Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 maí 2006

Sterk staða Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Lúðvík Geirsson

Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallup í Hafnarfirði er Samfylkingin undir forystu Lúðvíks Geirssonar þar á sigurbraut. Skv. tölunum bætir Samfylkingin við sig manni á kostnað Sjálfstæðisflokksins. VG er mjög nærri því að ná inn manni. Eins og allir vita vann Samfylkingin stórsigur í seinustu sveitarstjórnarkosningum í Hafnarfirði og hlaut hreinan meirihluta og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Magnúsar Gunnarssonar sem leiddi sjálfstæðismenn frá árinu 1994. Lúðvík, sem leiddi Samfylkinguna, varð bæjarstjóri og hefur leitt meirihlutann af krafti á þessu tímabili. Hafnarfjörður hefur alltaf verið traust vígi jafnaðarmanna og t.d. leiddi Alþýðuflokkurinn þar meirihluta undir forystu Guðmundar Árna Stefánssonar 1986-1994. Niðursveifla kom í veldið árin á eftir vegna hneykslismála tengdum Guðmundi Árna en landið reis síðast.

Það er auðvitað með hreinum ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði dali frá því sem síðast var. Eins og allir vita er Hafnarfjörður heimabær Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra - verður merkilegt fyrir þau að halda inn í næstu þingkosningar verði niðurstaða kosninganna í takt við þetta. Að mínu mati er ein lykilástæða á bakvið þessa niðursveiflu flokksins. Það er slöpp forysta og undarleg stefna. Það var auðvitað með hreinum ólíkindum að flokksmenn skyldu hafna Valgerði Sigurðardóttur, farsælum bæjarfulltrúa og forystukonu í nefndum bæjarins, í prófkjörinu undir lok síðasta árs. Valgerður hafði unnið af krafti og miklum heilindum fyrir flokkinn. Hún ákvað að taka ekki sæti á listanum - réði þar mestu ófrægingarherferð andstæðings hennar gegn henni persónulega í prófkjörsslagnum.

Svo er það ekki að styrkja Sjálfstæðisflokkinn í bænum að Haraldur Þór Ólason leiðtogi listans, hefur sagt skýrt að hann ætli sér ekki að axla þá ábyrgð að verða bæjarstjóri að loknum kosningum myndi flokkurinn fá til þess kraft. Hefur mér þótt lengi að það yrði sterkt hjá flokknum að bjóða Rósu Guðbjartsdóttur - kraftmikla kjarnakonu í öðru sæti listans - sem bæjarstjóraefni hans. Það virðist ekki hafa notið hljómgrunns hjá Haraldi og hans fólki. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði megi þakka fyrir að halda sér yfir þeim 40% sem þeir fengu í síðustu kosningum miðað við stöðuna. Mér hefur þótt um nokkurt skeið sem að stefndi í öruggan sigur Samfylkingarinnar og Lúðvíks. Það staðfestist í þessari könnun svo ekki verður um villst. Spennan virðist snúast um hvort að Samfylkingin fái sjö menn eða VG nái inn á kostnað þeirra. Líkur eru því miður á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái aðeins fjóra.

Auðvitað vona ég að Sjálfstæðisflokkurinn nái sterkari stöðu en sést í þessari könnun en ég tel þó flest benda til öruggs sigurs Samfylkingarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að sá kosningasigur leiði til þess að Lúðvík Geirsson fari í leiðtogaframboð í Kraganum að ári.