Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 maí 2006

Sveitarstjórnarkosningar í dag

:D - broskarl

Í dag er komið að sveitarstjórnarkosningum. Nú ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa fulltrúa sína í sveitarstjórnum næstu fjögur árin. Kosningabaráttan hefur verið lífleg um allt land og nú komið að því að ljóst verði hverjir ráða för í sveitarfélögum landsins. Við ungliðar viljum við lok öflugrar kosningabaráttu minna alla ungliða á að vinna af krafti í dag til að tryggja góða útkomu Sjálfstæðisflokksins um allt land.

Sjálfstæðisflokkurinn býður fram framboðslista í 38 sveitarfélögum um land allt. Ekkert annað stjórnmálaafl í sveitarstjórnarpólitík landsins býr yfir öðrum eins krafti og býður fram nándar nærri eins marga framboðslista og hann. Yfirburðir flokksins eru því miklir á sveitarstjórnarstiginu og mun svo vonandi verða á næsta kjörtímabili. Ólíkt vinstriflokkunum er Sjálfstæðisflokkurinn óhræddur um land allt að bjóða fram nær algjörlega undir eigin merkjum enda staða flokksins sterk.

Seinustu vikur kosningabaráttunnar hafa birst hér á vef SUS pistlar um kosningabaráttuna víða um land. Birst hafa pistlar um kosningabaráttuna í Reykjavík, Akureyri, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Fjarðabyggð, Árborg, Mosfellsbæ, Fljótsdalshéraði, Akranesi og Vestmannaeyjum. Ég vil þakka þeim sem rituðu þessa pistla kærlega fyrir sitt framlag og áhugavert innlegg á vefinn um kosningabaráttuna á þessum stöðum.

Um land allt er kraftur í Sjálfstæðisflokknum fyrir þessar kosningar. Við finnum sterka stöðu bæði í skoðanakönnunum og umræðunni á stöðunum og getum farið sigurviss inn í þessar kosningar. Eftir 15 ára samfellda forystu Sjálfstæðisflokksins í landsmálum og sterka forystu á sveitarstjórnarstiginu bendir flest til þess að við getum vel við unað að loknum þessum kosningum.

:D til sigurs í dag.