Ljóðasnilli Davíðs frá Fagraskógi
Þessa dagana er ég enn einu sinni að lesa ljóðasafn Davíðs frá Fagraskógi. Davíð hefur mjög lengi verið mitt uppáhaldsljóðskáld. Ljóð hans eru full af tilfinningu og þar er taug beint til þess sem les þau. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Hann allavega talar til hjartans míns - þess vegna er hann ávallt í heiðurssessi þessa vefs þegar ljóð eru annarsvegar.
Eitt af hans bestu ljóðum er Mold. Seinni hluti þess hljómar svo:
Fyrst er gleði og svo kemur nótt.
Svartnættið er eins og svalandi veig,
og sál þín drekkur í einum teyg.
Þreytan breytist í þökk og frið,
þögnin í svæfandi lækjarnið,
haustið í vor...
Hafðu þökk fyrir öll þín spor.
Það besta sem fellur öðrum í arf,
er endurminning um göfugt starf.
Moldin er þín.
Moldin er trygg við börnin sín,
sefar alla, söknuð og harm
og svæfir þig við sinn móðurbarm.
Grasið hvíslar sitt ljúfasta ljóð
á leiðinu þínu. Moldin er hljóð
og hvíldin góð.
<< Heim