Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 mars 2006

Sterk staða Akureyrarbæjar

Akureyrarbær

Það er gott að vera Akureyringur núna. Það er ekki hægt að segja annað en að gleðilegt sé að sjá hversu góð og öflug staða bæjarins er. Þetta kemur mjög vel fram að mínu mati í heildarniðurstöðum ársreikninga Akureyrarbæjar fyrir árið 2005 sem kynntir voru í síðustu viku. Staða mála sem þar var kynnt telst vissulega mun betri en áður var stefnt að. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er enda jákvæð um rúmlega 360 milljónir króna en áætlun hafði áður gert ráð fyrir 144,2 milljóna króna hagnaði. Hagnaður sveitarfélagsins er enda helmingi meiri en stefnt hafði verið að áður. Veltufé frá rekstri nemur tæpum 1,7 milljörðum og eignir sveitarfélagsins eru bókfærðar á rúma 22 milljarða króna. Ársreikningarnir voru kynntir í bæjarráði á fimmtudag og umræður verða í bæjarstjórn 21. mars og 4. apríl.

Í yfirlýsingu Akureyrarbæjar um stöðu mála segir: "Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Rekstur Akureyrarbæjar gekk afar vel á árinu og er heildarniðurstaða ársins betri en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir og fjárhagurinn traustur. Rekstrarniðurstaða samtæðunnar var jákvæð um ríflega 360 milljónir króna en áætlun hafði gert ráð fyrir 144,2 milljóna króna hagnaði á árinu. Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 1.675 millj. kr. og handbært fé frá rekstri 1.669,6 millj. kr."

Það er því ekki hægt að segja annað en að staðan sé góð. Sveitarfélagið stendur vel og við getum ekki annað en litið til næsta kjörtímabils glöð og hress.

Saga dagsins
1964 Alþingi var afhent áskorun 60 kunnra Íslendinga, svonefndra sextíumenninga, þar sem skorað var á þingið að takmarka útsendingar Keflavíkursjónvarpsins við herstöðina. Sendistyrkurinn hafði þá nýlega verið aukinn. Óttuðust menningarpostularnir að bandarískt sjónvarp til allra landsmanna hefði alvarleg áhrif og skaðaði menningarlíf. Á þeim grundvelli var helst mótmælt. Við tilmælum þeirra var formlega orðið 3 árum síðar. Þá hafði sjónvarpsstöð á vegum ríkisins verið stofnuð.
1974 Græna byltingin - skýrt var frá áætlunum borgarstjórnar um að skipuleggja opin svæði og gera göngustíga, hjólreiðabrautir og útivistarsvæði í Reykjavík. Græna byltingin var umfangsmesta átak Reykjavíkurborgar í umhverfismálum og var lykilmál á borgarstjóraferli Birgis Ísleifs Gunnarssonar, en hann var borgarstjóri árin 1972-1978.
1977 Hreinn Halldórsson varð Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss - Hreinn varð þriðji Íslendingurinn sem vann til Evrópumeistaratitils í frjálsum íþróttum - Hreinn varð kjörinn íþróttamaður ársins 1977.
1983 Samtök um kvennalista voru formlega stofnuð - náðu kjöri á þing í kosningunum 1983 og áttu fulltrúa á löggjafarþinginu allt til ársins 1999. Kvennalistinn varð einn hluti af Samfylkingunni árið 2000.
1996 Thomas Hamilton, 43 ára skoskur maður, myrðir 16 skólabörn og kennara þeirra í barnaskóla í smábænum Dunblane í Skotlandi - hann var ekki tengdur skólanum en trylltist eftir að hann var rekinn sem skátahöfðingi. Hamilton svipti sig lífi eftir árásina og því var málið aldrei upplýst að fullu.

Snjallyrðið
Accept the challenges so that you can feel the exhilaration of victory.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)