1000. bloggfærslan á vefnum
Þetta er 1000. dagsfærslan sem rituð er á þennan bloggvef minn. Ég hef skrifað hér allt frá októbermánuði 2002 og styttist því í fjögurra ára afmæli vefsins. Þann 19. ágúst 2004 náði ég því marki að rita 500. dagsfærsluna. Frá haustinu 2003 hafa skrif hér verið efnismeiri og ítarlegri en fyrsta árið. Hér hef ég daglega umfjöllun um helstu fréttirnar og efni sem mér þykir vert að benda á. Með þessu hef ég fengið það fram að vefdagbókin hér er heimild um atburði í samfélaginu, einskonar atburðasamantekt. Þetta er mín dagbók, ef svo má segja, og ég hef mjög gaman af þessu og met það mikils ef aðrir hafa áhuga á að lesa.
Þakka ég góðar viðtökur sem bloggið hefur hlotið og góðar kveðjur frá þeim sem lesa reglulega efnið. Það hafa greinilega margir fleiri gaman að lesa pælingar mínar og það veitir mér kraft til að halda áfram. Fyrst og fremst er þetta gert fyrir mig - þessi skrif eru áhugamál mitt og ástríða og þau halda áfram af miklum krafti svo lengi sem húsbóndinn á vefnum hefur áhuga á þessu. Það hefur oft verið sagt að netið sé áhrifaríkasti miðillinn. Það er mitt mat að svo sé. Ég næ allavega athygli þeirra sem hingað koma. Ég get því ekki annað en metið það sem svo að netið sé nútímasamskiptaleiðin og held áfram af krafti að nota mér hana.
Vonandi eigum við öll samleið hér áfram!
bestu kveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson
<< Heim