Skemmtileg kosningavinna
Það eru 16 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Lokaspretturinn kominn af stað og í mörg horn að líta. Þessa dagana erum við sjálfstæðismenn á kosningaskrifstofunni að vinna frá morgni til kvölds og miklar annir. Það er oft sagt að það sé skemmtilegast að vinna undir álagi. Tek ég undir það - er í raun fátt sem jafnast á við það að vera í svona vinnu. Þegar að maður hefur áhuga á stjórnmálum er fátt betra. Ég hef alltaf haft orð á mér fyrir það að vera mikill áhugamaður um stjórnmál og því er kosningavinna mjög viðeigandi fyrir mig. Gæti ég varla hugsað mér að sitja heima í önnum kosningabaráttu og sleppa því að vera partur af hópnum sem vinnur verkin. Það hef ég enda aldrei gert og alltaf verið virkur í kosningavinnu í aðdraganda kosninga.
Á Íslendingi, vef sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri, er umfjöllun um kosningarnar komin á fullt og mikið af spennandi efni sem þar er að finna tengt kosningunum og félagsstarfinu almennt. Bendi fólki á að líta á það. Það eru framundan spennandi tvær vikur - mikil vinna og fjör. Það verður gaman að vera á fullu í baráttunni á lokasprettinum og taka virkan þátt í pólitík fyrir þann flokk sem er heimili manns í stjórnmálabaráttu. Það hefur verið ánægjulegt að vinna á kosningaskrifstofunni alla kosningabaráttuna og vera þar í samskiptum við flokksfólk og heyra í því yfir kaffibolla og rabba stöðu mála. Mjög skemmtilegur tími. Munum svo - fram til sigurs eftir 16 daga!
<< Heim