Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 apríl 2006

15 ár frá stjórnarmyndun Davíðs Oddssonar

Davíð Oddsson

Í dag eru 15 ár liðin frá því að Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína. Nokkrum vikum áður hafði hann fellt Þorstein Pálsson af formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum og leitt Sjálfstæðisflokkinn í kjölfar þess til kosningasigurs í þingkosningum. Í ríkisstjórn þeirri sem tók við völdum þann 30. apríl 1991 sátu fyrir Sjálfstæðisflokkinn auk Davíðs: Friðrik Sophusson fjármálaráðherra, Þorsteinn Pálsson sjávarútvegs- dóms- og kirkjumálaráðherra, Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra og Halldór Blöndal landbúnaðar- og samgönguráðherra. Samstarfsflokkurinn var Alþýðuflokkurinn undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar sem varð utanríkisráðherra. Auk hans sátu þar Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Sighvatur Björgvinsson heilbrigðisráðherra, og Eiður Guðnason umhverfisráðherra.

Stjórnin leið undir lok eftir þingkosningarnar 1995 en miklar væringar höfðu orðið innan hennar á árinu 1994 með afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðmundar Árna Stefánssonar. Jóhanna yfirgaf Alþýðuflokkinn eftir tap í formannskjöri og stofnaði eigin flokk en Guðmundur Árni hrökklaðist frá vegna hneykslismála. Stjórnin hélt meirihluta sínum í kosningunum 1995, þvert á margar spár, en Davíð taldi ekki gerlegt að halda samstarfinu áfram vegna fyrri erfiðleika. Mynduð var stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs. Sú stjórn situr enn rúmum áratug síðar. Davíð gegndi forsæti í ríkisstjórn samfellt í 13 og hálft ár og lét af embættinu 15. september 2004. Davíð sat á 13 ára forsætisráðherraferli í forsæti fjögurra ríkisstjórna. Sátu alls 30 ráðherrar undir hans stjórn í þessum fjórum ríkisstjórnum. Á ferlinum stýrði Davíð alls 960 ríkisstjórnarfundum.

Enginn vafi leikur á því að á 13 ára forsætisráðherraferli Davíðs Oddssonar ávannst margt og breytingar voru miklar á þjóðfélaginu á þessum langa tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Það tókst að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins í samstarfi við þá flokka sem með honum unnu á þessum tíma. Davíð tókst með leiðtogahæfileikum og baráttukrafti forystu Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum á þessu skeiði.

Davíð Oddsson varð utanríkisráðherra við hrókeringar innan ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks haustið 2004. Tæpu ári síðar boðaði hann brotthvarf sitt úr íslenskum stjórnmálum á blaðamannafundi í Valhöll og ákvað að láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Þá hafði hann verið formaður flokksins í 5.335 daga. Aðeins Ólafur Thors hafði þá verið lengur formaður flokksins. Það er alveg óhætt að segja það að flestir sjá eftir Davíð Oddssyni úr hringiðu stjórnmálanna hér á Íslandi. Stjórnmálalitrófið varð mun litlausara við brotthvarf hans. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum. Í þann aldarfjórðung sem Davíð Oddsson var í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík var hann lykilmaður og mikil viðbrigði því er hann hætti.

Ég er einn þeirra sem sakna Davíðs úr forystusveit stjórnmála. Mér finnst pólitíkin vera daufari og ekki eins heillandi eftir að hann fór. Það er bara mín tilfinning. Kannski er það vegna þess að ég vann svo lengi í flokknum undir forystu hans og leit upp til hans sem leiðtoga og stjórnmálamanns. Annars finnst mér fleiri tala svona en ég og ekki er það allt sjálfstæðisfólk. Hann var þannig stjórnmálamaður að talaði hann hlustuðu allir og hann átti mjög auðvelt með að tala til fólks og gera það með miklum krafti. Hann var stjórnmálamaður sem talaði í fyrirsögnum eins og einn núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það svo skemmtilega á síðasta ári.

En Davíð þorði líka að stuða. Hann var stjórnmálamaður sem eftir var tekið. Stjórnmálamaður sem setti ævarandi svip á íslenska pólitík. Það er við hæfi að minnast hornsteinanna á löngum stjórnmálaferli hans í dag.