Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 mars 2006

Spádómar Framsóknarleiðtogans

Stefán Friðrik

Seinustu vikur hefur mikið verið talað í fjölmiðlum um spádómsgáfu forsætisráðherrans, Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins. Nýlega gekk hann skrefið til fulls í ESB-spádómum sínum og spáði því að Ísland væri orðið aðili að ESB innan áratugar, nánar til tekið árið 2015. Á sama tíma varð forsíðufregn í Fréttablaðinu að forsætisráðherrann spáði Chelsea sigri í fótboltaleik sama dag og hann hitti Tony Blair í Downingstræti 10. Leikurinn tapaðist hjá Eið Smára og félögum og síðan hefur forsætisráðherrann lítið opinberað snilli sína í getraunagiski. Reyndar missteig hann sig verulega er hann talaði um að hann væri fyrsti forsætisráðherra landsins sem sótti forsætisráðherra Bretlands heim í embættisbústað hans að Downingstræti 10 frá árinu 1976. Móðgaði hann þar Steingrím Hermannsson, forvera sinn á formannsstóli, verulega – hann hafði enda heimsótt frú Margaret Thatcher í desember 1988. Klúður framsóknarleiðtogans var vandræðalegt. Steingrímur var fljótur að leiðrétta eftirmann sinn opinberlega.

Svo virðist sem að Halldór Ásgrímsson hafi styrkst á valdastóli eftir að Davíð Oddsson sté af hinu pólitíska sviði. Reyndar verður seint sagt að Halldór hafi náð að verða jafn öflugur á valdastóli og Davíð varð á 13 ára sögulegum ferli sínum sem forsætisráðherra og formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins. Fram að brotthvarfi Davíðs hafði Halldór aldrei verið veikari í sessi í forystu flokksins. Samt hefur gengi hans og flokksins verið brokkgengt. Flest virtist ganga honum í óhag á árinu 2004 - hver könnunin eftir annarri birtist sem sýndi dalandi persónufylgi hans og hann virkaði mjög veiklulegur pólitískt á árinu. Hann hefur aðeins rétt úr kútnum seinustu mánuðina, en samt ekki tekist að ná yfirburðarstöðu. Staða Framsóknarflokksins er mjög veik og hefur reyndar ekki verið veikari allan stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar landsins. Satt best má segja það með afgerandi hætti að Framsóknarflokkurinn virki á stjórnmálaáhugamann eins og mig eins og sífellt minnkandi flokkur sem á sífellt minni möguleika á að ná ráðandi stöðu eftir næstu kosningar.

Deilur um Evrópumál hafa einkennt Framsóknarflokkinn. Þess sáust skýr og afgerandi merki á flokksþingi Framsóknarflokksins í febrúar 2005. Átök og erjur voru einkunnarorð þingsins hvað varðaði Evrópustefnu flokksins. Þar var ekki bara tekist á í lokuðum herbergjum um stefnuna og stöðu mála, heldur fyrir opnum tjöldum. Var mjög merkilegt að sjá þar formanninn og varaformanninn Guðna Ágústsson rífast um það mál og opinbera með því mjög ólíka sýn til Evrópusambandsins og málefna tengdu því. Segja má að þessi átök eigi rót sína að rekja nokkur ár aftur. Engin launung er á því að Halldór Ásgrímsson gerðist mjög ESB-sinnaður á síðasta kjörtímabili og vildi að flokkurinn færi fram með þau mál í kosningum. Svo fór ekki, flokkurinn studdi ekki þá afstöðu. Eftir kosningarnar 2003 hefur Halldór verið mun rólegri í tíðinni og lítið gerst í þessum málum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem endurmynduð var í maí 2003 eftir kosningarnar, kom enda skýrt fram að aðildarviðræður við ESB væru ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili.

Það var alveg ljóst að sprengju var varpað inn í íslenska pólitík þegar drög að ályktunum flokksþings framsóknarmanna voru kynnt í aðdraganda flokksþingsins 2005. Lagt var til í utanríkismálakaflanum að aðildarviðræður myndu hefjast við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili og að kosið yrði um aðild að ESB, eigi síðar en í alþingiskosningum árið 2011. Þetta var mikil stefnubreyting af hálfu flokksins, hann hafði enda aldrei stigið þetta skref fyrr og um var auðvitað að ræða mál sem var algjörlega í ósamræmi við stjórnarsáttmálann. Var með ólíkindum að fylgjast með þessu dómgreindarleysi framsóknarmanna og vinnubrögðum þeirra. Þessi drög urðu þó umfram allt til að afhjúpa hversu djúpstæður ágreiningur var uppi um stöðu mála innan flokksins. Guðni Ágústsson sté fram og sagði tillögurnar ekki sér að skapi og kom með það mat sitt að ekkert hefði gerst sem hefði breytt stöðu mála. Vildi hann halda í fyrri stefnu og með því styrkja EES-samninginn. Fór svo að ályktunin var samþykkt sem útvötnuð ESB-pæling en ekkert meira.

Hefði ályktun af þessum toga verið samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna hefði án vafa hrikt mjög í stoðum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það varð ekki og forystumenn Framsóknar beygðu sig undir vilja andstæðinga aðildar. Stóra rullu í þeirri þróun spilaði aðkoma Steingríms Hermannssonar fyrrum forsætisráðherra. Hann sté þar í pontu og gagnrýndi mjög harkalega Evrópusinnana í flokknum. Þrátt fyrir að ESB-andstæðingar innan flokksins hafi haft þar sigur varð það ekki til að stöðva Halldór og hans fylgismenn í flokknum. Nú er ESB-tal hans hafið og eiginlega markar það þáttaskil að hlusta á forsætisráðherra Íslands tala nú um aðild sem afgerandi möguleika á næsta áratug. Blasað hefur við vilji formannsins að gera ESB að kosningamáli í næstu kosningum og koma umræðunni af stað. Greinilegt er að stefnt er að því að setja Evrópumálin inn sem kosningamál á næsta flokksþingi sem væntanlega verður undir lok þessa árs, en Framsóknarflokkurinn fagnar 90 ára afmæli sínu á þessu ári. Er hann elsti starfandi flokkur landsins.

Það má vel vera að Framsóknarflokkurinn ætli að gerast Evrópusinnaðri en Samfylkingin í aðdraganda þingkosninganna 2007. Ef svo er þarf hann fyrst að takast á við andstæðinga aðildar innan flokksins. Þeir eru svo sannarlega til staðar og gott dæmi er varaformaður flokksins, landbúnaðarráðherrann Guðni Ágústsson. Hinumegin eru svo t.d. Halldór og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, sem oftar en einu sinni hefur opnað á aðildarpælingar að ESB. Ekki get ég spáð með afgerandi hætti um það hvort að aðild að ESB verði eitt af aðalbitbeinum kosningabaráttunnar á næsta ári en hitt er víst að það verður umdeilt mál, enda er meirihluti þjóðarinnar greinilega ekki fylgjandi aðild. ESB-draumsýn Halldórs eru engin tíðindi enda hefur hann svo oft opnað á þessar pælingar sínar. En hvort honum tekst að koma stefnu sinni í gegnum flokkskerfið í aðdraganda næstu kosninga skal ósagt látið. Hinsvegar má búast við að það muni skekja undirstöður flokksins ef sú verður raunin og varla við því að búast að hinn aldni flokkur standist þær væringar sem fylgdu því.

En það er svosem ekki undrunarefni að forsætisráðherrann vilji trúa því að Ísland verði orðið aðili að ESB innan 2015. Ekki er það þó glæsileg framtíðarsýn eða spádómur og ekki deili ég gleði hans yfir þeim pælingum og spámennsku sem hann kynnti nýlega. Efast ég reyndar um að við sjálfstæðismenn deilum þeim fögnuði forsætisráðherrans og satt best að segja er það skýr afstaða landsfundar og forystu okkar að taka ekki þátt í því draumahjali. Ef þetta verður aðalmál kosningabaráttu má því búast við afgerandi ágreiningi stjórnarflokkanna hvað varðar þetta mál. Ekkert annað er í spilunum eins og er. Afstaða okkar í Sjálfstæðisflokknum er enda skýr og afgerandi hvað varðar ESB og mögulegt tal um aðild að því stóra og óaðlaðandi bákni.

Saga dagsins
1940 Þýsk herflugvél réðst að togaranum Skutli frá Ísafirði - fyrsta árásin að íslensku skipi í stríðinu.
1956 Bandarísk herflutningavél með 17 manns innanborðs hrapaði í sjóinn við Reykjanes - allir fórust.
1957 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík vígð - tók 7 ár að byggja hana og var fyrsti hlutinn vígður 1953.
1982 Bíóhöllin opnaði í Breiðholti - það rúmaði 1040 manns í sæti í sex sölum. Bíóhöllin þótti án vafa vera höll í kvikmyndamálum þá. Bygging hennar og opnun markaði mikil þáttaskil í bíómálum hérlendis.
2000 Augusto Pinochet fyrrum forseta Chile, var sleppt úr stofufangelsi í Bretlandi - Pinochet hafði verið haldið þar frá októbermánuði 1998, vegna afbrota sinna á valdatíma stjórnar sinnar, 1973-1990.

Snjallyrðið
Life can only be understood backwards; but it must be lived forwards.
Søren Kierkegaard heimspekingur (1813-1855)