Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 mars 2006

Maureen Stapleton látin

Maureen Stapleton

Bandaríska óskarsverðlaunaleikkonan Maureen Stapleton lést í dag, áttræð að aldri. Stapleton lést á heimili sínu í smábænum Lenox í Massachusetts, en þangað flutti hún er hún hætti leik undir lok 20. aldarinnar og sást seinustu árin lítið opinberlega, en sneri aftur undir lok ævi sinnar í síðasta kvikmyndahlutverk ferilsins, sem frú Lundt í Living and Dining, árið 2003. Hún var ein kraftmesta og eftirminnilegasta leikkona sinnar kynslóðar og hafði gríðarleg áhrif í leiklistargeiranum í Bandaríkjunum fyrir frægan feril sinn sem kvikmynda- og sviðsleikkona til fjölda ára. Hún var heiðursfélagi í bandarísku kvikmyndaakademíunni og gegndi til fjölda ára trúnaðarstörfum fyrir samtök leikara í Bandaríkjunum og um leið opinber talsmaður leikara lengi. Hún var heiðruð af bandarísku leikarasamtökunum árið 1998 fyrir æviframlag sitt til leiklistar. Hún var alla tíð þekkt fyrir það að fara eigin leiðir og tjáði skoðanir sínar óhikað - sannkölluð kjarnakona sem setti svip sinn á leiklistarsögu 20. aldarinnar.

Maureen Stapleton var ein örfárra leikara í Bandaríkjunum sem hafði hlotið öll leiklistarverðlaun sem hægt var að vinna: Óskarinn, Golden Globe, Tony-verðlaunin og Emmy-verðlaunin. Hún hóf ung leik á heimaslóðum en hlaut fyrst almenna frægð sem slík árið 1951 fyrir stórleik sinn í uppfærslu leikverksins The Rose Tattoo eftir Tennessee Williams á Broadway. Hlaut hún sín fyrstu Tony-verðlaun fyrir leik sinn. Mörgum að óvörum hlaut hún ekki hlutverkið er leikverkið var kvikmyndað nokkrum árum síðar. Féll hlutverkið í skaut Önnu Magnani sem hlaut óskarinn fyrir túlkun sína árið 1956. Á næstu árum eftir það sló Stapleton margoft í gegn fyrir leik sinn á sviði í Broadway og varð á nokkrum árum ein fremsta sviðsleikkona Bandaríkjanna. Árið 1958 lék hún í fyrsta skipti í kvikmynd. Frumraun hennar á hvíta tjaldinu var hin ógleymanlega túlkun á Fay Doyle, hinni andlegu þjáðu og bitru eiginkonu í kvikmyndinni Lonelyhearts. Myndin sló um leið í gegn og hún var frumsýnd og túlkun Stapleton rómuð um allan heim.

Hlaut Stapleton fyrstu tilnefningu sína til Óskarsverðlaunanna fyrir leik sinn en vann ekki, mörgum að óvörum, og missti verðlaunin til Wendy Hiller. Jafnskjótt og hún kom í Hollywood hvarf hún þaðan og aftur þangað sem hún mat sinn heimavöll í leiklistinni, sviðstúlkun á sterkum kvenpersónum. Hún sneri aftur á hvíta tjaldið eftir marga leiksigra í leikhúsinu árið 1963 sem Mama Mae Peterson í Bye Bye Birdie. Árið 1970 fór hún algjörlega á kostum í hlutverki Inez Guerrero, eiginkonu manns sem hefur í hyggju að sprengja upp flugvél yfir Atlantshafinu, í kvikmyndinni Airport. Stapleton þótti ná hápunkti magnaðs leikferils með túlkun sinni og snerti streng í brjósti áhorfenda sem eiginkonan Inez sem reynir allt sem hún getur til að koma í veg fyrir áætlun eiginmannsins. Sérstaklega nær hún hápunkti í lokasenu myndarinnar þegar henni verða ljós örlög eiginmannsins og flugvélarinnar. Myndin sló í gegn, enda stjörnum prýdd, en hún tapaði enn og aftur óskarskapphlaupinu, þá fyrir Helen Hayes, sem í sömu mynd sló í gegn sem hin aldna (fluglaumufarþeginn) Ada Quonsett.

Maureen Stapleton var tilnefnd mörgum sinnum til Emmy-verðlaunanna fyrir leik í sjónvarpsmyndum á sjöunda og áttunda áratugnum og hlaut verðlaunin nokkrum sinnum. Hún var meira að segja tilnefnd til Grammy-tónlistarverðlaunanna árið 1975 fyrir leiklestur sinn á skáldsögunni To Kill a Mockingbird, sem var það ár gefinn út á hljómplötu. Hún hlaut þriðju óskarsverðlaunatilnefningu sína árið 1978 fyrir túlkun sína á Pearl í kvikmynd Woody Allen, Interiors. Enn og aftur tapaði hún verðlaununum, þá fyrir Maggie Smith. Hún hlaut loksins Óskarsverðlaunin árið 1982 fyrir litríka túlkun sína á rithöfundinum og anarkistanum Emmu Goldman í kvikmyndinni Reds, í leikstjórn leikarans Warren Beatty, sem var einn af lærlingum hennar í leiklistarskóla áður fyrr. Valdi hann Stapleton í hlutverkið eftir mikla umhugsun, enda þótti honum Goldman og Stapleton líkar persónur. Myndin, sem lýsir æviferli John Reed, er þriggja tíma löng og kraftmikil. Ætla ég mér að horfa á hana aftur á næstu dögum, enda tilefni til að rifja upp leik Stapleton.

Stapleton varð gáttuð er hún hlaut loksins verðlaunin. Fræg voru viðbrögð hennar er úrslitin voru tilkynnt, hún gapti af undrun og viðstaddir á verðlaunaafhendingunni hylltu hana með lófaklappi og stóðu úr sætum fyrir henni er hún tók við óskarsstyttunni. Eftir það dró Stapleton sig hægt og rólega í hlé. Hún fór enn og aftur á kostum árið 1985 í kvikmyndinni Heartburn árið 1985 og lék á móti Meryl Streep og Jack Nicholson. Ári síðar heillaði hún nýjar kynslóðir kvikmyndaunnenda í gamanmyndinni Money Pit í hlutverki hinnar kostulegu Estelle, sem selur ungum hjónum húsið sitt sem er í meira lagi gallað. Tom Hanks og Shelley Long léku parið og myndin sló í gegn og Stapleton sannaði sig sem gamanleikkona en ekki hin sterka karakterleikkona sem hún var þekktust fyrir að vera. Sama ár fór hún á kostum í kvikmyndinni Cocoon. Seinustu árin lék hún smá hlutverk í kvikmyndum en dró sig hægt og rólega í hlé og eins og fyrr segir lék hún sitt síðasta kvikmyndahlutverk árið 2003.

Maureen Stapleton var ein af fremstu leikkonum sinnar kynslóðar og setti sterkan svip á leiklistar- og kvikmyndasögu Bandaríkjanna á 20. öld. Fyrst og fremst minnast kvikmyndaunnendur hennar fyrir stórleik í Lonelyhearts, Airport og Reds. Allar voru þessar myndir óviðjafnanlegar, einkum vegna leiks hennar á þeim sterku kvenpersónum sem hún túlkaði. Hvet ég kvikmyndaunnendur til að sjá þessar frábæru myndir og minnast með því þessarar frábæru leikkonu. Allar þessar myndir á ég og nú tekur við að líta á þær enn einu sinni. Flottar myndir. En svo mikið er víst að Maureen Stapleton var kjarnakona, hún túlkaði líka langoftast á hvíta tjaldinu og á leiksviði kjarnakonur með skoðanir og tilfinningar sem voru túlkaðar með snilld. Hún var þannig karakter enda sjálf og fór aldrei dult með stjórnmálaskoðanir sínar og vangaveltur á lífinu og tilverunni.