Saga af snúnum ökkla
Þessi vika sem er að líða hefur verið sérkennileg. Það markast af því óhappi sem ég varð fyrir síðdegis á mánudag þegar að ég sneri á mér ökklann skömmu eftir vinnu. Ég náði að komast á slysadeild og fór við svo búið heim og mætti þangað aftur morguninn eftir til að fara í röntgenmyndatöku. Læknar á spítalanum gátu ekki með vissu sagt mér á mánudeginum hvort um væri að ræða ökklabrot eða snúinn ökkla. Þegar að ég vaknaði á þriðjudeginum gat ég ekki stigið í vinstri fótinn og því þótti réttast að ég færi í myndatöku til að skera úr um það. Reyndar var það nokkuð vesen fyrir mig að komast á spítalann á þriðjudeginum en það hafðist allt með góðri hjálp en ég get auðvitað ekkert komist um þessa dagana nema að vera keyrður um allt. Niðurstaðan var annars sú að um væri að ræða mjög slæman snúning á ökkla og ég fór af spítalanum með hækjur. Þær notaði ég þar til í gær á föstudag.
Reyndar var einn hjalli umfram aðra sem voru ekki góðir við að vinna úr þessu. Það var auðvitað að komast í vinnuna en þar er nokkuð stór og mikill stigi um að fara. Það gekk mjög illa fyrsta daginn en svo stig af stigi betur hina dagana. En þrjóskan er svo mikil í mér að ég komst þetta allt frá upphafi, þótt það tæki tímann sinn fyrsta daginn. En ég er semsagt laus við hækjurnar og kominn á eðlilegt ról. Það tók mig reyndar tíma að æfa mig á hækjunum, enda hef ég ekki notað slíkar græjur nema einu sinni á minni ævi. Það var sumar eitt fyrir nokkrum árum - dökkt sumar á minni ævi svo vægt sé til orða tekið. En þetta gekk allt mjög vel og ég er svona stig af stigi að ná réttum hjalli. Reyndar má með sanni segja að með ólíkindum sé að ég hafi ekki ökklabrotnað. Reyndar var það svo á mánudaginn að ég heyrði smella við fallið og því vissi ég alltaf að um snúinn ökkla eða brot væri að ræða en hvorttveggja kom til greina og myndatakan sýndi stöðuna.
Einn vondur fylgifiskur þessa er auðvitað að geta með engu móti verið í skó á veika fætinum. Eiginlega fannst mér það verst af öllu enda var snjókoma hér þessa vikuna og ekki gott um að fara með þessum hætti. Bólgan á fætinum varð svo mikil að ég gat engu móti komið skó á vinstri fótinn. Niðurstaðan varð auðvitað sú að ég var bara í sokk á öðrum fætinum en skó á hinum. Þetta gekk bara alveg ágætlega miðað við aðstæður. Fóturinn á mér bólgnaði reyndar svo mikið að mér varð nóg um og hætti að lítast um tíma á blikuna, en þetta er allt nú á réttri leið. Annars hef ég fengið alla umsögn um svona frá pabba en hann hefur bæði snúið ökkla og brotið ökkla. Af tvennu mjög illu er skárra að snúa hann held ég. Annars eru tilfellin mörg en stundum getur einmitt verið snúningurinn verið verri, ótrúlegt en satt komi hann niður á vondum svæðum á fætinum. Eitt er þó víst að ég var heppinn að brjóta mig ekki og læknarnir skildu með engu móti hversu vel ég slapp.
Samhliða þessu hef ég auðvitað kynnst vel aðbúnaðinum á slysadeild og þessu blessaða heilbrigðiskerfi okkar. Það er ekkert nema gott um það hægt að segja. Við hér á Akureyri erum svo lánsöm að eiga góðan spítala og afburðahæft starfsfólk. Ég kynntist þessu fólki vel á mánudag og þriðjudag og öll þau samskipti voru af hinu góða fannst mér. Reyndar kynntist ég vel að það er ekki gott að bíða á slysadeildinni eftir þjónustu en ég kynntist líka hversu rosalega mikið er þar að gera og miklar annir. En ég kvarta ekki yfir þjónustunni. Ég fékk fínan aðbúnað og fannst þetta allt ganga vel hvað þetta varðar. Hvað varðar batann er hann fyrst að verða sýnilegur núna. Enn get ég þó ekki komist í skó á öðrum fætinum en það kemur vonandi allt til þegar að líður á næstu viku. Ég hef um helgina að mestu haft það bara rólegt og slappað af, en ég hef seinustu dagana unnið minn vinnudag og sinnt öðrum verkefnum.
Reyndar fannst ættingjum mínum ég fara ótrúlega bratt af stað eftir þetta allt. Það er eðlilegt að maður reyni að keyra sig sem mest áfram eftir öllum mætti. Það er enda ekki óeðlilegt að maður vilji reyna að halda sinni rútínu eftir fremsta megni. En það var gott að fá helgarleyfi og hvíla fótinn. Reyndar er blánaður fóturinn vinsælt sýningarefni fyrir ættingjana en þetta er eins og hið besta listaverk þessa dagana. Það styttist sem betur fer í að þetta verði allt eins og áður var. Eina sem pabbi fræddi mig um var að þetta myndi aðeins geta lagast eftir að fóturinn yrði blár svo að ég get farið að hlakka til einhvers núna. :)
<< Heim