Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 maí 2006

Skýrir valkostir í kosningunum á Akureyri

Akureyri

Í dag birti Gallup nýja könnun sína á fylgi framboðanna sex á Akureyri við sveitarstjórnarkosningarnar á laugardag. Sjálfstæðisflokkurinn fær 30% og þrjá bæjarfulltrúa samkvæmt henni. Flokkurinn fékk fjóra fulltrúa í kosningunum árið 2002, um 36% atkvæða. Langflestir nefna Kristján Þór Júlíusson þegar spurt er hvern menn vilja sjá sem næsta bæjarstjóra á Akureyri, eða 45%. Framsóknarflokkurinn fær í könnuninni 15% og 2 bæjarfulltrúa en fékk 24% og 3 menn í síðustu kosningum. Fylgi Samfylkingarinnar mælist 24% en flokkurinn fékk 14% í síðustu kosningum. Samkvæmt þessu fær flokkurinn 3 bæjarfulltrúa og bætir við sig tveim. Fylgi VG mælist nú 18% og tvöfaldast frá kosningunum og flokkurinn fær 2 bæjarfulltrúa samkvæmt þessu - bætir við sig einum. L-listinn fær 9% samkvæmt könnuninni og 1 bæjarfulltrúa en fékk 18% og 2 menn í kosningunum. Framfylkingarflokkurinn fær 4,2% samkvæmt könnuninni.

Þessi skoðanakönnun er ekki góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri - það er alveg ljóst að verði hún að veruleika munu stjórnarskipti blasa við hér. Hún hvetur okkur sjálfstæðismenn til að snúa bökum saman og vinna saman af krafti dagana fram til kjördags. Valkostirnir virðast vera skýrir: farsæl forysta Kristjáns Þórs í tveggja flokka samstarfi eða þriggja flokka vinstristjórn. Verði þessi könnun að veruleika blasir að mínu mati ekkert nema vinstristjórn við. Ég hvet bæjarbúa til að koma í veg fyrir vinstristjórn með atkvæði sínu á laugardag og kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Með því er tryggt að Kristján Þór verði áfram bæjarstjóri til næstu fjögurra ára. Kristján Þór gaf skýra yfirlýsingu í Kastljósi í kvöld að hugur hans stefndi á bæjarmálin og var sú yfirlýsing svo skýr að allt þingframboðstal ætti að vera úr sögunni fyrir andstæðinga okkar sem hafa dreift þeim kjaftasögum að hann sé að fara og Sigrún Björk sé á leið til útlanda.

En staðan virðist mjög skýr og valkostirnir eru ennþá skýrari. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn á laugardag og komum í veg fyrir vinstristjórn á Akureyri. Það er ljóst að bæjarbúar vilja Kristján Þór áfram sem bæjarstjóra. Eina leiðin til að tryggja það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn undir hans forystu.