Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 maí 2006

Stefnir í spennandi kosningar í Reykjavík

Ráðhús Reykjavíkur

Fimm dagar eru til kosninga og spennan eykst sífellt nú á lokaspretti kosningabaráttunnar. Fram til kosninga mun RÚV birta á hverjum degi kannanir frá Gallup á stöðu mála í Reykjavík. Skv. könnun sem birt var í gær hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur hreinan meirihluta en er við þau mörk með rétt um 44% fylgi. Það sannast þar hið fornkveðna að flokkurinn getur unnið kosningarnar með undir 45% fylgi með hagstæðri skiptingu fylgis smáframboðanna. Falli stór hluti atkvæða niður dauð getur sigur flokksins orðið ljós með minna fylgi en áður hefur þekkst. Í könnun gærdagsins vantar flokknum herslumuninn á að vinna og stefnir í spennandi kosningar verði staðan eitthvað í takt við þetta. Mikla athygli vekur að Framsóknarflokkurinn er enn í mikilli lægð og hefur ekkert bætt við sig. Staða þeirra er nákvæmlega sú sama og var í Fréttablaðskönnuninni á föstudag og olli undarlegum ummælum Björns Inga Hrafnssonar um stjórnarsamstarfið.

Það er greinilegt á báðum nýjustu könnunum að Frjálslyndi flokkurinn hefur bætt við sig fylgi og mælist nú með Ólaf F. Magnússon öruggan inni. Fari kosningar svona mun Ólafur F. verða í oddastöðu við myndun nýs meirihluta. Það er ekki gott að sjá hver sé ástæðan fyrir fylgisaukningu frjálslyndra, enda hefur flokkurinn ekkert verið að skora með neinum stórmálum á kjörtímabilinu. Það er alveg ljóst að innkoma Guðrúnar Ásmunsdóttur leikkonu, hefur skipt miklu máli fyrir flokkinn við að ná betur til eldri borgara, enda er Guðrún vinsæl og virt leikkona. Flokkurinn hefur reynt mjög að sækja á mið þess að vera velferðarmálaflokkur og festa sig ekki um of á kvótamálin. Ólafur F. talar með þeim hætti nú að baráttan standi um að tryggja Margréti Sverrisdóttur kjör í borgarstjórn. Það verður nú að teljast ólíklegt að baráttan standi um hana. Ég tel mjög ólíklegt að Frjálslyndir haldi þessum dampi til kjördags.

Samfylkingin hækkar sig örlítið. Mikla athygli vekur að Samfylkingin mælist með sex menn inni á rétt rúmlega 30% fylgi. Það verður því að teljast afskaplega ólíklegt að staðan sé með þessum hætti. Þegar að ég leit á tölurnar fannst mér óraunhæft að sjötti maðurinn væri þeirra. Mun líklegra er að áttundi maður Sjálfstæðisflokksins komist inn í þessari stöðu. Vekur athygli allavega að Gallup merki Sigrúnu Elsu frekar inni en Sif Sigfúsdóttur. Mjög merkilegt er hversu lítið VG bætir við sig. Virðist flokkurinn ekkert vera að hagnast á því að hafa konu sem leiðtoga framboðslistans. Er þó ljóst að Svandís Svavarsdóttir þykir hafa staðið sig vel en neista vanti í framboðið sem slíkt. Eru greinilegar raddir innan Samfylkingar sem heyrast nú um að það hefði verið betra fyrir flokkinn að tefla fram Steinunni Valdísi en Degi. Steinunn hefði í stöðunni verið öflugra borgarstjóraefni enda þykir mörgum sem að Dagur sé mistækur.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík á í miklum vandræðum. Flokkurinn mjakast ekkert áfram þrátt fyrir þrótt og kraft í leiðtoganum sem hefur verið duglegur að tjá sig um málefnin í baráttunni. Verði úrslit kosninganna á laugardag eitthvað í líkingu við þetta mun verulega hrikta í stoðum Framsóknarflokksins - ekki bara í borginni heldur á landsvísu enda er svipuð staða að kristallast um allt land eins og vel hefur komið fram. Það sem vekur mesta athygli mína er hvernig Björn Ingi talar þessa dagana. Hann virðist vera kominn á taugina vegna stöðunnar. Ekki er það undrunarefni. Mér, rétt eins og flestum, leikur forvitni á að vita hvað gerist innan innsta kjarna flokksins verði þessi úrslit að veruleika.

Afhroð flokksins um allt land getur enda varla skrifast á aðra en formann flokksins og lykilmenn hans, þ.m.t. leiðtogann í Reykjavík sem er hægri hönd hans í Stjórnarráðinu.