Olmert og Kadima á sigurbraut í Ísrael
Nú þegar að aðeins nokkrir dagar eru til þingkosninga í Ísrael bendir nær allt til þess að Kadima, nýstofnaður flokks Ariels Sharons forsætisráðherra Ísraels, vinni afgerandi sigur og leiði ísraelsk stjórnmál næstu árin. Skugga fellur á væntanlegan sigur að maðurinn sem stofnaði flokkinn með miklum hvelli undir lok síðasta árs liggur í dái á sjúkrahúsi í Jerúsalem, og hefur gert allt frá því að hann fékk alvarlegt heilablóðfall fyrir tæpum þrem mánuðum, þann 4. janúar sl. Litlar sem engar líkur eru á því að jarðýtan, eins og Ariel Sharon var alltaf nefndur í ísrelskum stjórnmálum, snúi aftur á hið pólitíska svið og eru meiri líkur á því en minni að hann liggi banaleguna þessar vikurnar. Kadima er nýr flokkur en nýtur alþýðuhylli. Umfram allt er það vegna þess að Sharon er mikils metinn af löndum sínum og er enn vinsælasti stjórnmálamaður landsins, þrátt fyrir veikindin.
Ehud Olmert starfandi forsætisráðherra Ísraels, fer fyrir Kadima og hefur stýrt flokknum í gegnum veikindi Sharons og mun verða forsætisráðherra Ísraels að loknum kosningunum væntanlega. Ef marka má skoðanakannanir nýtur Olmert trausts þjóðarinnar til forystu. Mikið tómarúm hefur verið í ísraelskum stjórnmálum eftir veikindi Sharons og snögglegt brotthvarf frá stjórnmálaforystu. Þetta tómarúm hefur Ehud Olmert fyllt í huga Ísraela. Vandinn sem blasti við Olmert í ársbyrjun var auðvitað tvíþættur. Í fyrra lagi var ekki formlega búið að byggja Kadima upp sem stjórnmálaflokk áður en Sharon veiktist - hann var stofnaður utan um áherslur Sharons og vinsældir hans sem stjórnmálamanns. Í seinna lagi blasti við honum það verkefni að stjórna Ísrael í þá 100 daga sem liðu frá veikindum Sharons til kosninga og halda með trúverðugum hætti þeim öfluga svip sem var á landsstjórninni á taflborði stjórnmálanna undir stjórn Sharons þrátt fyrir að hún væri í raun fallin.
Olmert tókst að koma standandi frá þessari miklu pólitísku áskorun og er í huga landsmanna sigurvegari kosningabaráttunnar. Við blasir að hann muni einnig eftir 28. mars verða hinn nýji sterki þjóðarleiðtogi sem tekur á málunum með krafti. Olmert var ekki öfundsverður af sínu hlutskipti í upphafi ársins. Það var þó margt sem varð til þess að hjálpa honum. Hann naut óskoraðs stuðnings innan Kadima til forystustarfa að Sharon burtkvöddum og naut trausts til að halda áfram á sömu braut og honum auðnaðist. Hann hefur enda ásýnd leiðtogans og þess forystumanns sem bæði Ísrael þarfnast nú þegar að Sharon hefur væntanlega sagt sitt síðasta í stjórnmálabaráttu. Mest af öllu munaði honum um það að lykilmenn Sharonstímans sem ráðlögðu honum og treystu fylktu sér að baki Olmert og engin lykilbreyting varð er Sharon hvarf svo óvænt burt. Olmert tók við sverði og skildi Sharons og hélt áfram alveg ótrauður.
Ehud Olmert, sem fæddur er árið 1945, og er því tæplega tveim áratugum yngri en Sharon, er einn nánasti samstarfmaður Sharons og fylgdi honum úr Likud um leið og Sharon fór úr honum. Olmert var borgarstjóri í Jerúsalem í tíu ár, árin 1993-2003, og hefur gegnt fjórum ráðherraembættum á ferlinum. Hann var fjármálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra í stjórn Sharons. Segja má að Olmert sé mjög líkur Sharon á hinu pólitíska taflborði og hafi verið sá eini sem hefði getað tekið við við keflinu af Sharon og leitt hjörðina saman í kosningar við þessar aðstæður sem við blöstu. Olmert hefur bæði kraftinn og styrkleikann sem þurfti til þess að leysa Sharon af hólmi - mann sem hafði verið lykilmaður á pólitísku taflborði Ísraels í meira en 40 ár.
Það stefnir í áhugaverðar kosningar í Ísrael á þriðjudaginn. Forvera Sharons á leiðtogastóli í Likud, Benjamin Netanyahu, sem verið hafði forsætisráðherra Ísraels 1996-1999 og leiðtogi Likud 1993-1999, hefur mistekist að höfða til þjóðarinnar að þessu sinni og blasir við að verði fylgi Likud í takt við kannanir að pólitískum ferli hans ljúki með miklum hvelli. Sama má segja um Verkamannaflokkinn sem hefur ennfremur mistekist að vega að Olmert og Kadima. Það stefnir því í góðan kosningasigur Kadima og allar líkur eru á því að baráttumaðurinn Ehud Olmert myndi brátt eigin ríkisstjórn í Ísrael.
Það segir enda margt um stöðuna að alþjóðlegir fréttaskýrendur velta mest vöngum yfir því hversu mikið fylgi Kadima og Olmert verði. Nú er bara að fylgjast með því hvort að pólitískt hugarfóstur Ariel Sharon verði það forystuafl sem altént hann stefndi ótrauður að yrði að veruleika, en náði ekki sjálfur að leiða. Fari svo sem allt bendir til munu augu allrar heimsbyggðarinnar verða á baráttujaxlinum frá Jerúsalem eftir helgina.
<< Heim