get ég ekki gleymt. Ég er og hef alla tíð verið tilfinningavera. Það kenndu mér guðmæður mínar. Ég verð að hafa skap úr stáli en huga úr gulli. Það er blanda sem reynist vel bæði á góðu og vondu augnablikunum. Það kallast á í mér góðu og vondu minningarnar núna þegar að ég skrifa þetta. Ég hef reyndar á seinustu vikum lært að skrifa meira frá hjartanu hérna inn - skrifa um það sem mér finnst og það sem mér langar til að tala um.

Það er einfaldlega minn stíll að tala hreint út og þessi vettvangur er minn. Hann tekur enginn af mér. Ég eiginlega elska að nota Netið til að skrifa frá hjartanu til míns sjálfs. Vonandi hafa aðrir gaman af þessu. Ég hef alltaf haft gaman af að skrifa og sennilega er það minn heimavöllur í lífinu umfram allt annað. Ég veit að sumir fylgjast með þessum vef glaðir og fá einhverja ánægju af pælingunum. Það er mér gleðiefni. Sumir eru ekki glaðir með að ég skrifi frá hjartanu og spyrja sig að því hvað ég taki nú upp á að skrifa næst um. Ég er og ég verð - einfalt mál. Þeir sem þekkja mig vita hvernig ég er og hvernig ég hugsa. Þeir hafa verið duglegir að hafa samband seinustu vikurnar - spyrja frétta og heyra hvað ég sé að hugsa. Þetta fólk hefur öðlast verðmætan sess í huga mér - þetta er það fólk sem ég treysti og eru mín stoð og stytta í lífsins önn og tilveru dagsins í dag. Þær stoðir sem ég styðst við í dag eru mikilvægar og ég met þær mikils. Ég met jú alla mikils sem hugsa vel um mig og minn hag. Þeir eru hugheilir og notalegir - spyrja hvort þeir geti eitthvað gert. Allt er það ómetanlegt!

Ég ætla á næstu vikum að fara að gullnu reglunum hennar ömmu. Ég ætla mér að bera höfuðið hátt og fylgja hjartanu. Þar sem hjartað slær - þar er jú tilvera manns. Maður verður að fylgja sannfæringu sinni og pælingum fyrir því sem maður telur vera hið rétta. Ég ætla að taka fegins hendi þeim tillögum vinar míns frá því um daginn um að ég ætti að fara nú eigin leiðir og hugsa um sjálfan mig og eigin hag næstu mánuðina. Það er svo margt skemmtilegt til í þessum heimi annað en stjórnmál. Nú ætla ég að fara að stúdera kvikmyndir og svo margt annað - gera það sem ég hef svo innilega vanrækt seinustu mánuðina og jafnvel árin. Ég ætla að vera einn og engum háður. Það var mér mikil lífsins lexía að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og ég lærði þar hverjum ber að treysta og hverjum ekki. Ég fór reynslunni ríkari úr þeim slag. Það sem meira er að ég kynntist betur hvernig ég ætti að haga næstu skrefum.

Hjartað leitar í átt að öflugum pælingum um lífið og tilveruna eins og áður - ég fylgi för. Ég man það sem mér var kennt að ég læt hjartað ráða förinni. Því ber jú að fylgja og engu öðru. Það hjálpaði mér með að taka ákvörðun um næstu skref mín og hvernig ég haga næstu mánuðum ævinnar. Ég þakka ömmu fyrir góðu lífsregluna sína sem hjálpaði mér að taka af skarið í huga mér í pælingum seinustu vikna. Ég mun vera sterkur og öflugur eins og ávallt og horfa í gegnum skuggana með bros á vör. Ég er þannig karakter, ekki satt?

stebbifr@simnet.is