Lifnar yfir grálituðum L-listanum
Lengi hefur áhugafólk um stjórnmál á Akureyri undrast stöðu Lista fólksins sem leitt er af Oddi Helga Halldórssyni bæjarfulltrúa. Það er svosem ekki um það deilt að Oddur Helgi er vissulega nokkur kraftaverkamaður í pólitík. Honum átti að bola burt fyrir kosningarnar 1998 úr bæjarfulltrúahópi Framsóknarflokksins, þar sem hann hafði tekið sæti sem aðalmaður árið 1997. Hann lét ekki bjóða sér varamannssæti á ný og fór í sérframboð og komst inn, þvert á margar spár, og hlaut meira fylgi en lengi var spáð fyrir um. Fyrir síðustu kosningar bætti hann verulega við sig fylgi og fór inn við annan mann á lista, Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Oddur Helgi og Marsibil Fjóla hafa verið lítt áberandi á kjörtímabilinu og ekki mikið við að taka afstöðu til mikilvægra mála.
Er oft erfitt að sjá hvar þau standa í málum og því verið minna áberandi, en t.d. Samfylkingin sem finnur sér skotfæri í fjölda mála og lætur meira á sér kræla, þó ekki hafi þau um nokkurt skeið þó átt fulltrúa í bæjarstjórn. Athygli hefur vakið að undanförnu fylgishrun Lista fólksins. Kemur það okkur sem fylgjumst með pólitík ekki á óvart enda er Listi fólksins lítið sýnilegt sem pólitískt afl. Oddur Helgi hefur oft bókað hjásetu í mikilvægum málum og komið með mjög undarlegar bókanir. Þó að Oddur Helgi mælist með þessum hætti sem sést hefur að undanförnu er þó varhugavert að afskrifa hann. Honum hefur tekist í tveim kosningum að byggja með undraverðum hraða maskínu til verka og komið sér inn í bæjarstjórn og bætti svo verulega við kjörfylgi sitt 1998 síðast.
Í dag las ég yfir stefnuskrá L-listans fyrir þessar kosningar en hún var kynnt í dag. Er mjög merkilegt að sjá hvað skoðanalaust fólk verður fullt af skoðunum rétt fyrir kosningar. Það er enda ekki furða þó að maður rekist á fólk úti í bæ sem ég veit að hefur stutt hann og er hugsi. Þegar að ég spyr hvað sé að frétta af L-listanum segir það sumt hvert: "Hversvegna ætti ég að kjósa Odd? Hann hefur ekki gert neitt." Það er ekki furða þó að sumir sem stutt hafa Odd sé orðið langþreytt á honum og framboðinu. Enda hvaða mál hefur Oddur lagt fram á tímabilinu og fyrir hverju hefur hann talað? Fátt verður um svör sé L-listafólkið spurt að þessu. Ef marka má stefnuskrá virðist þetta stefnulausa fólk milli kosninga bara hafa skoðanir rétt fyrir kosningar. Það vekur vissulega athygli.
L-listinn virðist bara vera lifandi kortéri fyrir kosningar. Það höfum við séð 1998 og 2002 - enn og aftur nú. Þetta er því ekkert nýtt svosem - við höfum sér þetta allt áður. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort að Listi fólksins og Oddur Helgi persónulega nái eitthvað að klóra í bakkann í þessum sveitarstjórnarkosningum eftir 24 daga.
<< Heim