Mikil uppstokkun í bresku ríkisstjórninni
Nokkrum klukkutímum eftir að ljóst varð að breski Verkamannaflokkurinn beið afhroð í sveitarstjórnarkosningum hefur Tony Blair forsætisráðherra, stokkað rækilega upp í ríkisstjórn sinni. Það blasti við að taka þyrfti til en flokkurinn missti tæplega 300 sveitarstjórnarfulltrúa sína um allt Bretland. Blair hefur oft stokkað upp í stjórn sinni en aldrei á níu ára forsætisráðherraferli sínum hefur hann tekið eins rækilega til í innsta kjarnanum og nú blasir við. Tveir ráðherrar eru settir á klakann og sparkað úr stjórninni og einn missir veigamikið hlutverk. Hinn umdeildi Charles Clarke innanríkisráðherra, sem bar ábyrgð á því að erlendum glæpamönnum var ekki vísað úr landi missir stól sinn og Jack Straw utanríkisráðherra, missir embætti sitt og verður forseti neðri deildar þingsins. John Prescott aðstoðarforsætisráðherra, missir veigamikinn sess sem ráðherra sveitarstjórnarmála.
Engum kom á óvart að Clarke yrði fórnað en hann var orðinn gríðarlega óvinsæll undir lokin og búinn að missa stuðning almennings og forsætisráðherrans ennfremur. Hann reyndi þó framan af að verja hann en lætur hann gossa nú eftir afhroðið í kosningunum. Clarke verður óbreyttur þingmaður nú en hann mun hafa hafnað veigaminna ráðuneyti á einkafundi með Blair snemma í morgun. Mörgum að óvörum missir Straw sæti sitt í utanríkisráðuneytinu en hann hefur gegnt embættinu samfellt nú í fimm ár, eða frá þingkosningunum í júní 2001. Straw tekur við hinu verulega veigaminna embætti þingleiðtoga í neðri deildinni. Það er vissulega ráðherraígildi en hinsvegar svo mikil stöðulækkun að eftir er tekið. Söm verða því örlög Straw og forvera hans, Robin Cook, sem varð þingleiðtogi er Blair sparkaði honum í hrókeringunni fyrir fimm árum. Cook sagði af sér því embætti með hvelli vegna Íraksstríðsins, sem olli flein milli hans og Blairs allt þar til að Cook lést í fyrra.
Í kjölfar þessa verður utanríkisráðuneytinu skipt í tvennt og munu tveir ráðherrar sinna verkum þess. Það þykja tíðindi að Margaret Beckett umhverfisráðherra, verði utanríkisráðherra. Hún tekur enda við embættinu fyrst kvenna. Flestir höfðu talið að hún væri á útleið úr breskum stjórnmálum enda verið lengi í pólitík. Hún var varaleiðtogi flokksins í leiðtogatíð John Smith 1992-1994, en hann varð bráðkvaddur þann 12. maí 1994. Beckett var starfandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins í tvo mánuði í sumarið 1994 eða þar til að Blair var kjörinn leiðtogi formlega. Beckett verður áberandi á næstunni í hinu nýja embætti sínu og er þekkt fyrir að vera trygg Blair. Geoff Hoon, sem var varnarmálaráðherra 1999-2005, mun sinna hinum hluta utanríkismálanna og verða ráðherra Evrópumála. John Reid varnarmálaráðherra, verður innanríkisráðherra í stað Clarke og við varnarmálunum tekur Des Browne aðstoðarfjármálaráðherra.
Ruth Kelly sem verið hefur menntamálaráðherra frá því í desember 2004 (tók við af Charles Clarke þar) verður ráðherra sveitarstjórnarmála og opinberrar stjórnsýslu í stað John Prescott og mun Alan Johnson viðskipta- og iðnaðarráðherra, verða menntamálaráðherra og Alastair Darling tekur við viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu af Johnson. Niðurstaðan er því mjög umfangsmikil uppstokkun sem vekur verulega athygli svo ekki sé fastar að orði kveðið. Til dæmis stendur nú John Prescott eftir sem ráðherra án verkefna í raun, en það helgast af því að Blair þorir ekki að fórna honum, enda er hann honum mikilvægur. Þrátt fyrir vont hneykslismál er Prescott enn inni í stjórninni og varaleiðtogi flokksins. Blair getur ekki ráðið af krafti nema með hann sér við hlið. Reyndar blasir við eftir þetta að Blair heldur öllum andstæðingum fjarri sér með lykilfólk sitt sér við hlið.
Með þessu er Tony Blair að reyna að dreifa athyglinni frá skelfilegri útkomu flokksins í sveitarstjórnarkosningunum. Með því að láta hnífinn ganga á milli vekur hann athygli fyrir það að vera óvæginn og sýnist með því refsa jafnvel nánum samverkamönnum. Enda er niðurstaðan í dag sú að Blair fórnar lykilmönnum sínum til að halda völdum sjálfur. Það er ekki óeðlilegt að það heyrist nú að ástæða tapsins í gær sé Tony Blair sjálfur. Það sé forysta hans og hann sem stjórnmálamaður sem hafi beðið ósigur umfram allt í gær.
Það er greinilegt að mikil þreyta er komin í Blair og breskir kjósendur hafa fengið nóg af honum. Það má búast við því að uppreisnarandi rísi brátt innan órólega armsins í Verkamannaflokknum - talað verði fyrir breytingum. Jafnvel Gordon Brown fjármálaráðherra, talaði með þeim hætti í morgun að stokka þyrfti umtalsvert upp innan flokksins. Allir vissu hvert þeirri gagnrýni var beint. Það vita enda allir að Brown hefur til fjölda ára horft löngunaraugum til forsætisráðherraembættisins og viljað verða eftirmaður Blairs.
Enginn vafi leikur á að það fjarar hratt núna undan forsætisráðherranum og þrátt fyrir að hann hafi látið hnífinn ganga í marga lykilmenn stjórnar hans og fórnað þeim er honum kennt um stöðu mála. Öllum er ljóst að það styttist óðum í að hann verði að láta af embætti. Hvort að það gerist með innri uppreisn, eins og var í tilfelli Margaret Thatcher árið 1990, eða með því að hann víki sjálfviljugur er stóra spurningin. Við fáum eflaust svar við henni á næstu vikum.
<< Heim