Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 mars 2006

Héðinsfjarðargöng verða brátt að veruleika

Héðinsfjarðargöng

Um þessar mundir er ár liðið frá því að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, hélt fjölmennan og öflugan fund í Bátahúsinu á Siglufirði og tilkynnti um tímaramma Héðinsfjarðarganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Með því vannst loks fullnaðarsigur í baráttu okkar Eyfirðinga og Siglfirðinga fyrir tilkomu ganganna. Sú barátta var í senn löng og ekki síður mörkuð bæði af vonbrigðum og áfangasigrum, sem fært hafa okkur nær lokatakmarkinu. Í gær var fyrsti ramminn í því ferli sem tilkynnt var fyrir ári opnaður með því að tilboð í framkvæmd ganganna voru formlega opnuð. Tékkneska verktakafyrirtækið Metrostav og Háfell áttu lægsta boðið. Hljómar það upp á 5,7 milljarða króna, en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hljóðar hinsvegar upp á 6,5 milljarða króna. Hæsta tilboðið kom frá Marti Contractors og Íslenskum aðalverktökum, en það hljóðaði upp á tæpa 9 milljarða, eða 3,2 milljörðum yfir lægsta boðinu í framkvæmdina.

Ég var einn þeirra sem var viðstaddur fund Sturlu á Siglufirði fyrir ári. Það var ógleymanlegur fundur, vegna þess að gleði íbúanna var svo mikil. Mjög skemmtilegt að hitta Siglfirðinga þann dag og ræða þessi mál og fleiri. Fundurinn var enda fjölmennasti fundur sem þar hafði verið haldinn. Framkvæmdir við göngin munu hefjast í júlímánuði. Stefnt er að því að framkvæmdum muni ljúka eigi síðar en við árslok árið 2009, á 50 ára afmælisári Siglufjarðarkaupstaðar. Er Sturla lýsti þessum tímaramma yfir var klappað og mikil gleði meðal viðstaddra. Var virkilega gaman að fara vestur þennan dag, vera viðstaddur fundinn og heyra hljóðið í fólki þar og ræða málin. Hef ég sjaldan verið viðstaddur fund þar sem allir voru eins glaðir og sameinaðir um að hefja sig yfir pólitískt dægurþras og nöldur um hitamál samtímans og sameinast um að taka höndum saman og horfa til framtíðar.

Í ávarpi sínu við þetta tækifæri í fyrra fór Halldór Blöndal forseti Alþingis og fyrrum samgönguráðherra, yfir sögu málsins. Halldór lagði mikla áherslu á málið í ráðherratíð sinni og verið einn ötulasti baráttumaður þess. Framlag hans í baráttunni fyrir Héðinsfjarðargöngum er enda ómetanlegt. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri, flutti ennfremur ræðu við þetta tilefni og lýsti þar reynslu sinni af því hvernig göng og betri samgöngur hefðu haft áhrif á byggðir landsins. Sagðist hann hafa verið sem bæjarstjóri á Dalvík vitni að þeirri breytingu sem varð á samfélaginu við utanverðan Eyjafjörð með tilkomu jarðganga í gegnum Ólafsfjarðarmúla. Hann minntist einnig á það þegar hann var bæjarstjóri á Ísafirði og varð vitni að þeirri byltingu sem varð á samfélaginu á Vestfjörðum, svæðinu sem nú myndar sveitarfélagið Ísafjarðarbæ, er jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar voru opnuð.

Göngin verða mikil og öflug samgöngubót fyrir alla hér á þessu svæði. Þau bæði styrkja og treysta mannlífið og byggðina alla hér. Allar forsendur mála hér breytast með tilkomu Héðinsfjarðarganga á næstu árum. Með þeim verður svæðið hér ein heild. Nú þegar hafa Siglufjörður og Ólafsfjörður sameinast í eitt sveitarfélag, þar sem kosið verður til sveitarstjórnar fyrsta sinni í vor og stendur nú t.d. yfir samkeppni um nafn á það. Var ég mjög ósáttur við frestun framkvæmda við göngin árið 2003 og andmælti þeirri ákvörðun mjög. Við hér á þessu svæði vorum vonsvikin og slegin yfir þeirri slæmu og óverjandi ákvörðun stjórnvalda. Enn situr eftir gremja í garð þeirra sem lofað höfðu að göngin kæmu til á réttum tíma í kosningabaráttunni vorið 2003 en sviku það eftir kosningar. En það eru eðlileg viðbrögð. En nú er staðið við tímaramma málsins og það er fyrir mestu að menn fari nú á fullt við allar framkvæmdir.

Ég hef tekið eftir því að margir eru andsnúnir því að göng komi þarna til sögunnar og tengi Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og verði með því öflugur hluti af Norðausturkjördæmi og nái samgöngulegri tengingu við svæðið. Ég er stoltur af því að hafa barist fyrir tilkomu þessara ganga og mun þegar tíminn líður horfa til þessarar baráttu með stolti, einkum vegna þess að sigur vannst í baráttunni við þá sem eru andsnúnir því að göngin komi. Ég hef næstum alla mína ævi búið í Eyjafirði. Ég skammast mín ekki fyrir að vinna að hag þessa svæðis og vera þekktur af því að vera baráttumaður fyrir því að heildin þar styrkist. Það er grunnur minnar tilveru að heildin hér verði sterk og að því mun ég alltaf vinna. Að mínu mati eru þessi göng, þessar framkvæmdir, hagsmunamál fyrir okkur öll og mikilvægt að þau komi. Það styrkir allt svæðið hér.

Saga dagsins
1924 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Jóns Magnússonar tekur við völdum - stjórnin sat í tvö ár, eða allt til andláts Jóns í konungsheimsókn á Austurlandi. Hann lést að Skorrastað í Norðfirði þann 23. júní 1926.
1960 Samþykkt á þingi að taka upp söluskatt af starfi og þjónustu - honum var formlega breytt í virðisaukaskatt við lagabreytingu árið 1990.
1972 Geirfugladrangur, vestur af Eldey, hrundi og sökk í sæ - hann kemur nú aðeins upp úr sjó á fjöru.
1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kynnir stjörnustríðsáætlun sína - áætlun Reagans forseta varð mjög umdeild á níunda áratugnum.
1999 Breska leikkonan Dame Judi Dench hlaut óskarinn fyrir leik sinn í myndinni Shakespeare in Love - Dench er ein virtasta leikkona Breta og var hún kjörin besta leikkona Bretlands á 20. öld árið 2001.

Snjallyrðið
I have no regrets. I wouldn't have lived my life the way I did if I was going to worry about what people were going to say.
Ingrid Bergman leikkona (1915-1982)