Vönduð leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar
Það voru margir undrandi undir lok janúarmánaðar þegar að tilkynnt var að Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins, flaggskips Baugsmiðlanna hjá 365-prentmiðlum. Þorsteinn hafði þá fyrir stuttu lokið störfum í utanríkisþjónustunni en hann var á sex árum sínum sem sendiherra starfandi sem slíkur í London og Kaupmannahöfn. Í þau verkefni fór hann að stjórnmálaferlinum loknum en hann var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi 1983-1999, forsætisráðherra 1987-1988 og formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991. Hann gegndi á þeim ferli sínum fjölda ráðherraembætta auk forsætisráðherraembættis, en hann var fjármálaráðherra 1985-1987, iðnaðarráðherra 1987 og sjávarútvegs- dóms- og kirkjumálaráðherra 1991-1999.
Þorsteinn var ekki nema 52 ára gamall er hann vék af hinu pólitíska sviði og hélt út til sendiherrastarfa. Hann var aðeins 58 ára er hann hætti þeim störfum í haust og margir veltu þá vöngum yfir því hvað tæki þá við, enda bjuggust fáir við að hann myndi setjast með hendur í skaut með mörg herrans ár enn eftir af virkum starfsárum. Lengi var spáð í það hvort að hann yrði ritstjóri Morgunblaðsins og væri ætlað að taka við blaðinu er Styrmir Gunnarsson myndi fara á eftirlaun. Svo fór þó ekki og niðurstaðan varð sú að hann settist að við Skaftahlíð og tók við Fréttablaðinu - því dagblaði sem útbreiddast er hérlendis skv. fjölmiðlakönnunum seinustu árin. Þorsteinn var enginn nýgræðingur á ritstjórastóli hjá prentmiðli, enda var hann ritstjóri dagblaðsins Vísis 1975-1979, áður en hann tók við starfi framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands. Á þeim tíma vakti Þorsteinn athygli fyrir lífleg og góð leiðaraskrif og vekja athygli með skoðunum sínum á mönnum og málefnum.
Mér hefur fundist í senn fróðlegt og áhugavert að lesa leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar eftir að hann kom sér fyrir á ritstjóraskrifstofum Fréttablaðsins við Skaftahlíð. Þar skrifar enda lífsreyndur maður með mikla og fjölþætta reynslu af lífinu og tilverunni. Þar talar reyndur maður á sviði stjórnmála og fjölmiðla og er ennfremur vel kunnugur lífinu utan landsteinana. Þorsteinn er enda víðsýnn maður og getur skrifað með jafnöflugum hætti um alþjóðastjórnmál sem hina hversdagslegu rimmu íslenskra stjórnmála. Þorsteinn Pálsson hefur skrifað líflega og kraftmikla leiðara í Fréttablaðinu að mínu mati seinustu vikurnar og ég hef af mun meiri áhuga lesið leiðaraskrifin en áður hjá því annars ágæta blaði. Það er mjög áhugavert að kynna sér skoðanir Þorsteins og ekki síður að sjá hver afstaða hans er til hitamála, jafnt hér heima sem og erlendis. Sérstaklega hefur mér þótt áhugavert að lesa skrif hans um hitamálið hér heima þessa stundina, varnarmálin.
Í leiðurum Þorsteins Pálssonar heldur á penna maður sem er veraldarvanur á flestum sviðum. Skrifin eru enda þess eðlis að þau vekja athygli. Þar talar maður sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra og jafnframt verið dómsmálaráðherra. Það efast því enginn um það að hann sé öflugur penni með víðtæka reynslu og þekkingu. Ég tel að Fréttablaðið hafi öðlast mun betri ásýnd með innkomu Þorsteins í forystusveit blaðsins. Með hann og Kára Jónasson við stjórnvölinn hefur Fréttablaðinu tekist að fá flottari og reynslumeiri ásýnd en blaðið hafði meðan að Gunnar Smári Egilsson var þar og ritaði leiðara. Þeir leiðarar misstu oft marks og þóttu vera í senn lágkúrulegir og yfirgripslitlir. Það verður seint sagt um skrif Þorsteins Pálssonar sem eftir langa fjarveru frá stjórn prentmiðla hefur snúið aftur á þenn vettvang reynslunni ríkari og skrifar sem maðurinn með reynsluna og kraftinn.
Ég fylgist með skrifum hans af áhuga og skemmti mér yfir skrifunum. Þar talar maður sem miðlar reynslu á víðtækum vettvangi til lesenda og kryddar leiðarana ennfremur með víðsýni og fróðleik. Það er alltaf gaman af slíkum pennum. Ég fagna því að skoðanir Þorsteins birtist okkur á þessum vettvangi. Það er alltaf gaman af öflugum mönnum með skoðanir og fróðlega yfirsýn á stöðu nútímastjórnmála og miðlar reynslu þess sem gerst hefur áður í leiðaraskrifum.
<< Heim