Stefnir í sögulegan sigur D-listans í Reykjanesbæ
Það stefnir allt í sögulegan stórsigur Sjálfstæðisflokksins undir forystu Árna Sigfússonar í Reykjanesbæ. Ef marka má tvær kannanir undanfarna daga, á NFS og RÚV, mælist flokkurinn með um eða yfir 70% fylgi og 8-9 bæjarfulltrúa. Yfirburðir af þessum kalíber eru vægast sagt fáheyrðir. Það þótti mjög djarft árið 2002 þegar að sjálfstæðisfélögin í Reykjanesbæ báðu Árna Sigfússon að leiða framboðslista sinn í kosningunum um vorið og verða bæjarstjóraefni flokksins. Vinsæll bæjarstjóri, Ellert Eiríksson, hafði ákveðið að hætta eftir tólf ára starf í Reykjanesbæ og Keflavík áður í samstarfi flokksins við Framsókn. Leiðtogastaðan var laus og Árni var sóttur til verkefnisins og hann flutti til Keflavíkur til að taka við þessu verkefni sem flestir töldu að yrði erfitt enda væri Árni lítið þekktur í bænum og hefði mjög litlar tengingar inn í samfélagið. Reyndin varð aldeilis önnur.
Sjálfstæðisflokkurinn vann sannfærandi sigur í kosningunum og hlaut hreinan meirihluta atkvæða. Árni varð bæjarstjóri og tók við forystu flokksins af miklum krafti. Eins og allir vita markaði sá sigur ekki upphaf stjórnmálaferils Árna Sigfússonar. Hann hóf ungur stjórnmálaþátttöku sína innan Sjálfstæðisflokksins. Hann sat í stjórn Heimdallar 1976-1979 og var formaður félagsins á árunum 1981-1983. Hann var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 1987-1989 - forveri Davíðs Stefánssonar á þeim stóli. Árni náði kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1986 og leiddi allt frá upphafi kraftmiklar nefndir og var lengi í forsvari skólamálanna. Flestir töldu að Árni yrði borgarstjóri við brotthvarf Davíðs Oddssonar vorið 1991 í landsmálin. Svo fór þó ekki og Markús Örn Antonsson, sem verið hafði borgarfulltrúi árin 1970-1985, varð borgarstjóri í stað Davíðs.
Í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1994 sameinuðust félagshyggjuflokkarnir í sameiginlegt framboð undir merkjum R-lista. Skoðanakannanir sýndu að framboðið myndi vinna stórsigur og mældist um tíma með um 70% fylgi. Í ljósi þeirrar stöðu ákvað Markús Örn Antonsson að segja af sér embætti borgarstjóra þann 14. mars 1994. 70 dögum fyrir borgarstjórnarkosningar, þann 17. mars 1994, tók Árni Sigfússon við embætti borgarstjóra, en hann hafði orðið annar í prófkjöri flokksins (á eftir Markúsi Erni) nokkrum vikum áður. Árni fór í slaginn og mætti þar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þingkonu Kvennalistans, sem varð borgarstjóraefni R-listans. Árna tókst að höggva nærri R-listanum en mistókst að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í kosningunum. Sigur R-listans varð mjög naumur. Árna mistókst ennfremur að leiða flokkinn til sigurs árið 1998 og tapaði þá með aðeins meiri mun en 1994.
Árni ákvað í kjölfar borgarstjórnarkosninganna 1998 að láta af leiðtogastöðunni í borgarstjórnarflokknum og tók Inga Jóna Þórðardóttir við. Hann sagði sig úr borgarstjórn síðar sama ár og Kjartan Magnússon tók sæti hans. Flestir töldu að stjórnmálaferli hans væri lokið og hann varð áberandi á vettvangi stórfyrirtækja sem forstjóri. Það voru því margir hissa þegar að kallið kom frá sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ um að hann leiddi flokkinn í stað Ellerts Eiríkssonar. Það er ekki hægt að segja annað en að það val hafi margborgað sig fyrir þá. Svo virðist vera nú að sameiginlegt framboð minnihlutans fái harkalega brotlendingu og nái engu flugi. Það stefnir allt í sögulegan sigur sjálfstæðismanna undir öflugri forystu Árna.
Ég sendi góðar baráttukveðjur til félaga minna í Reykjanesbæ og hvet þá til dáða og vinna að því að 27. maí verði sögulegur sigurdagur Sjálfstæðisflokksins í bænum. Frændi minn, Georg Brynjarsson, er þar kosningastjóri og heyrast góðar sögur af baráttunni þeirra sem er háð af krafti og með líflegum brag. Ég er sammála Geir H. Haarde formanni Sjálfstæðisflokksins, að kosningabaráttan í Reykjanesbæ sé góð fyrirmynd allra annarra sem flokkurinn vinnur að um allt land. Það verður ánægjulegt að sjá hversu öflugur sigur flokksins verði í sveitarfélaginu. Verði niðurstaðan eitthvað í takt við kannanir stefnir í sögulegan sigur.
<< Heim