Nýr meirihluti myndaður á Akureyri
Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa myndað meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010. Flokkarnir hlutu sjö bæjarfulltrúa af ellefu í kosningunum 27. maí sl. og hafa því rúman meirihluta í bæjarstjórn. Leiðtogar flokkanna, Kristján Þór Júlíusson og Hermann Jón Tómasson, kynntu samkomulag um myndun meirihluta á blaðamannafundi á Ráðhústorgi kl. 13:30 í dag. Viðræður milli flokkanna hafa staðið síðan á þriðjudag en fyrst reyndi Samfylkingin án árangurs að mynda meirihluta með vinstri grænum og Lista fólksins. Mun málefnasamningur nýs meirihluta í bæjarstjórn verða formlega kynntur í upphafi næstu viku en unnið verður að lokafrágangi mála um hvítasunnuhelgina. Sjálfstæðisflokkurinn mun tilnefna bæjarstjóra fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins en Samfylkingin síðasta ár tímabilsins.
Mun Kristján Þór Júlíusson því áfram verða bæjarstjóri á Akureyri en hann sagðist á blaðamannafundinum í dag ekki geta svarað því hvort hann myndi gegna embættinu þau þrjú ár sem um væri samið. Hermann Jón Tómasson verður formaður bæjarráðs en mun væntanlega verða bæjarstjóri á Akureyri undir lok kjörtímabilsins. Lokaniðurstaða varðandi skipan í nefndir og ráð mun liggja væntanlega fyrir í næstu viku. Ég fagna því sem formaður sjálfstæðisfélags á Akureyri að fyrir liggi niðurstaða í meirihlutaviðræðunum og ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram í forystu bæjarmálanna. Nýr meirihluti er mjög traustur og í raun eini kosturinn í stöðunni sem gat stjórnað málefnum Akureyrarbæjar af krafti næstu árin. Með þessu samkomulagi milli stærstu flokkanna ætti að vera tryggt að sterkur meirihluti sé við völd hér næstu árin.
Þetta eru tveir flokkar með traust og gott umboð kjósenda og vonandi mun nýr meirihluti verða öflugur í verkum sínum og pólitískri forystu næstu árin.
<< Heim