Málefnafundur Varðar í kvöld
Í kvöld ætlum við hjá Verði að hefja formlega kosningastarf okkar fyrir komandi kosningar með fundi í Kaupangi undir yfirskriftinni "Hvað vill ungt fólk á Akureyri?" Ætlum við þar að bjóða öllu ungu fólki sem er áhugasamt um bæjarmálin til að ræða við okkur um áherslur sínar í stórum málaflokkum í komandi kosningum: atvinnu-, skóla- og forvarnamál. Fundurinn verður mjög léttur og fyrst og fremst ætlað að vera pólitískt skemmtilegur og líflegur. Þegar að þátttakendur hafa skipt sér upp í vinnuhópa tekur við vinna í málaflokkunum og er ætlað að hóparnir róterist á kortérs fresti þar til að allir hafa setið í öllum málaflokkum og innlegg allra í hvern málaflokk hafa komist að. Þetta skapar líflegt og gott fundaform og allir fá að segja sitt um öll mál.
Í miðjunni ætlum við að fá okkur léttar veitingar og spjalla og að því loknu munu hópstjórar kynna hugmyndir hópanna og tillögur þeirra. Fundarstjóri er María Marinósdóttir, frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í vor en hópstjórar verða ég, Hanna Dögg Maronsdóttir og Jóna Jónsdóttir. Væntum við skemmtilegra umræðna og líflegs kvölds. Ég hvet alla áhugasama um bæjarmálin og vilja leggja sitt af mörkum í málefnavinnu okkar að mæta og taka þátt. Hittumst hress í kvöld!
Saga dagsins
1663 Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskupsdóttir, lést í Skálholti, 21 árs að aldri - við útför Ragnheiðar var sálmur sr. Hallgríms Péturssonar, Allt eins og blómstrið eina, fluttur í fyrsta skipti. Einn þekktasti sálmur landsins og er hann sá sálmur sem oftast er spilaður við jarðarfararathafnir í kirkjum landsins.
1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - tilkoma Sundhallarinnar markaði talsverð þáttaskil í íþróttamálum hérlendis.
1950 Leikkonan Olivia de Havilland hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á hefðarmaddömunni Catherine Sloper í kvikmyndinni The Heiress - De Havilland hlaut áður óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í To Each his Own. Hún var ein vinsælasta leikkona gullaldarsögu Hollywood og túlkaði margar sterkar kvenpersónur á hvíta tjaldinu. De Havilland hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag að kvikmyndum í mars 2003.
1998 Leikarinn Jack Nicholson hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun sína á sérvitringnum Melvin Udall í kvikmyndinni As Good as it Gets. Þetta var þriðji óskar hans, en hann hafði áður hlotið verðlaunin fyrir leik sinn í One Flew Over the Cuckoo´s Nest og Terms of Endearment. Hefur verið tilnefndur til verðlaunanna tólf sinnum, oftar en nokkur annar karlleikari. Á þessari sömu óskarsverðlaunahátíð hlaut kvikmyndin Titanic alls ellefu óskarsverðlaun. Titanic varð vinsælasta kvikmynd 20. aldarinnar í bíó.
2003 Breska leikkonan Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir litríka túlkun sína á skassinu Velmu Kelly í Chicago.
Snjallyrðið
A loving heart is the beginning of all knowledge.
Thomas Carlyle heimspekingur (1795-1881)
<< Heim