Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 maí 2006

Inside Man

Inside Man

Ég ákvað að bregða mér í bíó í gærkvöldi og sjá Inside Man, nýjustu kvikmynd Spike Lee. Það var góð stemmning í salnum og margir sem höfðu ákveðið eins og ég að skella sér í bíó á þessu sunnudagskvöldi kl. 22:25 enda frídagur daginn eftir. Var svo mikil traffík í nammisölunni að við náðum rétt að koma okkur fyrir í salnum áður en myndin hófst. Það tók merkilega langan tíma að kaupa sér sitt popp og kók auk prins póló en tókst mjög vel að lokum. Var satt best að segja mjög gott að missa af auglýsingunum og því drasli öllu sem á undan myndinni er. Það var ekki erfitt að koma sér í gírinn í myndinni. Hún kippti manni strax í atburðarásina og engin óþarfa kynning átti sér stað.

Á fögrum sumardegi í New York er framið bankarán. Fólkið í bankanum er tekið sem gíslar og stefnir í erfiða stöðu að leysa. Ránið fer fljótt úr böndunum og grípa þarf til óhefðbundinna ráða til að leysa vandann. Fáir eru betri til þess en sérsveitin og þegar að lögregluforinginn Keith Frazier kemur á staðinn verður það hans verkefni að reyna að leysa málið án blóðbaðs í bankanum. Verkefnið sem blasir við er að tryggja það að starfsfólk bankans og viðskiptavinir sleppi lifandi frá hildarleiknum og það komist út heilt á húfi. Þetta verður fljótt erfitt mál við að eiga enda er höfðingi ránshópsins, Dalton Russell, mjög snjall og útsjónarsamur og hópurinn hefur undirbúið ránið í þaula og hendir hverju óvænta bragðinu til lögreglumannanna.

Frazier ákveður að leggja allt undir og fer út í huglæg átök við Russell til að ná yfirhöndinni. Staðan verður þó enn ruglingslegri og erfiðari þegar að borgarstjórinn í New York kynnir Frazier fyrir Madeleine sem vill standa vörð um tiltekna hluti í bankahólfi einu, sem inniheldur hluti sem koma sér illa fyrir vissan mann að fari upp á yfirborðið. Madeleine svífst einskis til að reyna að ná sínu fram og vill taka þátt í dæminu og koma í veg fyrir að innihald bankahólfsins fari í hendurnar á þeim sem reyna að ræna bankann. En spyrja má sig að einu: gæti kannski verið að innihald bankahólfsins sé einmitt ástæðan fyrir því að bankinn er í hverkví ræninga og fólkið innandyra er í gíslingu. Málið allt tekur athyglisverðan krók áður en yfir lýkur.

Inside Man kom mér merkilega mjög á óvart og er hún að mínu mati hörkuræma. Hún stendur sig vel í senn bæði sem hasarmynd og afþreying - hún slær ekki síður tóna gamanseminnar en hasarsins. Inside Man hittir á alla réttu tónana og nær að fanga athygli áhorfandans allt frá upphafsatriðinu til blálokanna og merkilegri fléttu sem kemur í ljós seinustu augnablikin. Hún heldur manni giskandi yfir því hversvegna þessi banki er rændur á þessu augnabliki og ekki síður afhverju ræningjarnir beita þeirri taktík sem við blasir. Myndin hitti á mig sem bæði gamansöm og spennandi og náði að fanga bæði hörkuspennu og úrvalskómík. Að því leiðir að myndin er ansi nett og fín.

Denzel Washington stendur sig vel í hlutverki Fraziers og virðist vera með öll brögð löggunnar sem til eru í bókinni á hreinu. Hann er bæði kómískur og yfirgnæfandi í túlkun sinni. Jodie Foster á stjörnuleik í hlutverki hinnar hörðu og ákveðnu Madeleine sem svífst einskis til að standa vörð um það sem henni er treyst fyrir. Foster hefur verið lítið áberandi í leik seinustu árin en snýr aftur með hvelli - er hiklaust ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar.

Clive Owen er senuþjófurinn - hann brillerar í hlutverki Daltons og skilar okkur margflóknum karakter. Mestan part myndarinnar er hann með grímu á andlitinu og sést ekki en það sést betur eftir að gríman fýkur hversu flókinn karakterinn er og áhorfandinn þarf að hafa sig allan við til að ná ferðinni hvað varðar hver tilgangur hans er með ráninu. Gamli jaxlinn Christopher Plummer slær svo enn og aftur í gegn, nú í hlutverki auðjöfursins Arthur Case.

Semsagt: eðalræma með flottu plotti og góðum leik. Hvet alla til að sjá hana.