Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 maí 2006

Framboðsfrestur liðinn

Akureyri

Framboðsfrestur vegna sveitarstjórnarkosninganna þann 27. maí sl. rann út í gær, en þá voru þrjár vikur til kosninganna. Hér á Akureyri stefnir nú í spennandi lokasprett kosningabaráttunnar og öll framboð komin á fullt. Sex framboð skiluðu inn gildum pappírum hér á Akureyri í gærmorgun og verða því öll í boði þann 27. maí. Um er að ræða framboð Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Lista fólksins og Framfylkingarflokksins. Öll framboðin nema það síðastnefnda buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum 2002. Stefnir því í svipaðar kosningar og verið hefur og lítið um breytingar sé framboð Framfylkingarflokksins undanskilið. Það er framboð ungs fólks á Akureyri og er leitt af Hólmari Erni Finnssyni.

Að margra mati greinilega vantar rödd ungs fólks í forystu bæjarmálanna. Það vekur allavega athygli að framboð ungs fólks takist að koma á fót framboðslista og safna meðmælendum með þeim hætti sem krafist er. Það hefur ekki gerst hér áður á Akureyri að ungt fólk bjóði fram sérstaklega og vekur mikla athygli. Eftir prófkjör flokkanna hér fyrr á árinu var spurt víða hvort ungu fólki væri ekki treyst til stjórnmálaforystu og í framboð innan stóru flokkanna. Allavega vöktu prófkjörsúrslit marga til umhugsunar um þau mál. Hvort það hafi leitt eitt og sér til þessa framboðs skal ósagt látið en væntanlega hefur það haft áhrif um það að sumt þetta fólk vill sækja fram á eigin vegum og vera með framboð sem sérstaklega eigi að höfða til ungliðanna. Verður fróðlegt að sjá hvernig þeim muni ganga.

Það hefur verið rólegt yfir kosningabaráttunni hér. Eins og allir vita sem verið hafa hér í kringum kosningar er aðalbaráttan hér seinasta mánuðinn og einkum síðustu 20 dagana. Tel ég að þetta verði snörp og öflug kosningabarátta. Aðalátakapunktarnir virðast vera fáir, enda er stjórnarandstaðan hér frekar vopnlítil sem vart er undarlegt sé litið á stöðu sveitarfélagsins. Hjá okkur sjálfstæðismönnum hafa margir litið við á kosningaskrifstofuna og þar er góð stemmning. En nú liggur fyrir hverjir eru andstæðingarnir í þessum kosningum og pólitíska landslagið verður lítið breytt í þessum kosningum. Öll framboðin sem voru síðast fara fram aftur og eitt bætist við að auki.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig lokasprettur kosningabaráttunnar spilast og hver úrslit verða eftir 20 daga.