Gremja innan Samfylkingarinnar
Sumarþingi lauk á laugardag með eldhúsdagsumræðum. Það var mikill hraði undir lok þingstarfa og mörg mál fóru í gegn þó að stórmál á borð við nauðsynlegar breytingar á Ríkisútvarpinu hafi setið eftir, sem er auðvitað alveg með ólíkindum. Svo virðist vera að hraðinn hafi verið svona mikill undir lokin því að Framsóknarflokkurinn vildi þingið heim sem fyrst áður en að forystuskipti verði innan flokksins. Reyndar virðist sem að mikil valdabarátta sé innan flokksins um hver eigi að taka við formannsembættinu en útlit er fyrir að henda hafi átt Guðna Ágústssyni samhliða brotthvarfi Halldórs. Virðist lítið fararsnið á Guðna og hljóta að teljast meiri líkur en minni á að hann muni sækjast eftir formennskunni. Það er eðlilegt að hann hafi áhuga á henni nú þegar að forystusætið er innan seilingar. Eins og forystumál Framsóknar horfa nú við áhugamönnum um stjórnmál blasir við að þar séu mikil átök bakvið tjöldin og þingið hafi farið heim fyrr en ella vegna innri vandamála í flokki forsætisráðherrans.
Í eldhúsdagsumræðu á laugardag flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mikla ádrepu og málaði stöðuna eins dökkum litum og hægt er að draga fram. Það var alveg með hreinum ólíkindum að hlusta á neikvæðnina og niðurdrepandi velgjuna í formanni Samfylkingarinnar. Engu var líkara en allar heimsins áhyggjur hvíldu á henni. Það er engin furða að neikvæðni sé í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir kosningarnar fyrir viku. Berin eru vissulega súr fyrir Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu að kosningunum loknum. Þar var víða lagt mikið undir og víðast hvar um landið verður Samfylkingin undir. Sé Akureyri og Hafnarfjörður tekin frá blasir við slæm staða flokksins á sveitarstjórnarstiginu. Flokkurinn missir völdin svo dæmi sé tekið: í Reykjavík, Akranesi, Húsavík, Árborg, Siglufirði og Ólafsfirði, og Hveragerði. Sameinaðir samkrullslistar með Samfylkinguna innanborðs fengu háðuglega útreið víða um land ennfremur.
Hvert sem litið er blasir við vond staða. Þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð formaður Samfylkingarinnar var stefnt að öflugum sigrum um allt land. Ári síðar er staða flokksins verri en fyrir seinustu þingkosningar og er engan veginn á þeirri siglingu sem vonast var til. Formaður og varaformaður flokksins bregðast við þessum tölum með því að stinga höfðinu í sandinn. Ólíkt þeim er Össur Skarphéðinsson, forveri ISG á formannsstóli, í rusli og ritar um hvítasunnuhelgina á vef sinn krónólógíu um úrslitin og talar þar um útreið í Reykjavík sem er auðvitað raunin. Mikla athygli mína vakti að lesa pistil eftir Ágúst Ólaf Ágústsson varaformann Samfylkingarinnar, í vikunni þar sem hann fór yfir úrslit kosninganna með stórundarlegum hætti. Mér fannst það kostulegt að lesa þar þá söguskýringu hans að meirihluti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri væri fallinn. Hann nefnir aðeins Sjálfstæðisflokkinn í því samhengi.
Ég ætla að vona að maður í hans stöðu viti að Sjálfstæðisflokkurinn hélt sínum fjórum bæjarfulltrúum á meðan að Framsóknarflokkurinn galt sögulegt afhroð í þessum bæ og tapaði miklu fylgi - vegna þess féll meirihlutinn. Það er ekki furða að Samfylkingunni farnist illa með svona einstaklinga við stjórnvölinn eins og þennan varaformann. Mér fannst sérstaklega athyglisvert að sjá hversu mikið afhroð Samfylkingarinnar í Reykjavík varð. Sama hversu mikið Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur reyna að fegra stöðuna blasir við að Degi misheppnaðist að gera kosningabaráttunni að sinni. Borgarfulltrúum flokksins var fórnað af formanni flokksins í prófkjöri þar sem kjörið var borgarstjóraefni til að efla Dag B. Eggertsson, óháðan borgarfulltrúa R-listans sem var handvalinn af ISG til verka, og hljóta niðurstöðurnar að vera vonbrigði fyrir forystu flokksins.
Það er engin furða að formaður Samfylkingarinnar sé geðill með stöðu mála hjá flokknum. Hvernig geta úrslit þessara kosninga flokkast sem annað en áfall fyrir flokkinn. Framundan eru þingkosningar eftir ellefu mánuði. Verði tölur eitthvað í takt við þetta þar myndi blasa við nokkurra þingmanna tap Samfylkingar eftir fjölda ára vist í stjórnarandstöðu. Slík staða, ef af yrði, myndi ekki verða túlkað með neinum öðrum hætti en sem afhroð fyrir formann flokksins. Annars er merkilegt að sjá landakortið með stöðu meirihluta um allt land sem NFS sýndi í gær. Hún sýnir ekkert rautt landslag Samfylkingar svo mikið er víst. Einu lykilstaðirnir þar sem flokkurinn verður í forystu á eigin vegum eru Hafnarfjörður, Hornafjörður, Akureyri og Skagafjörður. Þegar að litið er á landakortið skilst gremja Ingibjargar Sólrúnar sífellt betur.
<< Heim