Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 apríl 2006

Gísli S. Einarsson yfirgefur Samfylkinguna

Gísli S. Einarsson

Það eru svo sannarlega stórtíðindi að Gísli S. Einarsson fyrrum alþingismaður Alþýðuflokksins og Samfylkingarinnar, hafi ákveðið að segja skilið við Samfylkinguna og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi. Mun hann verða bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Gísli er þekktur og vinsæll á Skaganum, enda verið viðloðandi margt í sínum heimabæ og notið virðingar og stuðnings íbúanna þar. Það er í senn klókt og flott hjá Gunnari Sigurðssyni bakara og leiðtoga Sjálfstæðisflokksins á Skaganum, að óska eftir liðsinni Gísla við að sigra kosningarnar á Skaganum í vor - landa öflugum bæjarstjórnarmeirihluta og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs og gera Gísla að bæjarstjóra í sínum heimabæ.

Gísli hefur lengi verið í pólitíkinni. Hann varð þingmaður Alþýðuflokksins í Vesturlandskjördæmi sumarið 1993 er Eiður Guðnason varð sendiherra og sat á þingi allt til ársins 2003, seinasta kjörtímabilið fyrir Samfylkinguna. Hann náði ekki kjöri í seinustu kosningum á lista flokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi. Það hefur blasað við um nokkuð skeið að leiðir Gísla og forystu Samfylkingarinnar höfðu skilið. Hann var ekki sáttur við uppstillingu framboðslista Samfylkingarinnar fyrir þingkosningarnar 2003 og taldi sína stöðu ekki góða. Það fór með Gísla eins og svo marga krata í Samfylkingunni að þeir leituðu annað og horfðu þá til Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum. Það er mikil blóðtaka fyrir Samfylkinguna á Akranesi að sjá á bak Gísla Einarssyni, þingmanni sínum og forystumanni til fjölda ára.

En um leið er það styrkleiki fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi að fá Gísla í sínar raðir - vonandi verður hann bæjarstjóri á Skaganum eftir næstu kosningar. Það verður sterk og öflug forysta sem leiðir Sjálfstæðisflokkinn á Skaganum í kosningunum í vor - breiður og góður hópur fólks. Kannast örlítið við Gísla og veit að þar fer kjarnamaður. Ég fagna því að hann hafi gengið til liðs við okkur sjálfstæðismenn og um leið sagt skilið við Samfylkinguna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar.