Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 maí 2006

Framboðsfundur ungliða á Akureyri

Akureyri

Í kvöld tóku ungliðar allra framboða á Akureyri höndum saman og boðuðu til umræðufundar um málefni ungs fólks á veitingastaðnum Parken í miðbænum. Þar voru bæjarmálin rædd og farið yfir kosningamálin í sveitarstjórnarkosningunum eftir ellefu daga. Á fundinum fluttu María H. Marinósdóttir, Baldvin Esra Einarsson, Bylgja Jóhannesdóttir, Húni Heiðar Hallsson, Hólmar Örn Finnsson og Sveinn Arnarsson framsögur um bæjarmál og sátu svo fyrir spurningum á eftir. Birgir Guðmundsson kennari í fjölmiðlafræði og blaðamaður, stýrði fundi.

Mun þetta vera í fyrsta sinn sem ungliðahreyfingar taka höndum saman hér á Akureyri og er stefnt á frekari samvinnu á komandi ári og fyrir alþingiskosningarnar. Ætlunin er að ungt fólk myndi sér skoðanir á eigin forsendum og taki afstöðu í málefnum bæjarins og samfélagsins í heild. Mér fannst þessi fundur ganga vel. Voru margar líflegar og spennandi spurningar og tekist á með drengilegum og góðum hætti um bæjarmál í aðdraganda þessara kosninga. Gekk þetta því mjög vel.

Það var gott að sjá að margir höfðu áhuga á fundinum og fjölmenni kom og fylgdist með. Var snarplega tekist á og allir ánægðir með útkomuna af fundinum. Þetta er gott fyrirheit um frekari samvinnu ungliða hér og lífleg skoðanaskipti um pólitík. Við ungliðar fórum hress og glöð af þessum fundi tilbúin í öflugan lokasprett kosningabaráttunnar hér.