Herinn að fara - pólitískar áskoranir framundan
Bandarísk stjórnvöld tilkynntu íslenskum stjórnvöldum í dag um þá einhliða ákvörðun sína að draga stórlega úr starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári, nánar tiltekið í septemberlok. Ákveðið hefur verið að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess verði fluttar þá á brott. Við blasir að þáttaskil verða samhliða þessu. Á þessu ári eru 55 ár liðin frá því að varnarsamningurinn milli Bandaríkjanna og Íslands tók gildi og síðan hafa Bandaríkjamenn gegnt þýðingarmiklu hlutverki hér á landi og tóku í raun við varnarhlutverki landsins og hefur síðan verið litið á aðkomu Bandaríkjanna sem mikilvægan þátt í varnarmálum Íslands. Sú breyting sem nú blasir við hlýtur að túlkast sem stór og mikil breyting á þeim tengslum. Í raun stendur aðeins varnarskuldbindingin eftir en öllum má ljóst vera að án þess viðbúnaðar sem fylgir vélunum blasir við gjörbreytt staða mála. Það er því öllum ljóst að við blasir ný staða sem verður að vinna úr.
Viðræður um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum hófust árið 1993, en áður hafði blasað við í fyrsta skipti vilji Bandaríkjamanna til breytinga. Í janúar 1994 var undirrituð bókun til tveggja ára um framkvæmd varnarsamstarfsins. Með henni var ákveðið að orrustuþotum varnarliðsins skyldi fækkað úr tólf í fjórar. Þá var ákveðið að leggja niður starfsemi hlustunarstöðvar og fjarskiptastöðvar. Árið 1996 var samþykkt ný bókun um framkvæmd varnarsamningsins til næstu fimm ára. Þrátt fyrir að bókunin hafi einungis átt að gilda til ársins 2001 hófust formlegar viðræður ekki um endurnýjun hennar. Þar komu í raun til ýmsar tafir á málum í Bandaríkjunum: fyrst vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2000, hryðjuverkanna í New York og Washington 11. september 2001 og að lokum vegna þingkosninga vorið 2003. Í raun má segja að fjöldi Íslendinga hafi í aðdraganda þingkosninganna vonað það besta í stöðunni en búist við hinu versta. Var málið rætt mikið skiljanlega í kosningabaráttunni þá í Suðurkjördæmi.
Bandarísk yfirvöld lögðu fram í byrjun maímánaðar 2003 fram sömu ákvörðun og í raun liggur nú fyrir, tæpum þrem árum síðar, semsagt að orrustuþoturnar 4 og björgunarsveitin myndi fara héðan. Gert var ráð fyrir að innan mánaðar myndu þessar breytingar hafa átt sér stað. Kom þessi einhliða ákvörðun á tvíhliða varnarsamningi þá fram algjörlega á hinum versta mögulega tíma. Íslensk stjórnvöldu voru gáttuð á tímasetningi, en sama daginn og Davíð Oddssyni var kynnt þessi ákvörðun voru 8 dagar til þingkosninga. Á þessum tímapunkti blasti við í skoðanakönnunum að ríkisstjórn stjórnarflokkanna myndi falla í kosningunum og stæði verulega tæpt. Það er alveg ljóst að stjórnarflokkarnir hefðu getað notfært sér þetta mál með því að gera það allt opinbert og valda fjaðrafoki með því að benda á málefni tengd þessu. Það gerðu þau ekki og stóðust þær freistingar. Staða mála í maí 2003 var fyrst kynnt í júlíbyrjun sama árs, eftir að umræður komust á sporið milli landanna.
Til þess kom ekki að stjórnarmeirihlutinn félli í þingkosningunum 2003, hann hélt velli og stjórnin sat áfram, eftir að hafa verið endurmynduð. Í kjölfar þess hófust formlegar samningaviðræður milli landanna um framtíð varnarsamningsins. Sú spurning hefur komið fram lengi síðan hvort tímasetningin hafi verið sett fram vegna þess að líkur voru uppi á því að stjórnin stæði illa á þeim tímapunkti og líklegt væri að nýir stjórnarherrar myndu verða auðveldari viðureignar í þessu en þau sem fyrir voru. Þetta var mikið rætt sumarið 2003. Reyndar má segja að málið hafi allt verið tæpt þá. Fylgdi sögunni þessa sumardaga fyrir þrem árum að til að breyta fyrrnefndri ákvörðun þá hefði þurft stuðning George Robertson lávarðar, þáv. framkvæmdastjóra NATÓ. Þá fyrst hefðu íslensk stjórnvöld náð á æðstu staði innan bandaríska stjórnkerfisins og Bush forseti, breytt þessari fyrrnefndu ákvörðun sem ber vott um pólitískt dómgreindarleysi bandarískra stjórnvalda og vinnur gegn tvíhliða varnarsamningi landanna.
Það er alveg greinilegt að George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur lagt blessun sína yfir þessa ákvörðun mála. Lengi hefur verið leitt rökum að því að haukarnir í Washington (Rumsfeld, Cheney og Rice) hafi viljað þessa ákvörðun í gegn sumarið 2003 en þá hafi Colin Powell þáv. utanríkisráðherra og Íslandsvinur með meiru, staðið í veginum. Forsetinn beitti sér síðan fyrir samningaviðræðum og hafa þær gengið misvel. Fyrst voru þær brösuglegar að sjá en flestir töldu að nýlegar viðræður Geirs H. Haarde utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, við Condoleezzu Rice utanríkisráðherra, í Washington hefði breytt gangi mála og að líkur væru á sameiginlegri lausn í málinu. Því er ekki að neita að það hefði litið mun betur út fyrir samskipti þjóðanna hefði verið hægt að semja með viðunandi hætti um lausn mála en ekki harkalega einhliða lendingu eins og því miður stefnir allt í nú. Reyndar er verulega slæmt að Íslendingar séu ekki virtir meira en þetta af Bandaríkjamönnum og enn og aftur dembt yfir okkur einhliða ákvörðunum frá Washington.
Davíð Oddsson seðlabankastjóri, var forsætisráðherra Íslands í maíbyrjun 2003 er í fyrra skiptið lá á borðinu einhliða ákvörðun Bandaríkjanna þess efnis að þoturnar og viðbúnaður Bandaríkjanna færi héðan. Þá tók hann á málinu af krafti og leiddi það af miklum krafti. Davíð kom fram einbeittur og öflugur sumarið 2003 og sennilega keyrði málið úr mesta ólgusjónum sem þá blasti við. Hann kom einnig fram í fjölmiðlum sumarmánuðina 2003 þegar að óvissan var svo mikil að enginn vissi nema að snúið yrði aftur við blaðinu og aftur keyrt í fyrrnefnda ákvörðun. Sérstaklega man ég vel eftir viðtali hans við Brynhildi Ólafsdóttur það sumar sem tekið var í bústað forsætisráðherra á Þingvöllum. Þá var Davíð í essinu sínu, vígreifur og talaði af krafti. Það er alveg ljóst að kraftur Davíðs þá skipti máli. Hún náði eyrum stjórnvalda ytra og tæpu ári síðar fór hann í Hvíta húsið og átti einkafund með Bush forseta, skömmu áður en hann lét af embætti forsætisráðherra. Frá því að Davíð vék af hinu pólitíska sviði hafði lítið gerst í málinu fram til fyrrnefnds fundar utanríkisráðherranna.
Vonir höfðu því verið til staðar um að menn myndu landa málinu farsællega. Satt best að segja eru Íslendingar betur undir búnir undir þessa ákvörðun yfirvalda í Washington en að þeir voru sumarið 2003. Á þessum þrem árum hafa enda bæði Suðurnesjamenn og landsmenn almennt meltað betur með sér hvað sé best í stöðunni nú þegar fyrir liggur að meginþorri þess aðbúnaðar sem Bandaríkjamenn hafa haft hér á landi heyrir sögunni til fyrir lok þessa árs, rúmu hálfu ári fyrir þingkosningarnar í maí 2007. Það er reyndar stærsta spurningin núna hvernig Bandaríkjamenn verða í viðræðum sem hljóta nú að verða um hvernig stíga beri næstu skref eftir þessa ákvörðun. Það er eiginlega dapurlegast af öllu að ákvörðunin komi svona verulega á óvart, enda er tímasetningin mjög ankanaleg eftir fundinn í Washington milli utanríkisráðherra landanna. Það mun væntanlega vekja athygli víða um heim hvernig Bandaríkjamenn koma fram við bandalagsþjóð (vinaþjóð) á borð við Ísland sem hefur jafnan átt mjög góð samskipti við Bandaríkin í gegnum tíðina.
Það er alveg óhætt að fullyrða að margir hafi tekið eftir yfirgangi og einhliða ákvörðunum Bandaríkjastjórnar í þessu máli. Það er í þessu máli eins og öðrum að víða er fylgst með framgangi mála og atburðarásinni. Framkoma Samfylkingarinnar í þessu máli hefur jafnan vakið mikla athygli. Hefur komið fram að afstaða þeirra sé sú að hér verði helst áfram sami varnarviðbúnaður og verið hefur og gefið í skyn að það hafi verið stefna Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni vorið 2003 og eindreginn vilji flokksforystunnar. Engu að síður vekur athygli að í forystusveit flokksins er fjöldi herstöðvaandstæðinga. Það telst vart hernaðarleyndarmál að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson og Margrét Frímannsdóttir hafi verið framarlega í flokki herstöðvaandstæðinga í gegnum tíðina. Ennfremur ber að minnast á að af 20 þingmönnum flokksins er helmingur þeirra fólk sem áður var tengt gamla Alþýðubandalaginu og töldust til herstöðvaandstæðinga. Það þarf enginn að efast um að stjórn undir forsæti Samfylkingar hefði tekið öðruvísi á málum en núverandi stjórn hefur gert á tímabilinu.
Það má lengi deila um hvaða örmum viðkomandi aðilar tilheyra í dag, má vel vera að þetta fólk hafi séð ljósið og skipt um skoðun og telji mikilvægt að sannfæra aðra um það nú. Það hefur þó vakið athygli hvernig Samfylkingin hagar málflutningi sínum meðan málið allt er á þessu viðkvæma stigi. Formaður Samfylkingarinnar hefur nú komið fram í sjónvarpi og minnt á það sem hún hefur klifað á að rétt sé að meta stöðuna og skilgreina hættuna og ógnina sem til staðar er í varnarmálunum. Eins og allir vita er til staðar varnarsamningur og ég veit ekki betur en að stjórnvöld vilji og hafi viljað fara eftir þeim samningi. Það er það sem við höfum viljað að Bandaríkin geri. Staða mála hvað varðar okkur er því nokkuð skýr. Það eru Bandaríkjamenn sem hafa tekið þessa ákvörðun og nú er það yfirvalda þar að sýna sitt rétta andlit hvað varðar það að halda á stöðu mála. Það má reyndar íhuga hvort að staða varnarsamningsins sé óbreytt með engan varnarviðbúnað sýnilegan hér á landi en loforð jafnvel um varnarsamning áfram en á þeim forsendum að þyrlurnar fari burt héðan.
Framundan er athyglisvert tímabil í þessu máli öllu. Ríkisstjórnin hittist síðdegis í dag á fundi í Alþingishúsinu. Var það sögulegur fundur, en ekki hefur gerst mjög lengi að ríkisstjórn fundi þar, sennilega ekki lengstan hluta lýðveldistímans. Niðurstaða þess fundar var kynnt af formönnum stjórnarflokkanna, þeim Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra, og Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Það er ljóst af orðum þeirra að nú taka við viðræður við Bandaríkjamenn um hvað taki við og einnig verður þessi breytta staða, sem nú er orðin ljós og vart er óumflýjanleg eins og mál standa að, rædd við önnur ríki í NATO. Fyrir liggur nú að við þurfum að fara í margvíslegar ráðstafanir vegna innanlandsmála Íslands. Þær aðgerðir lúta í senn bæði að atvinnumálum á Suðurnesjum og ekki síður björgunarmál landsins. Um er að ræða ákvörðun sem hefur veruleg áhrif og markar stærstu pólitísku tíðindi ársins 2006 án nokkurs vafa, rétt eins og varnarviðræðurnar árið 2003 voru stór þáttur í stjórnmálalitrófi þess árs.
Varnir Íslands og varnarviðbúnaður þess er nú sem þá mikilvægt mál og við stöndum á krossgötum óneitanlega nú hvað stöðu þessara mála varðar. Það sem er mest afgerandi við þessa ákvörðun er að hér er um að ræða ákvörðun sjálfs forseta Bandaríkjanna, ekki bara embættismanna á neðri stigum stjórnkerfisins. Það blandast því engum hugur um að ákvörðun hefur verið tekin á æðstu stöðum um að gjörbreyting verði. Sú breyting verður ekki umflúin. Er rétt fyrir okkur að líta nú í aðrar áttir og hugsa stöðu mála algjörlega frá grunni. Mikilvægt er að tryggja varnir landsins á komandi árum, það verður ekki gert nema með því að halda lágmarksvörnum. Um það er pólitísk samstaða innan ríkisstjórnar að tryggja varnir landsins. Það hefur komið glögglega fram hjá formönnum stjórnarflokkunum í dag og áður, þegar að Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn. Geir H. Haarde fylgir eftir bæði stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum jafnt og pólitískum ákvörðunum og tali forvera síns í þeim efnum.
Vissulega hefur heimsmyndin breyst mikið á þeirri rúmlega hálfu öld sem bandarískt herlið hefur verið hérlendis. Á því leikur enginn vafi. Hinsvegar er ógnin um hryðjuverk eða önnur voðaverk enn fyrir hendi og Keflavík er mikilvæg enn í dag vegna staðsetningar sinnar fyrir t.d. Bandaríkin. Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið traustir bandamenn Bandaríkjamanna og margsinnis lagt þeim lið í þeim málum sem þeir hafa veitt forystu á alþjóðavettvangi. Ef starfsemi bandaríska hersins verður stokkuð upp munu Íslendingar leita annarra leiða til að verja landið. En nú reynir á hvaða hug bandarísk stjórnvöld bera í raun til Íslendinga og hvaða augum þeir líta á gott samstarf landanna þegar kemur að því að horfa fram á veginn eftir að þessi einhliða ákvörðun forsetans liggur fyrir. Nú þarf að búa svo um hnútana að hér verði áfram sýnilegar lágmarksvarnir þannig að við höfum það sem við teljum nauðsynlegt í þeim efnum þótt þessar þotur hverfi á þessu ári.
Íslensk stjórnvöld leggja væntanlega mikla áherslu á að viðræðum sé hraðað því að brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan í varnarmálum. Það skiptir gríðarlega miklu máli að kortlagt sé hvað taki nú við á þessum krossgötum sem nú hafa orðið í því hlutverki sem Bandaríkin hafa gegnt í varnarmálum Íslands stærstan hluta þess tíma sem liðið hefur frá lokum seinni heimsstyrjaldar fyrir sex áratugum. Það er mikilvægt að við fetum réttan stíg á þessum krossgötum.
<< Heim