Blair reynir að snúa vörn í sókn
Það leikur enginn vafi á því að tekið er að fjara undan Tony Blair í breskum stjórnmálum. Svo virðist vera að slappt gengi Verkamannaflokksins í byggðakosningum hafi veikt stöðu hans verulega. Undanfarna daga hefur komið vel fram vilji órólegu deildarinnar í flokknum að Blair tímasetji brotthvarf sitt úr pólitík. Áður hefur hann sagst hætta á kjörtímabilinu og ekki gefa kost á sér í næstu þingkosningum. Nú vill þessi hópur vinstrisinnuðustu þingmanna flokksins að hann taki af skarið og ljúki öllum vangaveltum með yfirlýsingu um málið. Í dag hélt forsætisráðherrann blaðamannafund í Downingstræti 10 og svaraði andstæðingum sínum innan flokksins fullum hálsi. Hann neitaði þar af krafti að verða við þessari beiðni og storkaði andstæðingum sínum. Annaðhvort ættu þeir að hjóla í hann ef þeir væru ósáttir eða sætta sig við að hann hefði verið kjörinn af þjóðinni til sinna verka fyrir rúmu ári. Umboð sitt væri skýrt þetta kjörtímabilið.
Síðdegis hitti Blair svo þingflokkinn á fundi í þinghúsinu í Westminster og fór þar yfir stöðu mála. Mun það hafa verið átakafundur og tekist á um stöðu mála. Það vakti mikla athygli í dag að Blair hafði breytt tali sínum varðandi einn veigamikinn þátt. Í fyrsta skipti sagðist hann myndu láta af embætti vel fyrir lok tímabilsins svo að eftirmaður sinn gæti tekið sinn tíma í að setja sinn svip á flokkinn og ríkisstjórnina. Þetta er í fyrsta skipti sem Blair talar ekki með þeim hætti að hann muni sitja tímabilið á enda. Þetta er skýr áherslubreyting og gefur til kynna sátt til óánægjuaflanna um að hann muni hætta fyrr en seinna, væntanlega eftir tíu ára valdaafmælið í maí 2007 og fela Gordon Brown völdin. Það er þó alls óvíst hvort þessi sátt dugi fyrir Blair til að halda völdum. Hvort skaðinn sé orðinn meiri en lagað verði að óbreyttu. Það er altént augljóst að hart er sótt að Blair og harkan er meiri en nokkru sinni áður.
Blair sótti fram á blaðamannafundinum. Hann svaraði gagnrýnisröddum fullum hálsi og lét allt vaða. Hér er greinilega um að ræða einvígi milli hægri- og vinstrilínanna innan flokksins. Þessar átakalínur eru ekki nýjar. Blair hefur alla tíð barist við vinstrihlutann í flokknum. Sá armur hefur aftur á móti eflst til mikilla muna eftir að halla tók undan fæti hjá forsætisráðherranum í kjölfar Íraksstríðsins og ýmissa undangenginna hneykslismála á þessu ári. Þessi armur sækir nú fast að honum og krefst þess að hann víki, helst sem fyrst. Blair gefur ekki eftir og segist ekki ætla að nefna tímaplan breytinga á forystu flokksins. Athygli hefur vakið að Gordon Brown fjármálaráðherra, og sá sem helst er talinn líklegur næsti leiðtogi breska Verkamannaflokksins hvetur til stillingar og rólegri samskipta milli fylkinganna um stöðu mála. Hann vill reyna að lægja öldur.
Það er auðvitað athyglisvert að Brown vilji leyfa Blair að yfirgefa bresk stjórnmál með þeim hætti sem hæfir honum eftir langan valdaferil. Það kemur mér ekki á óvart að Gordon Brown kippist við eins og staðan er orðin og vilji reyna að finna lausn sem hentar báðum aðilum. Ég tel að Gordon Brown vilji ekki verða Michael Heseltine Verkamannaflokksins. Fyrir einum og hálfum áratug skoraði Michael Heseltine á hólm Margaret Thatcher þáverandi forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins í leiðtogakjöri. Afsögn Geoffrey Howe og trúnaðarbrestur hans og Thatcher veiktu mjög stöðu hennar og greiddu leiðina fyrir mótframboð. Svo fór að Heseltine tókst að safna nægum stuðningi til að koma í veg fyrir sigur Thatcher í fyrstu umferð og hún sagði af sér embætti þann 22. nóvember 1990 og varð undir í innri slag. Hinsvegar varð Heseltine undir í næstu umferð og varð aldrei leiðtogi Íhaldsflokksins.
Heseltine varð þekktur sem maðurinn sem lagði Thatcher en mistókst að ná í mark pólitískt. Hann varð aðstoðarforsætisráðherra í ríkisstjórn John Major undir lok valdatíma flokksins. Minnugur þess að Heseltine varð sögulega ekki metinn neins eftir áhættu sína horfir Gordon Brown til þess að betra sé fyrir hann að Tony Blair fái að skilja við bresk stjórnmál sæll og glaður. Hann veit að sinn tími er handan við hornið en það gæti allt breyst komi til harðvítugs uppgjörs milli hans og forsætisráðherrans. Þá gæti arfleifð þeirra beggja og flokksins skaðast verulega. Það er því engin furða að Brown hiki við. Hinsvegar er öllum ljóst að hann vill að Blair hætti sem fyrst, helst innan árs svo að hann fái góðan tíma til að undirbúa sig og flokkinn fyrir kosningarnar næstu - einvígið við David Cameron og Íhaldsflokkinn.
Mitt í átökunum innan Verkamannaflokksins birtist ný könnun YouGov sem sýnir flokkinn með lægsta fylgi sitt í könnunum þeirra í fjórtán ár, frá árinu 1992. Íhaldsflokkurinn mælist með 39%, Verkamannaflokkurinn hefur 29% og Frjálslyndir demókratar hafa 20%. Það er því óhætt að segja að landslagið sé breytt. Á sama tíma er svo David Cameron með meira fylgi er spurt er hver eigi að verða forsætisráðherra en Tony Blair og Gordon Brown. Það má búast við að blaðamannafundur Blairs hafi slegið á mestu gagnrýnina en ekki bundið enda á hana. Það er öllum ljóst að Blair er að missa tökin á flokknum og stöðu mála og ekki vitað hvort honum mun takast að yfirgefa bresk stjórnmál með sóma eftir langan valdaferil. Það er greinilegt að flokkurinn logar í óeiningu og samstaðan þar innanborðs á hverfanda hveli.
Það er svo spurningin hvort að hlustað verði á ákall Tony Blair til flokksfélaga um að horfa til verkefnanna framundan en ekki valdabaráttu um áhrif og forystusæti flokksins síðar meir. Það ræðst fljótlega hvort hann hefur stjórn á flokki sínum eður ei. Fipist honum sú stjórn má búast við miklum pólitískum tíðindum í Bretlandi í sumar.
<< Heim